Categories
Greinar

Stöndum vörð um heilsu og velferð manna og dýra

Deila grein

09/05/2019

Stöndum vörð um heilsu og velferð manna og dýra

Kunningjakona okkar sem á von á barni var á ferðlagi um meginland Evrópu um páskana. Eins og títt er um ófrískar konur þá er hún gríðarlega meðvituð um það sem hún lætur ofan í sig og saknar auðvitað sérstaklega blóðugu steikarinnar og sushi. Hún hafði líka eftir umfjöllun í mörgum íslenskum fjölmiðlum orðið mun betur meðvituð um muninn á því öryggi sem hún býr við á Íslandi þegar hún fer út í búð að kaupa í matinn og þeim veruleika sem margar aðrar þjóðir búa við, bæði hvað varðar sýkingar í kjöti og sýklalyfjaónæmi sem skapast af gríðarlegri notkun sýklalyfja í stórum verksmiðjubúum meginlandsins.

Stærri ógnvaldur en krabbamein í framtíðinni
Það eru nokkuð mörg ár liðin frá því Margrét heitin Guðnadóttir, einn af okkar fremstu vísindamönnum, hafði uppi varnaðarorð varðandi innflutning á kjöti til Íslands. Á síðustu árum hafa fleiri virtir vísindamenn, innlendir og erlendir, tekið undir áhyggjur hennar. Og ekki að ástæðulausu. Með því að opna á innflutning á hráu kjöti, eins og heildsalar og ákveðin stjórnmálaöfl þeim hliðholl, hafa krafist væru íslensk stjórnvöld einfaldlega að gera tilraun sem allar líkur eru á að endi illa. Varðar það bæði sýkingar í matvælum og einnig áður nefnt sýklalyfjaónæmi sem virtar alþjóðlegar stofnanir og vísindamenn telja að muni draga fleiri jarðarbúa til dauða árið 2050 en ógnvaldurinn krabbamein. Viljum við slíka tilraunastarfsemi? Og vill verslunin stunda slíka tilraunastarfsemi í skiptum fyrir fleiri krónur í kassann?

Íslenskur landbúnaður í fremstu röð
Íslenskur landbúnaður stendur í fremstu röð þegar kemur að dýraheilbrigði og dýravelferð. Sú staða sem hefur náðst í þeim efnum er ekki komin til af sjálfu sér. Augljósasta dæmið hvað varðar virðingu bænda fyrir heilbrigði íslenskra dýrastofna má til dæmis sjá þegar hestamenn fara með hesta á heimsmeistaramót íslenska hestsins á meginlandi Evrópu og þurfa að skiljast við þá því aldrei fá þeir aftur að snúa heim í íslenskan haga vegna þeirra sjúkdóma sem hrjá lönd Evrópu.

Eitt mikilvægt skref í viðbót
Samkeppni er öllum holl en hún verður að vera skynsamleg fyrir lýðheilsu þjóðarinnar og verður að tryggja að íslenskir bændur keppi á jafnréttisgrundvelli við innfluttar vörur. Þær varnaðaraðgerðir sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggur til í frumvarpi sínu sem liggur fyrir Alþingi eru í rétta átt en betur má ef duga skal. Stíga verður stærra skref sem felur í sér hreint og klárt bann við dreifingu matvæla sem sýkt eru af salmonellu og kampýlóbakter og innihalda sýklalyfjaónæmar bakteríur yfir ákveðnu marki.

Það mikilvægasta sem við eigum: heilsa
Mikilvægt er að við köllum nú til okkar helstu lögspekinga í þeim tilgangi að tryggja varnir manna og dýra á Íslandi. Þótt fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem hvað harðast berjast fyrir óheftum innflutningi séu miklir þá er heilsa og velferð þjóðarinnar það dýrmætasta sem við eigum. Okkar skylda er að standa vörð um heilsu og manna og dýra. Mikilvægara getur það ekki verið. Það er því okkar mat að málið þurfi lagfæringa við áður en til afgreiðslu kemur.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar og Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. maí 2019.