Categories
Greinar

Nýtum auðlindirnar – sköpum störf

Deila grein

21/04/2013

Nýtum auðlindirnar – sköpum störf

Líneik Anna SævarsdóttirUm daginn las ég ævisögu og rakst þar á setninguna:„við rákum fyrirtæki sem veitti 40 manns atvinnu.“ Ég hef alltaf borið virðingu fyrir fólki sem hefur verið stolt af því að geta veitt öðrum vinnu og með því lagt til samfélagsins. Eins og ber ég virðingu fyrir fólki sem er stolt af því að leggja til samfélagsins með því að greiða sína skatta.

Á Íslandi eigum við mikið af auðlindum, bæði mikið nýttar og ónýttar. Arður af auðlindum verður ekki til fyrr en einhver nýtir þær. Til að nýta auðlind þarf þekkingu og framtakssemi. Á síðustu árum hefur því miður oft verið talað niður til þeirra sem valið hafa að nota sína þekkingu og framtaksemi til þess.

Þjóðin hagnast á auðlindum sínum þegar úr þeim eru framleidd verðmæti, verðmætin geta verið vara sem við notum innanlands og spörum með því gjaldeyri eða vara sem við seljum úr landi. Fólk fær störf, greiðir skatta og notar launin sín til að kaupa aðra vöru. Fyrirtækið sem nýtir auðlindina greiðir launatengd gjöld og aðra skatta. Fyrirtækið þróar sína framleiðslu og kaupir til þess aðstoð og þekkingu annars staðar frá o.s.frv. Þannig nýtur þjóðin arðs af auðlindinni.

Hvernig skilar arður af auðlindunum sér best til þjóðarbúsins, er það með því að skapa sem flest störf á Íslandi? Eða er það með því að fá sem flestar krónur fyrir hráefnið? Eigum við að reyna að skapa sem flest störf og mest verðmæti við úrvinnslu úr fiskinum okkar eða að flytja sem mest út beint af hafnarbakkanum? Eigum við að flytja orkuna beint úr landi þannig að fyrirtækið Landsvirkjun hagnist sem mest á pappírunum eða eigum við að nýta orkuna til þess að skapa sem flest störf og verðmæti innanlands? Er ekki tímabært að umræðan um auðlindarnar okkar fari að snúast um það hversu mörg störf við getum byggt á þeim en ekki um hvernig megi taka sem mesta peninga út úr framleiðslunni. Þannig þarf umræðan um Landsvirkjun að snúast um það hvernig við getum nýtt orkuna til að skapa sem flest störf innan lands en ekki um það hvort Landsvirkjun geti fengið fleiri krónur í hagnað í ársreikningum með því að senda orkuna úr landi á meðan Íslendingar eru á atvinnuleysisbótum eða í vinnu í Noregi.

Auðlindir eru ekki óþrjótandi og með aukinni þekkingu og tækni höfum við þurft að taka ákvarðanir um það hverjir hafa nýtingaréttinn að þeim og hvaða auðlindir við viljum nýta. Þessi árin snýst umræðan í þjóðfélaginu um mótun framtíðarstefnu um það með hvaða hætti eigi að greiða fyrir nýtingarréttinn á auðlindunum. Höfum við nokkuð týnt aðalatriðunum í þeirri umræðu – sjálfbærni og atvinnusköpun?

Hver eru lykilatriðin í umræðu um auðlindirnar okkar:

  • Auðlindirnar þurfa að vera í eigu þjóðarinnar.
  • Þeir sem nýta auðlindirnar þurfa að eiga möguleika á því að gera samninga um nýtingaréttinn til svo langs tíma að unnt sé að gera langtíma áætlanir í atvinnugreininni.
  • Samkomulag um nýtunguna þarf að tryggja viðhald auðlindanna þ.e. tryggja sjálfbærni.
  • Fyrir nýtingu auðlinda þarf að svo að greiða sanngjarnt gjald sem tekur mið af arðsemi í viðkomandi atvinnugrein.
  • En fyrst og fremst, einbeitum okkur að því að nýta þekkingu og frumkvæði okkar sjálfra til að skapa sem flest störf um allt land úr auðlindum Íslands.

 

Líneik Anna Sævarsdóttir, skipar 3. sæti á framboðslista framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi.