Categories
Greinar

Rétt skal vera rétt

Deila grein

13/05/2014

Rétt skal vera rétt

Elsa lára_SRGB_fyrir_vefTalsverð umræða hefur orðið um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnar Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins. Nokkur gagnrýni hefur verið um aðgerðirnar og hefur hún m.a. snúist um að þær gagnist að mestu þeim eignameiri og tekjuhærri. Þessi gagnrýni hefur verið nokkuð hávær frá stjórnarandstöðunni, sem hefur verið dugleg að halda þeirri villandi umræðu á lofti.

Tölulegar staðreyndir um skuldaleiðréttinguna

Skuldaleiðréttingafrumvörp ríkisstjórnarinnar eru samtals 150 milljarðar króna  að umfangi og ná þau saman, til allra þeirra heimila sem eru með verðtryggð húsnæðislán.

25 % af heildarupphæð höfuðstólsleiðréttingarinnar fer til heimila með heildar árstekjur undir 4 milljónum. Tæplega helmingur leiðréttingarinnar fer til heimila með heildar árstekjur undir 6 milljónum og um 60 % leiðréttingarinnar fer til heimila með heildar árstekjur undir 8 milljónum.

Það er staðreynd að hlutfall fjárhæðar niðurfærslu og árstekna er hærra hjá tækjulægri heimilum en þeim tekjuhærri og meðalfjárhæð niðurfærslu hækkar eftir því sem börn á heimili eru fleiri.

Jafnframt er hlutdeild þeirra sem skulda 30 milljónir króna eða meira, rétt rúmlega 20 % af heildarumfangi leiðréttingarinnar. En flest heimili skulda á bilinu 10 – 30 milljónir króna, því  kemur stærstur hluti leiðréttingarinnar hjá þeim hópi eða 65 % upphæðarinnar.  Lægri skuld leiðir af sér lægri leiðréttingu.

Tölulegar staðreyndir um fyrri aðgerðir

Vegna þeirrar gagnrýni stjórnarandstöðunnar, að leiðrétting ríkisstjórnar Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins gagnist að mestu þeim eignameiri og tekjuhærri, þá er tilvalið að rýna í tölur úr skuldaaðgerðum ríkisstjórnarinnar sem kenndi sig við félagslegan jöfnuð og réttlæti.

Þar kemur í ljós að á síðasta kjörtímabili voru samtals 45 milljarðar af verðtryggðum húsnæðisskuldum færðar niður,  m.a. vegna 110 % leiðarinnar. Þær aðgerðir nýttust aðeins um 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir, þ.e. um 7.300 heimilum. Um 1% heimilanna fékk um helming niðurfærslunnar, rúmlega 20 milljarða króna.  Þessi 1% heimila, það eru 775 heimili, fengu allt yfir 15 milljóna króna  niðurfærslu en meðaltal niðurfærslna var 26 milljónir króna. Meðaltekjur þessara heimila á mánuði árið 2009  voru 750 þúsund  krónur  en um tugur þessara heimila var með meðaltekjur yfir 2 milljónir króna á mánuði. Einnig fengu um 95% þessara 775 heimila sérstakar vaxtabætur frá ríkinu vegna húsnæðisskulda að fjárhæð tæplega 300 milljónir króna.

Á gagnrýnin rétt á sér?

Ef horft er á samanburðartölur milli aðgerða ríkisstjórnar Framsóknar – og Sjálfsstæðisflokksins og hins vegar aðgerða ríkisstjórnarinnar sem kenndi sig við réttlæti og jöfnuð, þá sýna fyrirliggjandi gögn að 30% af heildarfjárhæð 110% leiðarinnar fór til heimila með yfir 10 milljónir króna tekjur í árslaun en um 25% af núverandi aðgerðum fara til heimila með sömu tekjur.

Sérstakar vaxtabætur námu 10 milljörðum króna, á tveggja ára tímabili, í valdatíð síðustu ríkisstjórnar. Áhrif þeirra aðgerða á tekjuhópa eru að mestu leyti svipuð áhrifum skuldaleiðréttingarinnar á tekjuhópana. Þó er athyglisvert að heimili með tekjur undir 4 milljónum króna fengu 21% af sérstökum vaxtabótum en áætlað er að sami tekjuhópur fái 24% í aðgerðum ríkisstjórnarinnar nú.

Hægt er að halda því fram að gagnrýni stjórnarandstöðunnar sé ekki réttmæt og óhætt er að vísa henni aftur til föðurhúsanna.

Elsa Lára Arnardóttir

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.