Margir hafa á síðustu vikum veitt slagorðinu „Konur til forystu“ athygli á samskiptamiðlum, sem og öðrum miðlum. Slagorðinu er ætlað að hvetja þá sem standa að framboðum til sveitarstjórnarkosninga til að skipa konur í forystusæti til jafns á við karla. Slagorðið á svo að sjálfsögðu við á fleiri sviðum, eins og í atvinnulífinu. Á öðrum sviðum þurfa karlar hins vegar hvatningu til dáða en geymum það að sinni.
Konur í forystu hjá sveitarstjórnum eru miklu færri en karlar en til þess að ná fram jafntefli (jafnrétti) er mikilvægt að hvetja liðið sem er undir. Nú eru konur um 40% sveitarstjórnarmanna. Engu að síður voru konur um helmingur frambjóðenda í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Konur skipuðu hins vegar síður en karlar efstu sæti framboðslista og því náðu færri konur kjöri. Konur voru í leiðtogasæti á fjórðungi lista. Hlutfall kvenna í forystu sveitarfélaga sem bæjarstjórar, sveitarstjórar eða oddvitar er 32%.
Á þeim fundum sem ég hef setið með sveitarstjórnarmönnum frá því ég varð þingmaður kom ég fljótt auga á að konur eru oft um 25-30% fundarmanna. Þetta eru fundir eins og aðalfundir samtaka sveitarfélaga og fundir þar sem forystumenn sveitarfélaganna fylgja eftir áherslumálum sveitarfélaga eða landshlutasamtaka. Þarna er hlutfallið sem sagt enn lægra en hlutfall kjörinna fulltrúa og jafnvel lægra en hlutfall kvenna í forystu sveitarfélaga. Ég hef velt fyrir mér ýmsum skýringum, t.d. kynjaskiptingu á vinnumarkaði, þar sem konur sinna frekar störfum sem krefjast viðveru á þeim tímum sem fundir fara fram. Eins gæti verið að konur stoppi styttra við í sveitarstjórnum og því telji konur sig síður hafa reynsluna sem þarf til að sinna forystustörfum. Ekki veit ég hvort þetta eru réttar skýringar en það er verðugt viðvangsefni að velta þessum málum fyrir sér.
Ef við viljum ná fram breytingum er mikilvægt að félög sem standa að framboðum til sveitarstjórna og hins vegar sveitarstjórnirnar sjálfar axli ábyrgð og leiti leiða til úrbóta, þó ákvörðun um framboð verði alltaf einstaklingsins.
Félögin sem bjóða fram lista til sveitarstjórna verða að finna aðferðir sem tryggja jafnrétti við röðun á lista, bæði kynjajafnrétti sem og jafnrétti á ýmsum öðrum sviðum og það þarf líka að gæta að jafnrétti þegar skipað er í forystusætin.
Sveitarstjórnir þurfa að velta fyrir sér af fullri alvöru hvort hægt sé að haga starfi sveitarstjórna þannig að það geri þeim sem hafa áhuga og hæfileika til starfa að sveitarstjórnarmálum það mögulegt. Ég hef talað við fjölda karla og kvenna sem gefast upp á störfum í sveitarstjórnum vegna þess hversu erfitt er að samrýma þau atvinnuþátttöku, löngum ferðalögum í sífellt stærri sveitarfélögum o.s.frv. Hvernig eru jafnréttisáætlanir sveitarstjórna?
Einstaklingar sem taka þátt í starfinu þurfa einnig að vera duglegir að miðla af sinni reynslu, bæði jákvæðri og neikvæðri. Störf að sveitarstjórnarmálum geta vissulega verið tímaþjófur og það getur verið krefjandi að sameina þau öðrum hlutverkum en þau eru líka gefandi á margan hátt. Í gegnum þessi störf gefst tækifæri til að kynnast fjölda fólks, læra ótrúlega margt um fjölbreytt málefni og eiga ánægjulegt samstarf við ólíka einstaklinga.
Ég vil hvetja alla sem hafa áhuga á því samfélagi sem þeir búa í til að skoða möguleika á þátttöku. Ég vil þó sérstaklega hvetja konur til starfa, því við þurfum fleiri KONUR TIL FORYSTU.
Líneik Anna Sævarsdóttir