Bæði í lífi og starfi er nauðsynlegt að hafa skýr markmið. Markmiðum er unnt að líkja við vegalagningu, það geta komið upp ýmsar hindranir á leiðinni, en alltaf er vitað hvert á að halda. Þetta á við um vegferð hugsjóna ríkisstjórnar um að leiðrétta skuldastöðu íslenskra heimila. Árið 2009 hrópaði fólk þúsundum saman á hjálp, hjálp til að bjarga húsnæði þeirra þannig að þau yrðu ekki að fara á götuna. Þetta var veruleiki sem við skulum hafa í huga enda er þak yfir höfuðið ein af grunnþörfum okkar. Gleymum heldur ekki að á árunum 2009-2010 voru 500 milljarðar kr. afskrifaðir hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Það var sannarlega komið að heimilunum, heimilum venjulegs fólks sem hafði orðið fyrir forsendubresti og stórhækkuðum skuldum.
Snjöll flétta og seigla
Staðfesta eða seigla er nauðsynlegur eiginleiki til að hvika ekki frá markmiðum þó að á móti blási. Með staðfestu og elju voru leiðir fundnar til björgunar skuldsettum heimilum. Strax eftir hrun lagði Framsóknarflokkurinn til að fasteignalán yrðu lækkuð um 20%. Það var skotið í kaf af þáverandi ríkisstjórn. Nú er nærri sex árum seinna hefur leiðréttingin og skattfrelsi innborgunar séreignarlífeyrissparnaðar gefið heimilunum möguleika á 20% lækkun húsnæðisskulda. Stjórnarflokkarnir lofuðu fyrir síðustu kosningar að styrkja heimilin sérstaklega. Þjóðin studdi þær hugmyndir eindregið og Framsókn og Sjálfstæðisflokkur unnu stórsigur en fyrrverandi stjórnarflokkar biðu afhroð. Ríkisstjórnin hefur uppfyllt þessi meginkosningaloforð rækilega og lækkar höfuðstóll íbúðalána um 150 milljarða. Að nýta saman höfuðstólsleiðréttinguna og nýtingu séreignarsparnaðar er stórsnjöll hugmyndafræði og lækkar greiðslubyrði fjölskyldna í landinu og losar um mánaðarlegar ráðstöfunartekjur. Ef við hugum betur að þessari leið þá eru ríkisstjórnarflokkarnir að setja fram nýja hugsun í húsnæðismálum. Þeir sem ekki eru með fasteignalán geta einnig nýtt sér séreignarsparnaðarúrræði – til að spara fyrir íbúðahúsnæði. Þetta á við um fólk sem er núna á leigumarkaði og/eða fyrir ungt fólk til að kaupa á fyrstu íbúð. Um 100 þúsund manns sóttu um leiðréttingu og langflestir hafa fengið jákvæð svör. Eins margir aðrir sem hafa komið nálægt þessari aðgerð hefur ríkisskattstjóri og starfsfólk hans unnið þrekvirki við að láta allt ganga upp t.d. þegar 62 þúsund manns heimsóttu vefinn á einum degi.
Bættur hagur heimila
Meðalafskrift þeirra er fengu 110% leiðina í tíð fyrri ríkisstjórnar var 14 milljónir. Engir fá meira afskrift núna en fjórar milljónir. Dreifingin á leiðréttingunni er góð og lækkun skulda er fyrst og fremst hjá fólki með lágar- eða meðaltekjur. Hvað mesta gleðiefnið er að 4000 heimili fara úr neikvæðri eiginfjárstöðu í fasteigninni í jákvæða. Þrátt fyrir að um 100.000 manns/skuldarar hafi óskað leiðréttingar og þannig lýst vilja sínum að leið ríkisstjórnarinnar yrði farin, lætur stjórnarandstaðan öllum illum látum og finnur leiðréttingunni flest til foráttu. Að sjálfsögðu er þessi leiðrétting bundin við þá sem eru með skuldir vegna íbúðahúsnæðis. Leigjendur, fólk með búseturétt og námsmenn þarf að aðstoða með öðrum hætti. Frumvarp um framtíðarskipulag húsnæðismála kemur senn fyrir Alþingi.
Hugsjónir, staðfesta og efndir
eru lykilorð í stjórnmálum, sem allir eiga að geta verið sammála um og gleðjast þegar þau eru virt. Ríkisstjórnin hefur sýnt og sannað að hún starfar eftir þessum lykilorðum og tekur eitt verkefni fyrir um leið öðru lýkur. Vissulega bíða mörg verðug verkefni úrlausnar á Alþingi eins og húsnæðis- og heilbrigðismál. Fljótlega koma fram hugmyndir til lausnar varðandi þau mál.
Sigrún Magnúsdóttir
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. nóvember 2014
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.