Alþjóðlegur dagur lista er í dag. Víða um veröld hefur menningin gert það sem hún gerir best á erfiðum tímum; veitt huggun, afþreyingu og innblástur. Íslendingar eru listhneigðir og menningarneysla hér á landi er meiri en víðast annars staðar. Í ferðalögum okkar innanhúss höfum við nýtt tímann til að lesa góðar bækur, horfa á kvikmyndir og þáttaraðir og njóta tónlistar. Skoða má heilu myndlistar- og hönnunarsýningarnar gegnum streymisveitur og fjölmiðla.
Ekkert af þessu er þó sjálfsagt. Menningarlíf verður að rækta og viðhalda. Núverandi aðstæður hafa til dæmis komið illa við tónlistarmenn og sviðslistafólk sem hefur orðið fyrir miklu tekjutapi vegna viðburða, sýninga og tónleika sem fallið hafa niður. Í könnun sem Bandalag íslenskra listamanna (BÍL) gerði meðal félagsmanna sinna sögðust um 70% sjálfstætt starfandi listamanna hafa orðið atvinnu- og verkefnalausir vegna COVID-19. BÍL spáir því að á þremur mánuðum muni þetta eiga við um 90% þeirra.
Vegna mikilvægis menningar hefur ríkisstjórnin ákveðið að veita strax viðspyrnu og verður yfir hálfum milljarði í fyrsta aðgerðapakkanum varið til menningar, lista og skapandi greina. Þessu fjármagni er ætlað að brúa bilið fyrir listafólkið okkar þar til hjól samfélags og atvinnulífs fara að snúast á nýjan leik. Með aðstoð miðstöðva lista og skapandi greina fer fjármagnið í gegnum sjóði og fagstjórnir þeirra sem taka munu við umsóknum og úthluta styrkjum strax í maí. Þá fer hluti fjármagnsins til mikilvægra verkefna sem snúast um menningarminjar og að gera menningararf okkar aðgengilegri.
Afrakstur þessarar fjárfestingar er óumdeildur. Menning og listir eru auðlind sem skilar efnahagslegum gæðum til samfélagsins í formi atvinnu, framleiðslu á vöru og þjónustu til neyslu innanlands og útflutnings. Við þurfum ekki annað en að horfa til þeirra landa sem fremst eru, þar sem rannsóknir sýna að skapandi atvinnugreinar eru ekki einungis hratt vaxandi burðargreinar, heldur eru þær sveigjanlegri, vaxa hraðar en aðrar atvinnugreinar, skapa aukið virði innan annarra atvinnugreina og eru oft nátengdar því sem helst virðist horfa til framtíðar. Þessi lönd hafa með ýmsum hætti reynt að greiða leið frumkvöðla og fyrirtækja á sviði skapandi greina með hvetjandi aðgerðum.
Nú er rétti tíminn til að sækja fram. Menningin verður efld og við reiðum okkur á skapandi greinar til framtíðar. Ljóst er að þar er einn okkar mesti auður og viljum við rækta hann áfram. Þrátt fyrir mikla ágjöf vegna farsóttarinnar, þá munum við komast í gegnum þetta eða eins og fram kemur í texta Jóns R. Jónssonar: „Það hvessir, það rignir en það styttir alltaf upp og lygnir.“
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. apríl 2020.