Categories
Greinar

Hvers eiga gamlir að gjalda?

Deila grein

15/03/2013

Hvers eiga gamlir að gjalda?

Skoðanafrelsi: Einn er sá hópur þegna í þjóðfélagi okkar sem með óréttmætum hætti er stundum settur hjá. Ekki er tekið sanngjarnt tillit til skoðana eldri borgara og þeim er ekki gefið tækifæri til að hafa áhrif á samfélagið með sama hætti og öðrum þjóðfélagshópum. Sum fyrirtæki, sem standa fyrir skoðanakönnunum meðal almennings, leggja ekki spurningar fyrir fólk eldra en 67 ára. Það er eins og viðhorf þess skipti engu máli. Með sterkum rökum má segja að tjáningarfrelsi aldraðra sé heft með þessu framferði, en klárlega er þetta virðingarleysi gagnvart galvösku fólki á góðum aldri.

 

Atvinnufrelsi: Annað tilvik af svipuðum toga er það þegar stór hópur aldraðra er sviptur atvinnufrelsi. Þeim sem unnið hafa hjá hinu opinbera og raunar mörgum einkafyrirtækjum er gert að hverfa úr störfum ekki seinna en sjötugir, alveg án tillits til heilsufars, vinnugetu, starfshæfni eða vilja viðkomandi. Sem betur fer býr þjóðin enn við góða heilsugæslu og margir halda góðri vinnufærni langt fram yfir sjötugt. Margt af þessu fólki er ekki ginnkeypt fyrir því að láta af störfum og setjast í sófann og einangrast frá þjóðlífinu. Mikill vinnukraftur fer þannig forgörðum að óþörfu.

 

Efnahagsstaða: Sem betur fer er staða margra aldraðra sæmileg eða góð. Margir hafa eignast íbúðir sínar að fullu en aðrir þurfa að berjast við að halda úti stökkbreyttum húsnæðislánum eins og þeir sem yngri eru. Sennilega hafa aldraðir tapað meiri fjármunum í hruninu en aðrir þjóðfélagshópar. Óreiðumennirnir sem settu þjóðina hérumbil á hausinn komu aðeins í undantekningartilfellum úr hópi eldra fólks. Það eru ekki margir í hópi 67 ára og eldri sem hafa fengið gefnar upp skuldasúpur og sennilega fáir úr þessum hópi sem eru eigendur að fúlgum í skattaskjólum erlendis.

 

Fjárhagslegt frelsi: Eignir aldraðra fyrir hrun voru fyrst og fremst húsnæði og réttindi í lífeyrissjóðum. Sumir áttu einnig innstæður í bönkum og einhver hlutabréf. Húsaverð hefur fallið, innstæður rýrnað vegna verðbólgu og halda hvergi nærri verðgildi sínu, hlutabréf eru í flestum tilfellum orðin verðlaus og lífeyrisgreiðslur stórlega skertar, bæði frá sjóðum og frá tryggingunum. Nú er það í sjálfu sér ástæðulaust að aldraðir skilji eftir sig verulegan arf. Hitt ætti að vera sanngjarnt að sem allra flestir þurfi ekki að líða skort og geti búið við sæmilegt efnahagslegt öryggi á efri árum. Því miður er alls ekki svo hjá öllum. Einnig ber á það að líta að eldra fólk sem hefur orðið fyrir efnahagslegum áföllum, hefur hvorki möguleika né tækifæri til að byggja á ný upp sjóði sér til öryggis á ævikvöldinu. Um 20% þjóðarinnar eru svokallaðir eldri borgarar. Það er sárt að tilheyra hálfgerðum utanveltuhópi í þjóðfélaginu og því verðum við að breyta. Ef við sýnum samstöðu og dug getum við haft veruleg áhrif á okkar sameiginlegu hagsmuni. Málefni aldraðra þurfa aukna athygli og þeir að njóta eðlilegs réttlætis.

Sigrún Magnúsdóttir