Categories
Greinar

Réttlæti fyrir íslensk heimili

Deila grein

23/04/2013

Réttlæti fyrir íslensk heimili

Þorsteinn SæmundssonKosningabarátta fyrir Alþingiskosningar er nú sem óðast að taka á sig mynd og virðist ætla að verða með athyglisverðara móti. Frambjóðendur Framsóknarflokksins hafa lagt höfuðáherslu á að kynna helstu baráttumál flokksins um leiðréttingar á stökkbreyttum lánum heimila og að leggja niður verðtryggingu á neytendalánum.
Andstæðingar Framsóknarflokksins hafa hinsvegar lagt sérstaka áherslu á að ræða um Framsóknarflokkinn. Úr herbúðum andstæðinganna koma engar tillögur, engin stefna, aðeins aumkunarvert sífur um svokölluð yfirboð Framsóknar. Eru ámátlegustu sótraftar dregnir á flot til að kyrja þennan söng með útúrsnúninga og svekkelsi að vopni. Mest eru þetta sömu raddir og vildu skjálfandi gangast undir ICESAVE klafa á sínum tíma, alveg sama hvað það átti að kosta.
Með sífri sínu taka andstæðingar Framsóknarflokksins nú stöðu með vogunarsjóðum gegn íslenskum heimilum og eru jafn skjálfandi á beinunum gagnvart sjóðunum og ICESAVE skuldareigendum forðum. Eru margir til kallaðir, jafnvel menn sem hafa gefið sig út fyrir að vera verkalýðsleiðtogar. Það er eftirtektarvert að þessir aðilar hafa uppi svipuð rök fyrir hræðslukenndri afstöðu sinni nú og fyrir vilja sínum til að samþykkja ICESAVE á sínum tíma. Hafa semsagt engu gleymt og ekkert lært.
Ahyglisverðust og mest upplýsandi hlýtur þessi umræða þó að að vera fyrir þá sem ekki hafa enn gert upp hug sinn um hvað þeir hyggjast kjósa. Það hlýtur að vera umhugsunarvert fyrir fólk sem berst harðri baráttu með dugnað og heiðarleika að vopni fyrir heimilum sínum og afkomu þeirra hvort þeir sem lyppast niður við fyrsta mótlæti eru traustsins verðir. Það hlýtur að vera umhugsunarvert fyrir fólk sem leitar lausna fyrir sig og fjölskyldur sínar hvort rétt sé að færa fjöregg þeirra í hendur fólki sem kyrjar einum rómi: „Þetta er ekki hægt.“
Framsóknarmenn láta ekki úrtöluraddir nokkurra kjarkleysingja hrekja sig af leið í baráttunni fyrir réttlætinu. Þvert á móti herðumst við í baráttu okkar fyrir réttlátri leiðréttingu til handa íslenskum heimilum. Töluvert hefur verið rætt um kostnað af boðuðum aðgerðum Framsóknar. Víst er að aðgerðirnar munu kosta sitt, en stefna Framsóknar er sú að vogunar- og verðbréfasjóðir sem fengu kröfur föllnu bankanna afhentar á silfurfati beri stærstan kostnað af aðgerðunum og skili með því íslenskum almenningi hluta þess ofurgróða sem þeir hafa nú þegar innleyst af „fjárfestingu“ sinni.
Við Framsóknarmenn trúum því nefnilega að í hverri áskorun felist tækifæri. Við trúum því að raunverulega sé hægt að ráðast til atlögu við vogunarsjóði og aðra kröfueigendur með málstað réttlætisins að vopni. Við trúum því að réttlætið muni hafa sigur!
ÞORSTEINN SÆMUNDSSON