Categories
Greinar

Konur í áhrifastöðum – innilega til hamingju með daginn!

Deila grein

08/03/2016

Konur í áhrifastöðum – innilega til hamingju með daginn!

Anna kolbrúnDagurinn í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og er í tilefni dagsins er gott að minna á að við högnumst öll á jafnrétti því eins og sagan sýnir eru það ekki bara konur sem njóta afraksturs jafnréttisbaráttunnar heldur samfélagið allt. Ísland er vissulega í fararbroddi á sviði jafnréttismála í alþjóðlegum samanburði, en betur má ef duga skal. Það eru enn verkefni sem þarf að vinna, huga þarf að réttindum kvenna jafnt innan lands og utan. Til að nefna dæmi þá er launamunur kynjanna enn til staðar hér á landi þó vísbendingar gefi nú til kynna að hann dragist saman. Við þurfum áfram að beita öllum hugsanlegum ráðum til þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, það á aldrei að líðast.

Áhrifastöður eru einnig að finna víða í samfélaginu, innan heimilis og utan og í aðalnámsskrá leikskóla er því beinlínis haldið fram að litið sé á leikskólakennara sem áhrifavald í uppeldis- og menntastarfi barna. Með því er verið að segja að það sé áhrifastaða að vera leikskólakennari. Ekki þarf að efast um að þetta sé rétt, leikskólakennara er ætlað að vera leiðandi í mótun starfsins, vera góð fyrirmynd og hann á að vera samverkamaður barna, foreldra og samstarfsfólks.

Einnig má segja að umönnunarstörf séu skipuð fólki í áhrifastöðum. Hver einasta fjölskylda í landinu hefur örugglega átt í samskiptum við einstaklinga sem sinna ástvinum þeirra að alúð og oftar en ekki á erfiðum tímum. Samskipti við umönnunaraðila eru og verða áhrifarík og þar með skipuð fólki í áhrifastöðum.

Þegar talað er um umönnunar- og kennslustörf, þá er oftar en ekki talað um hefðbundin kvennastörf og jafnvel kvennastéttir sem sinna störfunum – aldrei er minnst á áhrifastöður í þessu sambandi.

Um leið og við minnumst dagsins er gott að við hugum einnig að baráttu kvenna utan  landsteinanna, barnungar stúlkur eru enn þvingaðar í hjónabönd, umskurður kvenna viðgengst víða, stúlkum er meinaður aðgangur að menntun og eru jafnvel skotnar í höfuðið ef þær ákveða að sækja sér menntun þrátt fyrir augljósa hættu. Á þessum degi sem og aðra daga eigum við því einnig að sýna kynsystrum okkar stuðning hvar sem þær eru í heiminum og sama hvaða áhrifastöðum þær gegna.

Innilega til hamingu með daginn – öll sem eitt!

Anna Kolbrún Árnadóttir.