Categories
Greinar

Vandamálið sem enginn talar um

Deila grein

15/03/2014

Vandamálið sem enginn talar um

Karl GarðarssonLjóst er að fjölga þarf hjúkrunarrýmum fyrir aldraða um allt að 1.700 á næstu 15 árum og nemur kostnaður vegna þessa um 54 milljörðum króna. Af þessum fjölda eru um 1.100 á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru staðreyndirnar sem stjórnmálamenn forðast að ræða, enda aldrei vinsælt að ræða um málefni aldraðra, hóps sem gerir litlar kröfur og er aldrei hávær. Slíkir hópar eru sjaldnast ofarlega í forgangsröðinni.

Miklar breytingar verða á aldurssamsetningu þjóðarinnar á næstu áratugum. Þannig er gert ráð fyrir að þeim sem eru 67 ára eða eldri fjölgi um rúmlega 26.000 á næstu 15 árum, eða um 71% frá því sem er í dag. Talið er að þeim sem eru 80 ára og eldri fjölgi um tæplega 6.600, eða um 55%. Þessar miklu breytingar kalla á aðrar og ólíkar áherslur í heilbrigðismálum, þar sem hugsa þarf fyrir þörfum þessa vaxandi hóps.

Flestar fjölskyldur þekkja þann vanda sem skapast þegar þarf að koma öldruðum ættingjum í hjúkrunarrými. Að meðaltali voru um 250 manns á biðlista eftir slíkum rýmum á þriðja ársfjórðungi síðasta árs, og var meðalbið hátt í fjórir mánuðir. Að óbreyttu mun þessi tími lengjast til muna. Niðurskurður undanfarinna ára á framlögum til heilbrigðismála hefur komið illa niður á öldruðum. Þjónusta hefur verið skert og lyfjakostnaður aukist. Þessu verður að breyta. Nauðsynlegt er að styrkja heimaþjónustu og stoðþjónustu til muna.

Flestir eru sammála um nauðsyn þess að veita auknu fjármagni í heilbrigðiskerfið, sem stendur frammi fyrir auknu álagi á næstu árum, þar sem þjónustan verður ekki síst að taka mið af því að þjóðin er að eldast. Þá hefur rekstur hjúkrunarheimila verið erfiður og daggjöld of lág. Minni heimili hafa átt sérstaklega erfitt.

Unnið er að úttekt á málefnum aldraðra sem gerð verður opinber í byrjun sumars. Málið þolir enga bið. Stjórnvöld verða að taka höndum saman við sveitarfélög og einkaaðila um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Við verðum að gera þá lágmarkskröfu að þörfum aldraðra sé sinnt með viðeigandi hætti og að langir biðlistar eftir þjónustu heyri sögunni til. Aldraðir eiga það skilið.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. mars 2014.)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.