Ísland og Pólland hafa bundist sterkum böndum á undanförnum áratugum. Tæplega 21 þúsund Pólverjar búa á Íslandi og hafa verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Þeir hafa auðgað íslenska menningu, sinnt mikilvægum störfum í hagkerfinu og almennt komið sér vel fyrir í nýju landi.
Á hverju ári fæðast pólskum foreldrum um 600 börn á Íslandi. Það er mikilvægt að ríki og sveitarfélög tryggi að þau njóti sömu þjónustu og tækifæra og börn íslenskra foreldra, ekki síst í menntakerfinu. Nú eru um 3.000 pólskumælandi börn í íslenskum skólum, sem eru misvel búnir til að mæta þörfum þeirra. Það á líka við um börn með önnur móðurmál og dæmi eru um að í einum og sama skólanum séu töluð yfir 30 tungumál. Skýrsla starfshóps, sem settur var á fót í byrjun síðasta árs, um úrbætur og aðgerðir til að styðja við þennan hóp er á lokametrunum. Hvernig við mætum þessum nýju Íslendingum í skólum landsins getur skipt sköpum, ekki einungis fyrir einstaklingana sjálfa heldur einnig fyrir samfélagið í heild.
Málefni og menntun pólskra skólabarna á Íslandi hefur verið til umræðu í opinberri heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, til Póllands í vikunni. Þjóðirnar hafa unnið vel saman og í gær rituðu íslensk og pólsk menntamálayfirvöld undir samstarfsyfirlýsingu um að efla enn frekar samstarf landanna á sviði menntunar. Lögð verður áhersla á að nemendur af pólskum uppruna hafi aðgang að menntun á móðurmáli sínu, hvatt er til aukins samstarfs menntastofnana og samskipta ungmenna, kennara og skólastarfsfólks.
Góð móðurmálsþekking er forsenda þess að barn nái góðum tökum á öðru tungumáli. Góð íslenskukunnátta tryggir börnum af erlendum uppruna betri tækifæri en ella, eykur þekkingu þeirra á samfélaginu, félagsfærni og hjálpar börnum að blómstra. Það er markmið okkar allra, að börnin okkar verði hamingjusöm og njóti jafnra tækifæra í lífinu, hver sem bakgrunnur þeirra kann að vera. Það á að vera eitt af einkennum Íslands.
Lillja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. mars 2020.