Í skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins um mun á stöðu kvenna og karla sem kom út í október síðastliðnum mælist kynjajafnrétti hvergi meira en á Íslandi sjötta árið í röð. Hinar Norðurlandaþjóðirnar skipa sér í næstu fjögur sæti. Við erum stolt af árangrinum þótt enn sé langt í land svo fullu kynjajafnrétti verði náð. Það er til dæmis ólíðandi að enn skuli ekki sömu laun greidd fyrir sambærileg störf, að konur séu enn í minnihluta í áhrifa- og stjórnunarstöðum í samfélaginu og hve erfiðlega gengur að brjóta upp kynjaskiptingu starfa á vinnumarkaði. Norðurlöndin hafa átt í samstarfi á sviði jafnréttismála á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar í 40 ár. Ráðherranefndin hefur stutt rannsóknasamstarf sem hefur kortlagt og sýnt hvernig kynferði ræður enn sem fyrr miklu um náms- og starfsval ungmenna sem við vitum að viðheldur kynjaskiptingu starfa og launamisrétti á vinnumarkaði.
Spennandi ráðstefnur
Í formennskuáætlun Íslands í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar 2014 hefur verið lögð áhersla á að efla umræðu um árangursríkar leiðir til að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Þann 12. og 13. nóvember nk. verða haldnar tvær ráðstefnur um jafnlauna- og vinnumarkaðsmál í Reykjavík. Niðurstöður norræna rannsóknarverkefnisins Hlutastörf, kyn og og dreifing tekna verða kynntar á ráðstefnunni 12. nóvember og daginn eftir mun norrænn starfshópur um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði, í samstarfi við aðgerðahóp íslenskra stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti, halda ráðstefnu um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði. Á ráðstefnunum munu margir erlendir og hérlendir sérfræðingar halda erindi og taka þátt í pallborðsumræðum um brennandi spurningar sem snúa að jafnrétti á vinnumarkaði.
Launarannsókn á öllum vinnumarkaðinum
Aðgerðahópur um launajafnrétti hefur m.a. það hlutverk að vinna að samræmingu rannsókna á kynbundnum launamun og hefur falið Hagstofu Íslands gerð launarannsóknar sem nær til vinnumarkaðarins alls. Í samstarfi við Háskóla Íslands er nú unnið að viðamikilli rannsóknaskýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði og mun hún nýtast hópnum við gerð framkvæmdaáætlunar um leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval sem rannsóknir hafa margoft sýnt að viðhaldi launamun kynjanna. Gera þarf ungt fólk meðvitað um valmöguleika sína svo það velji sér nám og starf í samræmi við áhugasvið og hæfileika. Hvernig getum við til dæmis hvatt stúlkur til náms í raungreinum og fengið drengi til að skoða með opnum huga möguleikann á því að verða hjúkrunarfræðingar eða kennarar?
Aðgerðahópurinn hefur staðið fyrir tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals og nýlega undirritaði ég reglugerð um vottun jafnlaunakerfa á grundvelli hans. Staðallinn gerir fyrirtækjum og stofnunum kleift að tryggja að málsmeðferð og ákvarðanataka í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins munu í vikunni undirrita samstarfsyfirlýsingu um námskeiðshald og fræðslu til þeirra sem hyggjast innleiða staðalinn og þá verða jafnframt veitt verðlaun í hönnunarsamkeppni um gerð jafnlaunamerkis sem fyrirtæki með jafnlaunavottun geta auðkennt sig með.
Við mótun nýrrar vinnumarkaðsstefnu verður sérstaklega skoðað hvernig ákvarðanir stjórnvalda hafa ólík áhrif á kynin. Eins verður horft til árangurs af samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í aðgerðahópi um launajafnrétti en ákveðið var á ríkisstjórnarfundi þann 24. október að halda samstarfinu áfram til næstu tveggja ára. Ég vona að þessar aðgerðir eigi eftir að marka framfaraspor í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.
Eygló Harðardóttir
Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. nóvember 2014.
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.