Categories
Greinar

Hafið bláa hafið

Deila grein

07/05/2015

Hafið bláa hafið

HÞÞ1„Hafið bláa, hafið hugann dregur, hvað er bak við ystu sjónarrönd?“ Þetta eru ljóðlínur sem Íslendingar kannast vel við. En hafið okkar bláa er ekki bara efni í fallegar ljóðlínur. Það er okkar stærsta náttúruauðlind sem þarf að nálgast af virðingu og hún þarf að vera til staðar fyrir komandi kynslóðir. Það vita Íslendingar. Til þess að svo megi verða þarf að huga að lífríkinu og umhverfi hennar með markvissum hætti.

Mengun sjávar er alþjóðlegt vandamál ekki síður en mengun lofthjúps jarðar þar sem umferð skipa er óháð landamærum og losun mengandi efna á einum stað hefur oftar en ekki áhrif fjarri losunarstaðnum. Fjölmargir mengunarvaldar, af mannavöldum, ógna hreinleika og heilbrigði hafsins og eru afleiðingar margs konar mengunar sem sífellt fer vaxandi. Óhugnanlegt magn af úrgangi og spilliefnum berast í hafið dag hvern og því miður eru að koma í ljós ýmsar óæskilegar breytingar á vistkerfi sjávar af völdum manna.

Ísland fer með forsæti í Norðurlandaráði á árinu 2015. Í formennskuáætluninni, þar sem markmið íslensku formennskuáætlunarinnar koma fram, er lögð sérstök áhersla á norðurslóðir með áherslu á hafið sem umlykur Ísland. Á níunda áratug síðustu aldar beindist athyglin að siglingum og mengun sjávar og á tíunda áratugnum að umhverfis- og öryggismálum. Markmið íslensku formennskuáætlunarinnar er að halda áfram því starfi sem unnið hefur verið varðandi umhverfismál, loftslagsbreytingar, efnahagsmál, samfélagsmál og öryggismál en allt eru þetta þættir sem snúa að hafinu okkar.

Stefna íslenskra stjórnvalda í málefnum hafsins felur m.a. í sér að tryggja sjálfbærni þess og vinna gegn mengun sjávar. Ísland hefur verið þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði og leiðandi í málefnum hafsins. Íslensk stjórnvöld hafa staðfest þó nokkra alþjóðlega samninga um varnir gegn mengun sjávar frá skipum. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á og hefur eftirlit með framfylgd flestra þeirra. Þá gegnir umhverfis- og auðlindaráðuneyti stefnumótunar- og eftirlitshlutverki á þessu sviði. Það ákveður t.d. hvaða alþjóðasamningar eru staðfestir og setur reglugerðir vegna þeirra. Að auki gegna stofnanir innanríkisráðuneytis, Samgöngustofa og Landhelgisgæsla Íslands, afmörkuðum hlutverkum á þessu sviði.

Skýr stefnumörkun stjórnvalda
Þó að stefnumörkun stjórnvalda sé skýr varðandi verndun sjávar gegn mengun er nauðsynlegt að gera aðgerðaráætlanir. Áætlanir um það hvernig skuli framfylgja settum markmiðum og auka fjármagn til að hrinda þeim í framkvæmd. Það eru ekki bara óþrjótandi möguleikar sem felast í því að vera staðsett á norðurhluta Atlandshafsins. Í því felast einnig miklar skyldur. Sjálfbær veiði, góð umgengni og ítarlegar rannsóknir eru góð markmið en þeim þarf að fylgja eftir.

Höskuldur Þórhallsson

Greinin birtist í Öldunni, fréttablaði um sjávarútveg 6. maí 2015.