Categories
Greinar

RÚV og þúfnahyggjan

Deila grein

14/07/2020

RÚV og þúfnahyggjan

Í fréttum RÚV í vikunni var teiknuð upp sú mynd að flutningur opinberra starfa frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar væri eðlileg þróun og ef að æðstu ráðamenn þjóðarinnar reyndu að andæfa gegn þessari þróun væri það kjördæmapot og spilling, helst í boði framsóknarmanna. Fréttin hleypti út á mér ofnæmisviðbrögðum, bæði var hún ónákvæm og einnig var uppleggið skakkt, sjónarhornið var að störfin eiga heima í Reykjavík og einungis þangað sé hægt að ráða hæft fólk. Framsóknarráðherrar áttu að sitja eftir með skaðann en niðurstaðan er sú að fréttastofa Ríkisútvarps landsmanna situr uppi með skömmina.

Ríkisstofnanir á Íslandi eru ríflega 160 talsins, opinber störf á vegum ríkisins eru rúm 20.000 þá á eftir að telja þau störf sem eru á vegum sveitarfélaga. Á landsbyggðinni fer fram margvísleg verðmætasköpun svo sem í matvælaframleiðslu og iðnaði og þar er líka uppspretta nýsköpunar, hugvits, menningar og mannlífs sem svo allir landsmenn njóta og eigum að njóta að jöfnu. Til þess að vel geti orðið þarf að dreifa þjónustu hins opinbera sem víðast og staðsetning ríkisstarfa skiptir miklu máli og ætti það að vera forgangsmál stjórnvalda að dreifa þeim sem mest um landið, ekki bara framsóknarmanna. Efling opinberra starfa á landsbyggðinni hefur til dæmis verið í flestum ríkisstjórnarsáttmálum, en frétt RÚV afhjúpar hverjir hafa látið verkin tala.

En það er ekki nóg gert, undanfarin ár og áratugi hafa stofnanir á vegum ríkisins dregið til sín fleiri og fleiri störf til höfuðborgarsvæðisins. Í nýlegri samantekt Byggðastofnunar kom fram að á höfuðborgarsvæðinu búa 64% landsmanna en þar eru 71% starfa ríkisins. Til samanburðar búa í Noregi liðlega 23% landsmanna á Óslóar svæðinu. Í Noregi er reglulega uppi umræða um að landið megi ekki verða að borgríki. Samstaða er þar um að veita ýmiskonar ívilnanir og flytja ýmis störf og stofnanir út á land, nokkuð sem við mættum tileinka okkur meira og standa saman að. Þvert á móti standa hér um landið tómar byggingar sem minnismerki margra horfinna stofnanna eða deilda á vegum ríkisins sem hafa verið flutt á höfuðborgarsvæðið.

Ég hef átt samtöl við embættismenn ríkistofnanna sem hafa fullyrt að það þýði ekki að flytja opinber störf út á land eða starfrækja stofnanir þar því það fáist ekki menntað fólk í störfin. Sérfræðingarnir eru nefnilega fyrir sunnan. Þetta er alls ekkert náttúrulögmál og stenst auðvitað enga skoðun.  Einkageirinn áttar sig betur á þessu. Um landið allt eru mörg einkarekin fyrirtæki í hátækniiðnaði sem þarfnast hámenntaðs starfsfólks.

Frétt RÚV hefur haft þó einn jákvæðan fylgifisk, umræða hefur skapast um byggðamál og byggðastefnu, nokkuð sem við ættum að vera stöðugt að ræða. Þar er staðsetning opinberra starfa auðvitað bara einn angi af mjög stóru máli en samt mikilvægur. Framsókn hefur og mun standa með hinum dreifðu byggðum landsins. Í stað þess að gera andæfi okkar gagnvart þróuninni og kerfinu tortryggileg væri æskilegra að það legðust allir á eitt að halda úti blómlegri byggð, landið um kring.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á feykir.is 14. júlí 2020.