Categories
Greinar

Íbúðir fyrir alla

Deila grein

15/09/2015

Íbúðir fyrir alla

Silja-Dogg-mynd01-vefÍ velferðarþjóðfélagi eins og Íslandi eiga allir að eiga kost á húsnæði við hæfi. Fjölbreytt framboð húsnæðis verður að vera tryggt og verðlag í samræmi við meðallaun. Því miður er húsnæðiskerfið á Íslandi ennþá vanþroskað og því er mikilvægt að við lítum til nágrannalanda okkar og lærum af því sem þau gera vel á þessu sviði.

Samvinnan
Aðgerðir til úrbóta í húsnæðismálum landsmanna eru forgangsverkefni. Í fjárlögum 2016 er gert ráð fyrir að 2,64 milljörðum króna verði samtals varið til uppbyggingar á félagslegu húsnæði og í nýtt húsnæðisbótakerfi.

Þann 28. maí sl. sendi ríkisstjórnin út yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði. Í henni kemur fram að ríkið skuldbindi sig, ásamt ASÍ, BSRB, BHM og fleiri samtökum, til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Stefnt verður að því að fjölga hagkvæmum og ódýrari íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma.

Fleiri íbúðir-lægra verð
Samkvæmt yfirlýsingunni verður félagslega leigukerfið fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga sem nema um 30% af stofnkostnaði. Framlag ríkis og sveitarfélaga, auk annarra þátta ættu að jafnaði að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en um 25 % af tekjum viðkomandi. Dæmi: Manneskja með 300 þús. kr. í laun greiðir þá að hámarki 65 þús.kr. í húsaleigu.

Gert er ráð fyrir að byggðar verði 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum, max. 600 á ári. Sumum þykir sú upphæð sem ætluð er í þetta verkefni á árinu 2016 lág en þegar rýnt er í forsendur þá kemur í ljós að útreikningar gera m.a. ráð fyrir breytingum á byggingarreglugerð og lækkun lóða og gatnagerðargjalda. Það mun skila sér í lægri byggingarkostnaði. Með þessum hætti verður mögulegt að veita tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, aðgang að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

Nú þurfum við að taka höndum saman, leggja pólitíkina til hliðar og byggja upp fjölbreytt húsnæðiskerfi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. september 2015.