Fjarvinna, eða starf án staðsetningar, snýst ekki um að vinna heima á náttfötunum eða hafa ekki samskipti við annan en köttinn á heimilinu. Með aukinni samskiptatækni og háhraðafjarskiptatengingum um allt land skapast tækifæri til að starfa við margvísleg störf víðar en innan fyrirfram ákveðinna veggja. Covid-19-veiran kippir okkur hraðar inn í fjórðu iðnbyltinguna. Stór tæknifyrirtæki eins og Google sjá fyrir sér að starfsmannaaðstaða verði sífellt minni kostnaður af uppbyggingu fyrirtækisins, þrátt fyrir að starfsmönnum fjölgi. Yfir 95% starfsmanna Facebook vinna nú heima hjá sér í Covid-fárinu en nærri 50 þúsund starfsmenn vinna hjá fyrirtækinu.Kostir fjarvinnu eru margir. Búseta er ekki lengur skilyrði fyrir því að velja sér störf við hæfi og því er hægt að velja sér búsetu út frá fleiri þáttum en atvinnu. Fjarvinna getur líka veitt fólki með fötlun aðgang að fleiri valkostum til atvinnu. Með aukinni fjarvinnu er líka dregið úr loftslagsmengun þegar ferðum fækkar til og frá vinnustað. Vissulega geta líka verið ókostir við fjarvinnu, þá kannski einna helst að hætta er á að fólk einangrist félagslega og liðsandi meðal starfsmanna verði minni.
Varnir, vernd og viðspyrna er yfirskrift á aðgerðaáætlun stjórnvalda við þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir nú. Það er mikilvægt hverju samfélagi að halda uppi þróttmiklu og fjölbreyttu atvinnulífi. Nýtum reynslu síðastliðinna mánaða til góðs. Við förum aldrei tvisvar yfir sama lækinn. Það er svo sannarlega tími til að virkja mannauðinn á öllu landinu. Við höfum allt til staðar; viljann, mannauðinn og tæknina. Samgöngur fara batnandi og með allt þetta að vopni munum við ná viðspyrnu á ný.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. júní 2020.