Öll mín fullorðinsár hef ég hlustað á þá sem standa framarlega í samfélaginu tala um Helguvík og allt það sem svæðið hefur upp á að bjóða. Svo mikil orka og kraftur hefur farið í þetta svæði að við erum búin að sannfæra okkur sjálf og alla þjóðina um það að annaðhvort gerist eitthvað stórfenglegt í Helguvík eða Reykjanesbær muni hreinlega deyja út.
Hin sorglega staðreynd mála er sú að í Helguvík er akkúrat ekki neitt að gerast og við höfum einungis horft upp á afturför. Þar er ekkert álver, blessunarlega, slagurinn um að moka burt Kísilverinu heldur áfram, síldarvinnslan hefur dregið sig út af svæðinu og grunnar brostinna drauma liggja þar um allt.
Hættum að tala um Helguvík
Því legg ég það til að við hættum að tala um Helguvík að sinni, hún er ekki að fara neitt og við höfum það svæði til reiðu þá og þegar ábyrgar og faglegar, grænar fjárfestingar banka þar upp á.
Lítum okkur nær og hugum að því sem í hendi er því þar er svo sannarlega af nægu að taka, við þekkjum það öll sem búum hér, störfum og lifum.
Með því að rækta okkar garð mun allt í kringum okkur blómstra og blómstrandi samfélag laðar að sér allt það góða sem í landi hér býr.
Leiðum vagninn
Með það hugarfar í forgrunni þurfum við ekki að taka á móti fólki og fjárfestum eins og hlýðnir hundar sem þakka náðsamlega fyrir hvern þann bita sem fellur þeim í skaut, heldur mætum við til leiks sem leiðtogar með opinn faðm. Tilbúinn að taka á móti þeim tækifærum sem bjóðast af ábyrgð, framsýni og festu.
Bjarni Páll Tryggvason
Höfundur skipar 2. sæti B-lista Framsóknar í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí næstkomandi.
Greinin birtist fyrst á visir.is 9. maí 2022.