Ég lagði fram frumvarp, unnið í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið, utanríkisráðuneytið og Vinnueftirlit ríkisins, um tímabundna undanþágu frá kröfu um CE-merkingu á slíkri vöru vegna fyrirsjáanlegs skorts. Ekki er þó slegið af öryggis- og heilbrigðiskröfum.
Félags- og velferðarþjónusta
Ég, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga boðuðum til víðtæks samstarfs ríkis, sveitarfélaga og hagsmunaaðila um land allt til að tryggja áframhald nauðsynlegrar þjónustu. Með almannavarnadeild ríkislögreglustjóra var stofnað viðbragðsteymi um þjónustu við viðkvæma hópa sem vinnur í náinni samvinnu við fjölda aðila. Teymið hefur m.a. komið því til leiðar að vefurinn covid.is hefur verið þýddur á fjölda tungumála sem og að ýmsar upplýsingar á vefnum hafa verið gerðar aðgengilegri fólki með fatlanir.Mönnun nauðsynlegrar starfsemi getur orðið flókin vegna faraldursins, t.d. á hjúkrunarheimilum og þjónustu við fatlað fólk. Var því sett á fót bakvarðasveit í velferðarþjónustu þar sem fólki gefst kostur á að skrá sig. Skráðir nú eru rúmlega 1.300 einstaklingar.
Hjálparsíminn 1717 og vefurinn 1717.is eru nú opin allan sólarhringinn og þar starfa þjálfaðir sjálfboðaliðar sem veita stuðning og geta allir haft samband þangað. Auk þess er hjálparsíminn nú tengdur við sérhæfðari aðila sem hægt er að vísa fólki áfram til.
Aukin hætta á ofbeldi inni á heimilum
Ég vil einnig minna á að við erum öll barnavernd. Félagsmálaráðuneytið, í samstarfi við dómsmálaráðuneytið og Rauða kross Íslands, hefur dreift myndböndum á helstu samfélagsmiðlum til vitundarvakningar um aðstæður barna. Okkur ber öllum skylda til að tilkynna gegnum 112 höfum við ástæðu til að ætla að aðstæður barna séu ófullnægjandi.Þá má m.a. bæta við að bændum sem veikjast af COVID-19 hefur verið gert kleift að ráða til sín afleysingar. Neyðarmóttökum fyrir tímabundið heimilislausa hefur verið komið upp í Reykjavík. Góð ráð til foreldra hafa verið gefin út og ég hef veitt 55 milljónir króna til frjálsra félagasamtaka vegna aukins álags. Vegna ferðatakmarkana um gjörvallan heim hafa reglur um aðstoð við Íslendinga erlendis verið útvíkkaðar töluvert meðan ástandið varir og reynt að aðstoða sem flesta við að komast heim.
Næstu vikur verða krefjandi fyrir íslenskt samfélag en saman klárum við verkefnið. Gleðilega páska!
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. apríl 2020.