Categories
Greinar

Hugleiðingar á degi íslenskrar náttúru

Deila grein

17/09/2014

Hugleiðingar á degi íslenskrar náttúru

Sigurður Ingi JóhannssonOkkur Íslendingum finnst landið okkar fagurt og merkilegt. Vissulega er fegurð afstætt hugtak, en við getum þó með nokkru rökstutt þessa skoðun okkar.

Hér er fjölbreytt landslag og stórbrotin náttúra, frá brimsorfnum ströndum til óbyggðra víðerna, þar sem spúandi eldgígar gjósa nú við jökulsporð. Við erum heldur ekki ein um þessa skoðun, því sérstök náttúra Íslands dregur æ fleiri erlenda ferðamenn til sín. Á sama tíma fjölgar stöðugt þeim Íslendingum sem sækjast eftir því að njóta náttúrunnar til útivistar og ferðalaga.

Um leið hafa menn áhyggjur af því að íslenskir ferðamannastaðir séu ekki í stakk búnir til að taka við þeim fjölda ferðamanna sem sækja þá heim. Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er unnið að gerð frumvarps sem tekur til þess með hvaða hætti best verði að byggja upp og jafnframt að viðhalda ferðamannastöðum til lengri tíma í formi framkvæmdaáætlunar. Gert er ráð fyrir að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi til tólf ára, þar sem fram kemur hvernig uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum verður háttað.

Þá er unnið að því því í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu að útfæra leiðir til að fjármagna uppbyggingu og viðhald á ferðamannastöðum. Mikilvægt er að hafa víðtækt samráð svo ekki myndist gjá á milli ferðaþjónustunnar og almennings í landinu.

Nauðsynlegt er að tryggja, eins og áður, sanngjarnan rétt almennings til frjálsrar farar svo hann geti notið náttúru landsins, án þess að gengið sé á hagsmuni sem þar kunna að liggja fyrir. Spyrja má hvort ekki þurfi að skilja betur að almannaréttinn, þ.e. rétt einstaklinga til frjálsrar farar um landið og svo þeirra sem taka gjald fyrir að fara með ferðamenn um land í eigu annarra.

Þá þurfum við að huga að fagurri ásýnd náttúrunnar og skilja ekkert eftir sem ekki á þar heima. Með samstilltu átaki getum við í sameiningu gætt þess að halda landinu hreinu og umgangast náttúruna af virðingu. Þar þurfum við að byrja á okkur sjálfum og brýna fyrir börnum okkar þá hugsun að henda ekki rusli á almannafæri.

Megi dagur íslenskrar náttúru verða okkur öllum ánægjulegur.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.