Categories
Greinar

Hagsmunir þjóðarinnar varði leiðina

Deila grein

04/03/2015

Hagsmunir þjóðarinnar varði leiðina

Sigmundur-davíðEitt hundrað milljarða hagnaður bankanna (80 milljarðar eftir skatta) á árinu 2014 er áminning um þau mistök sem gerð voru við endurreisn bankanna eftir hrun. Vegna ákvarðana sem þá voru teknar er bankakerfið of stórt og ávinningur af endurmetnu lánasafni kemur að mestu leyti í hlut kröfuhafa Arion banka og Íslandsbanka en ekki ríkisins sem þó bar áhættuna af endurreisninni.

Lögum samkvæmt gilda strangar reglur um eignarhald á fjármálafyrirtækjum. Sérstakar undanþágur í lögum þurfti til að heimila kröfuhöfum að eignast bankana á árinu 2009. Núgildandi lög heimila ekki slíkar undanþágur þannig að nú stæðist það ekki lög að afhenda kröfuhöfum bankana eins og gert var á sínum tíma.
Samanlagður hagnaður Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans frá hruni er um 360 milljarðar króna. Stór hluti þessa hagnaðar kemur til vegna endurmats á lánasöfnum sem færð voru á helmingsafslætti yfir í nýja banka en eru mun meira virði.

Meirihluti hagnaðarins til kröfuhafa
Frá árinu 2009 hefur meirihlutinn af 360 milljarða króna hagnaði bankanna eftir skatta runnið til erlendra kröfuhafa. Miðað við óbreytta gjaldeyrissköpun ræður íslenska hagkerfið ekki við að greiða arð af hagnaðinum úr landi, nema því aðeins að sleppa því að greiða samningsbundnar afborganir af erlendum lánum. Það er hættulegt fyrirkomulag.

Arðsemi eigin fjár bankanna er langt umfram það sem aðrir atvinnurekendur eiga að venjast og það þó eigið fé bankanna hafi safnast upp frá stofnun þeirra. Eigið fé bankanna þriggja er nú um 600 milljarðar króna og hefur meira en sjöfaldast að núvirði frá aldamótum.

Þetta hefur gerst þrátt fyrir háan rekstrarkostnað bankanna sem týnist inni í miklum hagnaði þeirra. Rekstrarkostnaðurinn á árinu 2014 nam svipaðri fjárhæð og ríkið ver til menntamála og menningarstarfsemi, eða um 80 milljörðum króna.

Við eðlilegar aðstæður væri ástæðulaust að amast við góðri afkomu fyrirtækja. Uppspretta hagnaðar skiptir hins vegar máli og í tilviki bankanna sprettur hann að miklu leyti af endurmati á lánasöfnum og fákeppni. Aðgangshindranir eru óvenju miklar í bankastarfsemi, ekki síst vegna umfangsmikils regluverks. Ólíklegt er því að nýir aðilar ryðji sér til rúms á markaðnum með áherslu á lægri kostnað, minni þjónustu og betri kjör eins og gerst hefur á mörgum sviðum viðskiptalífsins og bylt áratugagömlum viðskiptavenjum. Bankar eru því betur varðir gegn samkeppni, innlendri sem erlendri, heldur en almennt tíðkast um fyrirtæki.

Breytingar óhjákvæmilegar
Á næstu árum eru breytingar á eignarhaldi bankanna óhjákvæmilegar. Stjórnvöld þurfa að vinna að því að skipulag bankakerfisins tryggi skilvirka miðlun fjármagns til og frá heimilum og fyrirtækjum á hagkvæman og öruggan hátt.
Það er ekki hægt að nálgast greiðslujafnaðarvanda Íslendinga af léttúð. Af óskhyggju telja sumir að unnt sé að komast hjá efnahagsáföllum með því að styggja engan og halda öllum góðum, en slíkt er ekki raunhæft. Þvert á móti þarf skýra sýn og sterka forystu þar sem hagsmunir íslensku þjóðarinnar eru hafðir að leiðarljósi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.