Á dögunum mælti ég fyrir frumvarpi sem festa mun í sessi faglega umgjörð um starfsemi lýðskóla. Til þessa hefur ekki verið nein löggjöf í gildi um slíka skóla en markmiðið með nýja frumvarpinu er að renna stoðum undir starfsemi þeirra.
Fjölbreytni er menntakerfinu mikilvæg, nemendur hafa ólíkar þarfir og þeir þurfa að hafa val um sitt nám. Meðal ástæðna brotthvarfs úr framhaldsskólunum okkar er ákveðin einsleitni í námsvali og það að nemendur finna sig ekki í námi. Það er vel að fjölbreytni námsframboðs hér á landi hefur aukist, ekki síst á framhaldsskólastiginu, og að fleiri nemendur séu opnir fyrir námskostum t.d. á sviði verk- og tæknigreina.
Lýðskólar vinna með lykilhæfni skólastarfs, líkt og kveðið er á um í aðalnámskrá framhaldsskóla, svo sem námshæfni, skapandi hugsun, sjálfbærni og lýðræðisleg vinnubrögð en meðal markmiða þeirra samkvæmt frumvarpinu verður að mæta áhuga og hæfileikum nemenda sem vilja átta sig betur á möguleikum sínum og stefnu í lífi og starfi. Í dag starfa LungA-skólinn og Lýðháskólinn á Flateyri eftir hugmyndafræði lýðskóla og á forsvarsfólk þeirra lof skilið fyrir frjótt og gott starf. Skólarnir hafa gætt nærsamfélög sín auknu lífi og gefið nemendum úr ýmsum áttum tækifæri til að dvelja þar.
Í frumvarpinu er kveðið á um hvaða skilyrði fræðsluaðilar þurfa að uppfylla til að fá viðurkenningu til að starfa undir heitinu lýðskóli. Þar eru meðal annars sett fram skilyrði um stjórnskipan lýðskóla, lágmarksstarfstíma og lágmarksfjölda nemenda. Einnig eru ákvæði um forvarnir og réttindi nemenda, aðbúnað og öryggi, hæfni starfsfólks og fyrirkomulag náms. Þá er mælst til þess að nám í lýðskólum nýtist nemendum til frekari verkefna eða til áframhaldandi náms, m.a. með aðferðum raunfærnimats, sem er þekkt aðferðafræði á vettvangi framhaldsskóla og framhaldsfræðslu.
Á þessum tímamótum verður mér hugsað hlýlega til Jónasar Jónssonar frá Hriflu, fyrrum menntamálaráðherra. Hann var talsmaður þess að hér á landi væri öflugt og fjölbreytt menntakerfi, þar sem meðal annars væri lögð áhersla á ræktun mannsandans og að nemendur gætu öðlast aukið sjálfstraust. Nýtt frumvarp um lýðskóla skapar svo sannarlega umgjörð utan um fjölbreyttari valkosti í íslensku menntakerfi og eykur líkurnar á að nemendur finni nám við hæfi.
Ég er virkilega ánægð með þær jákvæðu viðtökur sem frumvarpið hefur fengið á Alþingi og þann meðbyr sem ég finn með menntamálum í okkar samfélagi nú um stundir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. apríl 2019.