Mikilvægt er að framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar, frá gatnamótunum við Krýsuvík að Hvassahrauni, ljúki hið fyrsta. Á sínum tíma, þegar uppi voru áform um stækkun álversins í Straumsvík, keypti álverið land undir þá stækkun og á því landi liggur Reykjanesbrautin í dag. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi átti Reykjanesbrautin því að færast frá álverinu um leið og álverið þyrfti lóðina til stækkunar. Þau áform um stækkun voru naumlega felld í íbúakosningu árið 2007 og ekkert hefur því orðið af tilfærslu brautarinnar.
Framkvæmdum flýtt
Nýleg skýrsla Vegagerðarinnar og Mannvits sýndi að hagkvæmast er að breikka Reykjanesbrautina í núverandi vegstæði í stað þess að færa hana líkt og gildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir. Góð og lausnamiðuð samtöl hafa verið við Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra og fulltrúa Vegagerðarinnar og álversins í Straumsvík. Samstaða og skilningur er á milli aðila um að vinna í samræmi við þær forsendur sem fram koma í skýrslunni, ásamt því – og um leið – að treysta athafnasvæði álversins til framtíðar. Þetta hefur gefið okkur raunhæfar væntingar, líkt og ráðherra hefur boðað, um að framkvæmdum á þessum vegkafla verði flýtt um nokkur ár og komist inn á fyrsta tímabil samgönguáætlunar. Umferðaröryggi er málefni sem snertir okkur öll og eru þetta því mikil gleðitíðindi fyrir okkur Hafnfirðinga og landsmenn alla. Í ljósi þessa og í samræmi við það sem fram kemur í skýrslunni og eftir samráð við fulltrúa álversins í Straumsvík er nú hafin vinna við breytingar á aðalskipulagi Hafnarfjarðar og mun bæjarfélagið, eðli málsins samkvæmt, vera í samstarfi við fyrirtækið í allri þeirri vinnu.
Óboðlegur málflutningur um álverið
Öflugt atvinnulíf er hverju samfélagi mikilvægt og höfum við lagt ríka áherslu á að skapa fyrirtækjum í bænum aðlaðandi og traust umhverfi. Slíkt hefur gefið okkur möguleika á að fjárfesta í innviðum og létta undir með íbúum bæjarfélagsins. Nýverið sagði Tómas Guðbjartsson læknir álverið í Straumsvík vera dauðvona og á líknandi meðferð. Það er dapurlegt að skynja þau viðhorf sem fram koma í ummælum læknisins til þessa stóra vinnustaðar í landinu og þeirra einstaklinga sem þar starfa. Í álverinu í Straumsvík starfa um 400 starfsmenn með ólíka menntun og reynslu, ásamt því að álverið er einn stærsti útflytjandi vara frá Íslandi. Það gefur því augaleið að fyrirtækið er samfélaginu mikilvægt og er eitt af okkar góðu og traustu fyrirtækjum. Málflutningur sem þessi er því óásættanlegur og í raun með öllu óboðlegur.
Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæjarráðs í Hafnarfirði. agustg@hafnarfjordur.is
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2020.