Það kemur skýrt fram í greinum sem birst hafa hér í Morgunblaðinu og á fréttavefnum mbl.is síðustu daga hversu mikill mannauður býr í íslenskum kennurum og hversu mikilvægu hlutverki þeir gegna í uppbyggingu menntakerfisins til framtíðar. Greinaflokkur Guðrúnar Hálfdánardóttur blaðamanns um menntakerfið hefur vakið verðskuldaða athygli enda nálgast hún viðfangefnið úr mörgum áttum, viðmælendurnir eru afdráttarlausir í málflutningi sínum og margir uppfullir af góðum vilja, hugmyndum og eldmóði.
Til þess að tryggja að Ísland sé í fremstu röð þurfum við að styrkja menntakerfið og að því vinnum við nú með mótun nýrrar menntastefnu til ársins 2030. Í því samhengi vil ég nefna þrennt sem tengist þeirri stöðu sem fjallað er um í greinaflokki Guðrúnar. Í fyrsta lagi er það mikilvægi íslenskukennslu og læsis. Góður grunnur í íslensku spáir fyrir um árangur nemenda í öðrum greinum og tel ég einsýnt að efla þurfi íslenskukennslu á öllum skólastigum. Verið er að kortleggja stöðu nemenda með annað móðurmál en íslensku á landsvísu en á vegum ráðuneytisins vinnur starfshópur að heildarstefnumörkun fyrir þá nemendur.
Í annan stað horfum við til þess að forgangsraða í auknum mæli fjármunum til snemmtækrar íhlutunar í grunnskólum og gera breytingar á viðmiðum um fjárveitingar sem nú eru að mestu háðar greiningu á einstaklingsbundum sérþörfum í námi. Þetta tengist einnig aukinni áherslu sem þessi ríkisstjórn hefur sett á málefni barna og aukið samstarf milli málefnasviða sem að þeim snúa. Fagnaðarefni er að nú hefur farið fram heildarendurskoðun, í víðtæku samráði, á þjónustu við börn og fjölskyldur og verða tillögur er henni tengjast kynntar á næstunni.
Í þriðja lagi þarf að miðla því betur til nemenda, foreldra og skólafólks hvernig haga skuli námsmati og notkun hæfniviðmiða í grunnskólum. Mikið er í húfi að allir geti nýtt sér þau og að framsetning þeirra og endurgjöf skóla sé skýr; þannig er líklegra að allir nái betri árangri í námi.
Vilji er til góðra verka í íslensku menntakerfi, þar starfa ástríðufullir kennarar og skólafólk sem vinnur frábært starf á degi hverjum. Verkefnin eru ærin og þeim fækkar mögulega ekki en við getum unnið að því í sameiningu að ryðja burt hindrunum og auka samstarf, skýrleika og skilvirkni svo að fleiri nemendur geti náð enn betri árangri. Ég vil þakka Guðrúnu Hálfdánardóttur fyrir þetta mikilvæga innlegg sem umfjöllun hennar um menntamál sannarlega er og hvetja sem flesta til þess að kynna sér hana.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. september 2019.