Saga vegagerðar á Vestfjörðum spannar 70 ár. Þá hófst uppbygging vegakerfis á milli þéttbýla og milli svæða. Dynjandisheiðin var opnuð 1959 eða fyrir 60 árum og vegurinn verið óbreyttur síðan. Hringvegi um Vestfirði var lokið árið 1975 með veglagningu í Ísafjarðardjúpi.
Stjórnvöld hafa ákveðið að nú skuli koma Vestfjarðarvegi til annarrar kynslóðar og koma þar með Suðurfjörðunum Vestfjarða til nútíma samgönguhátta. Sú leið er fjármögnuð á fjárlögum og í samgönguáætlun. Það hefst með Dýrafjarðargöngum, uppbyggingu vegar um Dynjandisheiði og nýrri veglagningu um Gufudalssveit.
Vestfirðingar hafa beðið þolinmóðir eða réttara sagt með þrautseigju. Í húfi er uppbygging atvinnulífs, fiskeldi, ferðaþjónusta og fleiri atvinnuhættir sem krefjast nútíma samganga.
Það er því mikil ábyrgð eins sveitarfélags í flóru Vestfjarðasveitarfélaga að setja þá langþráðu ákvörðun frá stjórnvöldum í uppnám með þvergirðingshætti sínum um leiðarval.
Það er ljóst að alltaf verður ágreiningur um leiðir, ekki bara veglagningu heldur allar ákvarðanir sem skulu standa til framtíðar. Sú leið sem hefur náð mestri sátt meðal sveitarfélaga á Vestfjörðum er Þ-H leið um Teigskóg og er komin næst framkvæmdastigi. Hún hefur einnig verið talin hagkvæmust af sérfræðingum Vegagerðarinnar og talinn veita mesta umferðaröryggið af þeim leiðum sem rannsakaðar hafa verið.
Fögnum langþráðri ákvörðun stjórnvalda um uppbyggingu Vestfjarðarvegar. Það er í skipulagsábyrgð sveitarfélaga að greiða fyrir þeirri uppbyggingu. Ég hvet sveitastjórn Reykhólahrepps til samábyrgðar Vestfirðinga við að byggja fjórðunginn upp til framtíðar.
Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis
Greinin birtist fyrst á bb.is 13. janúar 2019.