Það væri áhugavert að fá upplýsingar um vaxtagjöld ríkisins frá hruni, vegna lána til bjargar fjármálakerfinu. Heyrst hefur að sú tala gæti verið í kringum 58 milljarða króna. Til að fá fullkomna vissu um kostnaðinn þá er ég að leggja fram skriflega fyrirspurn til fjármála – og efnahagsráðherra um málið. Svör ættu að berast upp úr miðjum nóvembermánuði.
Áhugaverðar upplýsingar
Áhugavert er að vita hvort þessar tölur séu réttar. Ástæðan er sú að all nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa komið fram með stór orð. Orð þessa efnis að þeir 80 milljarðar króna sem renna munu til heimila á næstu dögum í gegnum leiðréttinguna, sé illa varið. Þeirra skoðun er að nýta eigi peningana í aðra og þarfari hluti.
Furðulegur málflutningur
Ég skil ekki þennan málflutning. Af hverju er í góðu lagi að greiða tugi milljarða til fjármálastofnanna, en þegar kemur að heimilum landsins þá ætlar allt um koll að keyra? Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa komið fram með orð eins og ,,arfavitlaus skuldaniðurfelling“ og ,,við teljum arfavitlausa fásinnu að fara í þessar skuldaleiðréttingar með þessum gríðarlega tilkostnaði fyrir hið opinbera.“
Hvað er vaxtakostnaður vegna fjármálakerfisins annað en gríðarlegur tilkostnaður fyrir hið opinbera? Hvers vegna finnst sumum þingmönnum stjórnarandstöðunnar það í lagi að fjármálastofnanir sogi sífellt til sín fjármagn frá heimilum landsins? Af hverju finnst nokkrum þeirra ekki í lagi að krefja föllnu fjármálastofnanirnar um að borga hluta tilfærslunnar til baka? Það er að mínu mati algjörlega óskiljanlegt.
Rangur málflutningur
Á sama tíma fara þingmenn stjórnarandstöðunnar með rangan málflutning og segja leiðréttinguna gagnast að mestu hátekjufólki, sá málflutningur er rangur. Staðreyndin er sú að skuldaleiðréttingin er þannig útfærð að þeir tekjulægri fá hlutfallslega meira. Hátt í helmingur leiðréttingarinnar fer til heimila með undir 6 milljón krónur í árslaun. Heimili þar sem tveir einstaklingar eru hvor um sig með undir 250 þús. krónur í mánaðarlaun.
Staðreyndir úr gögnum ráðuneyta
Staðreyndin sú að 110 % leiðin nýttist aðeins 10 % heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Um 1% heimilanna hrepptu helming niðurfærslunnar, það eru 20 milljarða króna. Þessi 775 heimili fengu hvert yfir 15 milljón króna niðurfærslu og var meðaltal niðurfærslu um 26 milljónir. Meðaltekjur þessara heimila voru 750 þúsund á mánuði og talsvert mörg dæmi um að menn hafi haft 2 milljónir á mánuði.
Mig langar því að biðja þingmenn stjórnarandstöðunnar að líta sér aðeins nær. Skoða sín eigin verk áður en farið er að gagnrýna verk annarra.
Elsa Lára Arnardóttir
Greinin birtist á visir.is 6. nóvember 2014
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.