Sæll Daði Már Kristófersson! Þegar þú ungur drengur stóðst á hlaðinu í Reykholti og horfðir yfir hið fagra hérað Borgarfjörð, þá hreifstu af hinni miklu fegurð og landgæðum sem blöstu við í ríki Snorra Sturlusonar! Gróið hérað glæsileg lönd bænda og landbúnaðarins, jarðhiti, blómleg bændabýli og gott undir bú. Þú hefur hugsað til Snorra og bókfellanna sem nautin gáfu til að skrifa sögu Íslands og Norðurlandanna. Þú hefur heillast af þeim tækifærum sem landbúnaðurinn gaf og gæti enn gefið þjóð þinni. Þú hugsaðir um að gaman væri að mennta þig í landbúnaðarfræðum og árið 2000 útskrifaðistu með B.Sc.-gráðu í landbúnaðarfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Sama ár sóttir þú þér meistaragráðu frá Agricultural University í Noregi, allt eftir hagfræðinámið.
Þú hefur sem landbúnaðarhagfræðingur sinnt landbúnaði og oft flutt góð erindi og tillögur á bændaþingum. Nú skrifa ég þér þessar línur af því að þú kannt fræðin betur en flestir og komnar eru upp deilur við ESB út af skilgreiningu á ostum sem snýr að öllum EES-þjóðunum Íslandi, Noregi og Sviss. Um er að ræða 85% mjólkurost með jurtafeiti. Spurningin er undir hvort flokkast osturinn, mjólk eða jurtaríkið? Þú veist jafnvel og undirritaður að 45% vín er sterkt vín, að bjór og hvítt og rautt er léttvín, hvað þá 85% mjólkurostur, hann hlýtur að vera frá landbúnaði. Noregur og Sviss hafa haldið sinni skilgreiningu þrátt fyrir kröfugerð ESB, Noregur í 12 ár. Verði niðurstaða þín röng tapa tíu til fimmtán bændur á Íslandi vinnu sinni við að framleiða mjólk að talið er. Og ef þú gerir mistök munu heildsalar gera kröfu um að þú farir rangt að á fleiri sviðum í þinni embættisfærslu. Ég treysti þér þar til annað kemur í ljós, Daði Már.
Sannleikurinn birtist enn og aftur
Er þetta er ritað, 17. febrúar, liggur fyrir enn ein niðurstaða dómstóla í máli þar sem sjónarmiðum þeirra sem sótt hafa ítrekað að ríkinu var hafnað enn og aftur. Þetta snýst um skilgreiningar skatta- og tollayfirvalda um tollflokkun á pizzaosti, sem eins og fyrr segir er samsettur af 85% hluta mjólkurosts. Á það þá að vekja undrun og jafnvel átök að slík vara kallist ostur? Sérfræðingar viðkomandi stofnana hafa unnið sitt starf samkvæmt skyldu sinni og af sannfæringu við viðkomandi tollflokkun.
Það er skylda hvers manns, og ekki síst stjórnmálamanna, að gæta að hagsmunum okkar allra. Þeir felast hvað sterkast í því að verja markaðs- og framleiðsluhagsmuni þjóðarinnar sem og atvinnutækifæri okkar. Það er ekki tilviljun ein að okkur stærri lönd, og sambönd þeirra, verji fyrst og fremst markaðs- og framleiðsluhagsmuni sinna þjóða og þá verðmætasköpun sem þeim fylgir.
En nú er mál að linni. Þessari sneypuför sem fólgin er í vegferðinni um þennan pizzaost verður að ljúka. Málflutningur þeirra sem sótt hafa að stofnunum ríkisins í gegnum dómstóla er borinn fram í – að menn halda – fleytifullri fötu sannleikans. En það er ekki svo – fatan heldur engu og allt lekur úr aftur og aftur eins og forðum.
Botninn er suður í Borgarfirði!
Guðni Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2025.