Íslenska þjóðarbúið stendur frammi fyrir áskorunum um þessar mundir í tengslum við stöðu efnahagsmála. Engu að síður er staða ríkissjóðs sterk og viðnámsþróttur þjóðarbúsins meiri en oft áður. Mikilvægt er því að halda áfram uppbyggingu íslenska menntakerfisins. Fimm ára fjármálaáætlun 2020-2024 ber þess merki að við ætlum að halda áfram að sækja fram af krafti og efla menntun á öllum skólastigum. Það á einnig við um vísindi, menningu og fjölmiðla í landinu. Á menningarsviðinu er horft til þess að allir landsmenn, óháð efnahag og búsetu, geti aukið lífsgæði sín með því að njóta og taka þátt í öflugu og fjölbreyttu menningar, lista-, íþrótta- og æskulýðsstarfi.
Framlög til háskóla yfir 40 milljarða kr.
Undanfarin ár hafa framlög til háskólastigsins verið aukin töluvert en frá árinu 2017 hafa framlögin aukist um tæpa 5,3 milljarða kr. eða tæp 13%. Samkvæmt fjármálaáætlun verður haldið áfram að fjárfesta í háskólastarfi í landinu og er ráðgert að framlög til háskólanna fari yfir 40 milljarða kr. árið 2023. Við ætlum að auka gæði náms og námsumhverfis í íslenskum háskólum, styrkja umgjörð rannsóknarstarfs og auka áhrif og tengsl háskóla og rannsóknarstofnana við atvinnulífið. Fjárfesting í háskólunum er lykilþáttur í að auka samkeppnishæfni Íslands til framtíðar og til að við getum sem best tekist á við þær samfélagslegu áskoranir sem örar tæknibreytingar hafa á heiminn.
Kennarastarfið er mikilvægast
Stærsta áskorun íslensks menntakerfis er yfirvofandi kennaraskortur. Það er eindregin skoðun mín að kennarastarfið sé mikilvægasta starf samfélagsins þar sem það leggur grunninn að öllum öðrum störfum. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er að finna fullfjármagnaðar aðgerðir til þess að fjölga kennurum. Gott menntakerfi verður ekki til án góðra kennara. Kennarar eru undirstaða menntakerfisins og drifkraftar jákvæðra breytinga í skólastarfi. Ég er sannfærð um að okkur takist að snúa vörn í sókn með þessum aðgerðum og fleirum til og fjölga þannig kennurum í íslensku menntakerfi til framtíðar.
Nýtt námsstyrkjakerfi
Vinna við heildarendurskoðun námslánakerfisins gengur vel og hef ég boðað að frumvarp um endurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna verði lagt fram í haust. Markmiðið með nýju kerfi er aukið jafnrétti til náms og skilvirkni, jafnari styrkir til námsmanna, betri nýting opinbers fjár og aukinn stuðningur við fjölskyldufólk. Talsverð breyting hefur orðið á stöðu Lánasjóðsins undanfarin ár sem endurspeglast fyrst og fremst í fækkun lánþega hjá sjóðum. Skólaárið 2009-10 voru lánþegar hjá sjóðnum um 14.600 en skólaárið 2017-18 voru þeir um 7.000. Það er fækkun um 52%. Samhliða fækkun undanfarin ár hafa framlög ríkisins ekki minnkað og ber handbært fé sjóðsins þess glögglega merki. Árið 2013 nam það um einum milljarði kr. En í lok árs 2018 er áætlað að það nemi rúmum 13 milljörðum kr. Staða sjóðsins er því mjög sterk og skapar hún kjöraðstæður til að ráðast í kerfisbreytingar sem bæta kjör námsmanna. Nýtt styrkja- og námslánakerfi er að fullu fjármagnað en að auki verða framlög til sjóðsins endurskoðuð árlega miðað við fjölda lánþega hverju sinni. Lánasjóðurinn er eitt mikilvægasta jöfnunartæki sem við eigum og það er mikilvægt að búa þannig um hnútanna að svo verði áfram raunin.
Fjölgum starfs- og tæknimenntuðum
Á síðustu árum hafa framlög til framhaldsskólastigsins einnig hækkað verulega. Þannig hafa framlög til framhaldsskólastigins farið úr rúmum 30 milljörðum kr. árið 2017 og í rúmlega 35 milljarða í ár. Þetta jafngildir um 16% hækkun. Þessi hækkun mun halda sér samkvæmt nýkynntri fjármálaáætlun en fjárheimildir munu halda sér þrátt fyrir fækkun nemenda í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs. Hækkunin gerir framhaldsskólum m.a. kleift að bæta námsframboð, efla stoðþjónustu sína og endurnýja búnað og kennslutæki. Helstu markmið okkar á framhaldsskólastiginu eru að hækka hlutfall nemenda sem ljúka starfs- og tækninámi, fjölga nemendum sem útskrifast á framhaldsskólastiginu og að nemendur í öllum landshlutum hafi aðgengi að fjölbreyttu bók- og starfsnámi.
Íslenskan í öndvegi og barnamenning
Við ætlum að halda áfram að styðja við menningu, listir, íþrótta- og æskulýðsmál og fjölmiðlun í landinu. Við höfum verið að hækka framlög til menningarmála síðan 2017 þegar þau námu um 12 milljörðum króna. Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að þau verði að meðaltali um 15 milljarðar árlega. Við setjum íslenskuna í öndvegi með fjölþættum aðgerðum sem snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra allra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að bæta rekstrarumhverfi bókaútgefenda, skapandi greina og fjölmiðla. Til að fylgja því eftir gerum við ráð fyrir árlegum stuðningi sem nemur 400 milljónum kr. við útgáfu bóka á íslensku, 400 milljónum kr. vegna aðgerða til að bæta starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla og 100 milljónum kr. til nýs Barnamenningarsjóðs Íslands. Lögð er áhersla á að bæta aðgengi að menningu og listum, ekki síst fyrir börn og ungmenni, efla verndun á menningararfi þjóðarinnar, rannsóknir og skráningu. Einnig verður lögð áhersla á að bæta umgjörð og auka gæði í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Til skoðunar er sá möguleiki að setja á stofn barna- og vísindasafn til að efla og styrkja áhuga ungu kynslóðarinnar á menningu, vísindum og tækni.
Í fjármálaáætluninni er er horft til framtíðar, þ.e. að menntun, menning og vísindi auki lífsgæði fólks í landinu. Við höldum áfram að styðja við íslenskt efnahagslíf með því að fjárfesta í slíkum grunnstoðum og bæta þannig lífskjörin í landinu.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2019.