Rétt eins og metnaðarfullt fólk, fyrirtæki og félög vilja metnaðarfull samfélög sífellt bæta sig. Ísland er slíkt samfélag, sem þjóðin hefur mótað með dugnaði, framfaratrú og metnaði.
Samkvæmt mælikvörðum alþjóðastofnana af ýmsu tagi er Ísland í fremstu röð, í samanburði við önnur samfélög. Þar viljum við vissulega vera, en föllum vonandi aldrei í þá gryfju að halda að öll samfélagsverkefni hafi verið leyst. Við viljum gera betur og halda áfram að bæta líf hvert annars. Við viljum nýta svigrúmið sem skapast hefur á undanförnum árum til að færa ýmislegt til betri vegar; huga betur að öldruðum, bæta heilbrigðisþjónustu og styrkja innviðina.
Í þeirri vinnu eigum við að horfa til þess sem vel hefur tekist. Styðjast við aðferðir sem hafa virkað, en ávallt leita að skapandi lausnum. Þannig vill Framsóknarflokkurinn vinna eins og nýleg dæmi sanna. Við erum í senn róttækur flokkur og ábyrgur flokkur, með skýra sýn á hvernig við bætum samfélagið og efnahagslífið. Við hikum ekki við að fara óhefðbundnar leiðir og fáum til liðs við okkur færustu sérfræðinga hverju sinni, í stað þess að þykjast vita allt best sjálf. Þannig hefur okkur tekist að leysa flókin verkefni og þannig munum við áfram ná árangri fyrir Ísland.
Vinna, vöxtur, velferð
Við trúum því, að fjölbreytt atvinnulíf og útflutningur á vörum og þjónustu sé forsenda velferðar í landinu. Við viljum veg allra atvinnugreina sem mestan, en fögnum sérstaklega þeim ótrúlega árangri sem náðst hefur á sviði nýsköpunar og skapandi greina. Við viljum skapa verðmæt störf og tryggja að menntakerfið standist samanburð við það sem best gerist í heiminum. Við viljum bæta kjör meðaltekjufólks, lækka tekjuskatt og einfalda skattkerfið. Við viljum stuðla að góðri heilsu þjóðarinnar og byggja nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á aðgengilegum stað.
Hagsmunir Íslands í öndvegi
Framsóknarflokkurinn hefur farið með utanríkismál í fimmtán ár af síðasta 21 ári. Markmiðið hefur allan þann tíma verið skýrt: að tryggja hagsmuni Íslands og stuðla þannig að velsæld heima fyrir. Við viljum eiga góð samskipti við aðrar þjóðir, en halda sjálfstæði okkar. Við viljum eiga gagnkvæm viðskipti við aðrar þjóðir og skapa gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Við höfum trú á Íslandi. Við vitum að efnahagsstjórn í fámennu landi er krefjandi, en reynslan sýnir að árangurinn getur verið góður. Við trúum á dugnað, fagmennsku og elju, en ekki töfralausnir. Við trúum því að vextir geti lækkað með ábyrgri hagstjórn.
Við stöndum á krossgötum
Með skýrri sýn og markvissri stefnu hefur orðið alger viðsnúningur á Íslandi á síðustu árum undir forystu Framsóknarflokksins. Orð og efndir hafa farið saman og fyrir vikið stöndum við á traustum grunni til að bæta samfélagið enn frekar. Framtíð Íslands er björt ef rétt er á málum haldið.
Lilja Alfreðsdóttir
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. október 2016.