Categories
Greinar

Styttri vinnuvika hjá Akraneskaupsstað?

Deila grein

27/03/2018

Styttri vinnuvika hjá Akraneskaupsstað?

Ingibjörg Pálmadóttir bæjarfulltrúi ,,Frjálsra með Framsókn“ lagði fram tillögu um styttri vinnuviku og/eða sveigjanlegan vinnutíma. Tillöguna lagði hún fram á bæjarstjórnarfundi, þann 13. mars síðastliðinn. Tillagan fjallar um að fela sviðsstjórum Akraneskaupsstaðar að leita leiða og koma með tillögur til að stytta fjölda vinnustunda starfsmanna Akraneskaupsstaðar og/eða auka möguleikann á sveigjanlegri vinnutíma. Á fundinum var ákveðið að vísa tillögu Ingibjargar til bæjarráðs.

Tillagan var tekin fyrir í bæjarráði, þann 15. mars s.l. og þar var ákveðið að bæjarstjóri myndi afla upplýsinga um fyrirliggjandi tilraunaverkefni hjá Reykjavíkurborg. Tilraunaverkefnið er unnið í samvinnu við heildarsamtök launþega. Það verkefni er sambærilegt því sem tillaga Ingibjargar fjallar um.

Markmið tillögunnar er að auka starfsánægju, bæta lífsgæði og fækka veikindadögum. Þekkt er að mikið og stöðugt álag veikir almennt ónæmiskerfi líkamans og mótstöðu gegn líkamlegum sem andlegum veikindum.

Margar rannsóknir sýna að þar sem vinnutími er styttur, án þess að til launaskerðingar komi, bæti líðan starfsmanna og um leið frammistöðu. Það má því segja að hagur beggja, bæði atvinnurekanda og starfsmanna, sé augljós.

Í þessu samhengi má nefna að leikskólinn Hof í Reykjavík hefur tekið þátt í tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttri vinnuviku. Á málþingi sem haldið var fyrir stuttu síðan kom fram að starfsfólk leikskólans var mjög ánægt með verkefnið og veikindadögum starfsfólks fækkaði úr 7,6% niður í 4,3%. Auk þessa var starfsánægjan meiri og starfsfólk átti fleiri gæðastundir með fjölskyldu sinni. Á sama málþingi fjallaði stjórnarformaður Hugsmiðjunnar um verkefni fyrirtækisins um styttri vinnudag. Niðurstöðurnar eru þær að framleiðni starfsmanna hefur aukist um 23%, veikindadögum hefur fækkað um 44% og starfsánægja allra starfsmanna hefur aukist.

Ég fagna því að bæjarfulltrúar Akraneskaupsstaðar hafi tekið vel í tillögu Ingibjargar og falið bæjarstjóra að afla upplýsinga um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar. Ef að niðurstaða þeirrar skoðunar leiðir til sömu niðurstöðu og raktar eru í þessari grein þá er mikilvægt að bregðast við. Það væri einn liður í því að gera Skagann okkar að enn öflugri fjölskyldubæ.

Elsa Lára Arnardóttir 

Höfundur er oddviti Framsóknar og frjálsra á Akranesi.

Greinin birtist á skessuhorn.is 27. mars 2018.