Fram kom hjá þekktum fréttamanni og álitsgjafa í morgun að hann skildi ekki hvernig mörg hundruð milljarða skuldir þrotabúa gömlu bankanna gætu orðið að ávinningi fyrir ríkið. Þekkingarleysi á því er algengt en vel afsakanlegt því vitaskuld eru ekki allir sérfróðir um uppgjör þrotabúa og slit fjármálafyrirtækja. Ástæða er til að útskýra málið. Framsóknarmenn leggja til að svigrúm sem væntanlega skapast í tengslum við uppgjör við kröfuhafa gömlu bankanna verði nýtt til að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán.
Skuld þrotabús er eign þess sem á viðkomandi kröfu í búið. Verðmæti krafna í þrotabú ræðst fyrst og fremst af væntingum um hversu mikið fáist úr búinu upp í þær kröfur. Þær væntingar ráðast svo einkum af ætluðu verðmæti þeirra eigna sem í búinu eru. Kröfur í Glitni og Kaupþing munu eftir hrun hafa selst á nálægt 5% af nafnvirði. Líklegt er að hinir svonefndu vogunarsjóðir hafi eignast sínar kröfur á verði nálægt því. Talið er að allt að 95% af kröfum í bú gömlu bankanna séu nú í eigu erlendra aðila, að langstærstum hluta vogunarsjóðanna. Í vetur bárust fréttir af því að kröfurnar seldust á 25-30% af nafnverði. Kröfurnar hafa því margfaldast í verði.
Ástæða þess að kröfurnar eru einhvers virði er sú að það eru eignir í búunum sem eigendur krafnanna eiga tilkall til. Samkvæmt tölum frá október 2012 er áætlað að heildarvirði eigna í búum gömlu bankanna sé 2544 milljarðar króna. Þar af séu um 460 milljarðar í íslenkum krónum og sem nemur 2084 milljörðum króna í erlendum gjaldeyri, miðað við opinbert gengi. Við skipti á búunum væru þetta þær eignir sem rynnu til kröfuhafanna í hlutfalli við fjárhæðir krafna þeirra.
Mjög óæskilegt væri að úthluta kröfuhöfunum öllum krónueignunum úr búunum og leyfa þeim að skipta þeim yfir í erlendan gjaldeyri og fara með úr landi. Slíkt ylli allt of mikinn þrýsting á gengi krónunnar til lækkunar. Þess vegna hefur víða komið fram að semja þurfi við þá um verulegan afslátt af krónueignunum. Umfjöllun um þær afskriftir sem þyrftu að koma til má m.a. sjá hér. Þar gæti ríkið komið inn sem milliliður en ýmsar útfærslur gætu verið á því með hvaða hætti andvirði afsláttarins rynni frá kröfuhöfunum til ríkisins. Slíkt væri samkomulagsatriði en einnig væri mögulegt að beita skattlagningarvaldinu ef með þyrfti. Sem dæmi má nefna þá leið að ríkið semdi um að eignast krónueignir úr búunum með verulegum afslætti og innleysti hagnað við endursölu. Slíkt yrði þó að fara fram samhliða uppgjöri við kröfuhafana að öðru leyti og samkvæmt heildstæðri áætlun um afnám fjármagnshafta. Þann hagnað mætti svo nýta til að fjármagna leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum.
Þorsteinn Magnússon
3. sæti í Reykjavík norður