Categories
Greinar

Nýsköpunarstofa fyrir námsfólk í Hafnarfirði

Deila grein

13/05/2020

Nýsköpunarstofa fyrir námsfólk í Hafnarfirði

Nýverið ákvað Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, að verja 2.200 milljónum króna til að fjölga störfum fyrir námsmenn í sumar og munu þau skiptast á milli opinberra stofnana og sveitarfélaga. Í síðustu viku samþykkti bæjarráð Hafnarfjarðar að skapa 250 ný sumarstörf fyrir hafnfirskt námsfólk og frumkvöðla og er ákvörðunin liður í nýsamþykktri aðgerðaáætlun bæjarfélagsins vegna COVID-19.

Öllum sviðum bæjarfélagsins var falið að taka saman lista yfir afmörkuð verkefni sem einkum mætti bjóða hafnfirsku námsfólki og frumkvöðlum til vinnslu í tímabundnum störfum. Í heild bárust 80 verkefnatillögur frá sviðunum. Horft er sérstaklega til nýrra og nýstárlegra verkefna þar sem nýta má menntun og færni þátttakenda á sviði umhverfis- og framkvæmdamála, upplýsingatækni, fræðslumála, fjölskyldumála, menningarmála, íþróttamála og heilsueflandi samfélags. Starfsemin mun fara fram í fallegu húsnæði gamla Lækjarskóla við Lækinn, þar sem hópurinn mun fá aðstöðu ásamt því að hafa aðgengi að sérfræðingum Hafnarfjarðarbæjar.

Við vitum ekki hvernig störf framtíðarinnar koma til með að líta út og við lifum á tímum þar sem öll tækniþróun og aðrar samfélagslegar breytingar gerast á ógnarhraða. Nýsköpun er ekki sérstök atvinnugrein, heldur á nýsköpun sér stað í öllum atvinnugreinum og alls staðar. Við teljum að nýta megi þá starfsemi sem hér er boðuð til nýjunga og umbóta í starfsemi bæjarins sem síðar gagnast samfélaginu öllu; koma auga á áður óséð tækifæri til þróunar á öllum sviðum. Með þessu erum við að fjárfesta til framtíðar og um leið að tryggja unga fólkinu okkar hér í Hafnarfirði góð sumarstörf.

Í þeim krefjandi aðstæðum sem samfélagið allt tekst nú á við, verður gaman að fylgjast með þessari starfsemi í sumar og vonandi sjá hana vaxa og dafna til framtíðar.

Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. maí 2020.