Categories
Greinar

Matvælabærinn Akureyri

Deila grein

17/05/2018

Matvælabærinn Akureyri

Í stefnuskrá okkar framsóknarfólks á Akureyri leggjum við áherslu á fjölbreytt atvinnutækifæri því við viljum að Akureyri verði ákjósanlegur valkostur fyrir alla. Þar er meðal annarst tiltekið að við viljum gera Akureyri að miðstöð þróunar í matvælaiðnaði með sterkri tengingu við frumframleiðslugreinar og efla Háskólann á Akureyri í því skyni með tengingu hans við atvinnulíf á svæðinu. Jafnframt viljum við styðja við frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun.

AF HVERJU VILJUM VIÐ ÞETTA?
Á Eyjafjarðarsvæðinu hefur matvælaframleiðsla lengi verið ein af mikilvægustu atvinnugreinunum. Akureyri er stór þéttbýlisstaður í miðju matvælaframleiðsluhéraði með langa hefð fyrir úrvinnslu og annari virðisaukandi starfsemi tengdri landbúnaði og sjávarútvegi. Nefna má að árið 2016 var verðmæti afla sem landað var á Akureyri um 4,2 miljarðar króna. Kúabú við Eyjafjörð framleiða um fimmtung af allri mjólkurframleiðslu á Íslandi og þar að auki kemur mjólk úr Þingeyjarsýslum, Húnavatnssýslum og jafnvel frá Suðurlandi inn til vinnslu hjá MS á Akureyri. Kjötvinnsla hér er meiri en víðast hvar annarsstaðar. Störfin sem um ræðir skipta hundruðum.

Í atvinnustefnu Akureyrarbæjar má lesa eftirfarandi: „_Fyrirtæki á Akureyri verði í fararbroddi í þróun og framleiðslu matvæla á landsvísu. Bærinn verði þekktur sem miðstöð rannsókna og þróunar í íslenskum matvælaiðnaði og skapi þannig fjölda nýrra starfa bæði á sviði hátækni og framleiðslu í greininni_ “ Þessari stefnu viljum við fylgja eftir, efla og útvíkka þennan mikilvæga hluta af atvinnustarfsemi á Akureyri.

HVERNIG GETUM VIÐ GERT ÞETTA?
Í Háskólanum á Akureyri er öflug auðlindadeild sem þar sem boðið er upp á raunvísinda og viðskiptatengt nám í sjávarútvegsfræði, líftækni og náttúru- og auðlindafræði. Einnig rekur Matís starfsstöð í samstarfi við HA þar sem áhersla er á rannsóknir þróun og nýsköpun. Hér er því góður grunnur til staðar sem við þurfum að sameinast um að styðja og efla. Til dæmis með því að skapa aðstæður sem hvetja til samvinnu þessara aðila og atvinnurekanda á svæðinu með áherslu á nýsköpun, þróunarverkefni og rannsóknir á virðisaukandi þróun á matvælum og aukaafurðum sem til falla.

Fjölbreytt atvinnutækifæri eru forsenda öflugs atvinnulífs og þar með þess að bærinn okkar sé eftirsóttur búsetukostur fyrir alla sem þar vilja búa. Akureyri er leiðandi sveitarfélag á landsbyggðinni, aukin tækifæri til menntunar, atvinnu og nýsköpunar hér koma því ekki bara íbúum Akureyrar til góða heldur verða einnig til þess að styðja við og styrkja landsbyggðina í heild sinni. Það á ekki síst við þegar kemur að verðmætasköpun í matvælaiðnaði.

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, búfjárerfðafræðingur, skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins á Akureyri.

Tryggvi Már Ingvarsson, MSc í landmælingaverkfræði, skipar 4. sæti á lista Framsóknarflokksins á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á kaffid.is 17. maí 2018.