Nú er ekki nema nokkrir dagar í að ríkisstjórnin kynni framkvæmd boðaðra skuldaleiðréttinga.
Heimilin eru orðin óþolinmóð eftir aðgerðum og undrar mig það ekki því biðin hefur verið löng. Gerum okkur samt grein fyrir að biðin hefur verið mun lengri en þetta kjörtímabil hefur staðið.
En um leið og óþolinmæði brýst fram, sem hefur vissulega gerst hjá mér, þá er ég um leið ánægð. Ég er ánægð með hversu mikil vinna hefur farið í undirbúning aðgerðanna, sem mun tryggja að komið verði fram með tillögur sem duga. Tillögur sem verða í takt við stjórnarsáttmála Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins. En þar stendur m.a. “Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.”
En ég verð að viðurkenna að það eru ákveðnir þættir sem skyggja á ánægju mína, vegna komandi aðgerða. Það er þegar nokkrir aðilar í samfélaginu leika sér að því að afvegaleiða umræðuna um skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Slá fram fullyrðingum um framkvæmd, sem enginn fótur er fyrir. Þessir aðilar hafa ekki hugmynd um hvernig farið verði að framkvæmd mála, en leika sér þess í stað að tala málefnið niður og reyna að auka á ótrúverðugleika þess sem koma skal.
Það finnst mér ekki fallega gert því í hvert sinn sem umræðan fer á þetta plan, þá grípur um sig ótti hjá hópi fólks sem býr inni á skuldsettum heimilum. Það veit ég því margir hafa hringt, sent mér póst og skilaboð og sagt mér frá áhyggjum sínum vegna þessara mála. Það gerist samhliða því þegar umræðunni um skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar er snúið á hvolf.
Mig langar því að óska eftir vandaðri umræðu um þessi mál. Þrátt fyrir að einhver sé ósammála um að fara skuli í þessar aðgerðir, þá verður það gert. Forsætisráðherra mun kynna tillögur skuldaleiðréttingahópsins í lok nóvember og þar á eftir koma tillögurnar til umræðu inni í þinginu.
Aukum ekki á kvíða og ótta íslenskra heimila, þeirra sem hafa átt undir högg að sækja undanfarin ár með því að afvegaleiða umræðuna og koma röngum skilaboðum út í samfélagið. Stöndum frekar með heimilunum, því kominn er tími til.
Lokaorð mín eru þau, að gagnrýni á auðvitað rétt á sér, en munum þá, að mikilvægt er að fara með staðreyndir.
Elsa Lára Arnardóttir