Categories
Sveitarstjórnarfólk

Árborg

Deila grein

Sveitarstjórnarfólk Framsóknar

FRAMSÓKN Í ÁRBORG

 

Áherslur Framsóknar fyrir Sveitarfélagið Árborg í bæjarstjórnarkosningum 2022

Grunnstefna Framsóknar í Árborg er að skapa leiðandi samfélag á Suðurlandi á sviðum atvinnu-, mennta- og menningarmála. Árborg verði fyrirmyndar samfélag þar sem samfélagslegt öryggi, fjármálastjórn og umhirða sveitarfélagsins ásamt mannrækt í formi íþrótta og heilsueflingar verði leiðandi á landsvísu.

 

Fræðslu og menntamál

Þjónustutrygging og jafnræði í þjónustu við börn.

Framsókn leggur ríka áherslu á samþættingu menntunar og fjölskyldumála. Ný og endurskoðuð menntastefna verði í samræmi við þarfir íbúa og þróun byggðar. Framsókn vill að skóli sé fyrir alla þar sem virðing og umhyggja einkenna starfsumhverfi barna og kennara með öflugu samtali allra sem að menntun koma. Lögð er áhersla á sköpun, einstaklingsmiðað nám þar sem styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín auk fyrirmyndaraðstöðu, óháð því hvaða áskoranir eru fyrir hendi. Þetta eru meginforsendur fyrir því að við bjóðum upp á árangursríka menntun á öllum stigum börnunum okkar til heilla. 

Við ætlum að:

  • Stytta biðlista eftir leikskólaplássi með það að markmiði að öll börn frá 18 mánaða aldri komist inn.
  • Þrýsta á aukna fjárveitingu frá ríkinu vegna þeirra skyldna sem lagðar eru á sveitarfélögin með gegnsæju samtali.
  • Leggja ríka áherslu á snemmtæka íhlutun í menntakerfi sveitarfélagsins.
  • Framsókn vill að komið verði á þjónustutryggingu, sem þýðir að ef einstaklingur fær ekki heilbrigðis- eða félagsþjónustu hjá hinu opinbera er honum vísað til einkaaðila, samanber danska módelið.
  • Tryggja Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri framtíðarhúsnæði sem mætir þörfum barna og starfsmanna við skólann.
  • Stuðla að bættu starfsumhverfi og bættri starfsaðstöðu í skólum Árborgar.

 

 

 

Velferðar og fjölskyldumál

Fjölskyldan er grundvöllur öflugs samfélags og hana ber að styrkja.

Fjölskyldan er grunneining samfélagsins og hefur snertiflöt við alla starfsemi sveitarfélagsins. Huga þarf að velferð fjölskyldunnar í hvívetna. Félagsþjónusta og málefni aldraðra eru á ábyrgð sveitarfélagsins og þá þjónustu þarf að veita af alúð og myndarskap. Framsókn leggur ríka áherslu á að vera leiðandi í jafnréttismálum og mun hafa það til grundvallar við útdeilingu verkefna í sveitarfélaginu. 

Við ætlum að:

  • Mæta fjölskyldunni
  • Með heimgreiðslum að loknu fæðingarorlofi og þar til barn fær inngöngu í leikskóla eða daggæslu, allt að 18 mánaða ásamt því að veita aðhald og hvatningu til ríkisvaldsins um framlengingu fæðingarorlofs.
  • Efla félagsþjónustu og styrkja einstaklinginn til sjálfstæðra starfa og virðisauka með það að markmiði að hver og einn nái að blómstra í samfélaginu óháð því hvaða áskoranir hver og einn býr við. 
  • Auka virðingu og skilning á milli mismunandi menningarheima og stuðla að fjölbreyttu og umburðarlyndu samfélagi.
  • Fjölga búsetuúrræðum fyrir aldraða, efla heimaþjónustu og búa til aðstæður fyrir þann mikilvæga hóp til að lifa sjálfstæðu lífi þar sem grunnþjónusta er til fyrirmyndar.
  • Hefja samtal við ríkið um að efla fæðingarþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og tryggja öfluga og örugga fæðingardeild.
  • Gera stórátak í aðgengismálum fatlaðs fólks í sveitarfélaginu, samþætta og endurskoða þjónustu við fatlaða. Mikilvægt er að halda áfram samstarfi við nærliggjandi sveitarfélög við uppbyggingu búsetuúrræða fyrir fatlaða. 
  • Setja öryggið á oddinn
  • Tryggjum öryggi íbúa Árborgar. Það gerum við í samvinnu við ríkið með öflugri starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og að stofnunin verði öflug kennslustofnun í Heilbrigðisvísindum.
  • Tryggja öfluga utanspítalaþjónustu og stuðla að greiðum aðgangi að heimilislækni fyrir alla.

 

 

Íþrótta-, frístunda- og menningarmál

Að ná árangri er ákvörðun og við ætlum að taka ákvörðun.

Framsókn hvetur til íþrótta- tómstunda og frístundastarfs. Fjölbreytt menningar- og íþróttastarf er forsenda gjöfuls lífs í sveitarfélaginu. Öflugt samfélag byggist upp á því að allir hafi jöfn tækifæri til að vaxa og dafna hver á sínum forsendum. Það gildir bæði í afreksstarfi eða fyrir félagslega þróun og gleðina sem fylgir því taka þátt í íþrótta- og frístundastarfi. Þannig getur sveitarfélagið stuðlað að jákvæðri ímynd og bættri sjálfsmynd allra.

Við ætlum að:

  • Jafna leikinn
  • Aukið aðgengi barna, unglinga og aldraðra að íþrótta- og frístundastarfi óháð efnahag. 
  • Framsókn vill aukið samtal og samstarf sveitarfélagsins við hlutaðeigandi aðila um íþróttaiðkun og frístundastarf barna og ungmenna.
  • Skapa samfélag í fararbroddi varðandi aðstöðu fyrir íþrótta- og menningarstarfsemi til dæmis með gerð reiðstíga, íþróttamannvirkja eða göngustíga. 
  • Búa til samfellu skólastarfs, íþrótta og frístundastarfs og stytta þar með starfsdag barnanna okkar og auka samverustundir fjölskyldunnar.

 

Atvinnumál

Vinna, vöxtur, velferð – öflugt atvinnulíf er grunnforsenda að öflugu velferðarkerfi.

Göngum skörulega til verka og ráðumst af krafti í uppbyggingu atvinnulífs í Árborg með opnu samtali við ríkið um tilflutning starfa og uppbyggingu tækifæra um óstaðbundinn störf. Framsókn leggur áherslu á að skipuleggja nýjar íbúða- og atvinnulóðir til að mæta íbúafjölgun í samfélaginu. Samhliða því tryggjum við vöxt núverandi fyrirtækja sveitarfélagsins.

Við ætlum að:

  • Fjölga opinberum störfum með staðsetningu í Árborg.
  • Gera Árborg eftirsóknarverða staðsetningu fyrir fyrirtæki.
  • Framsókn vill hvetja til atvinnuuppbyggingar í orði og á borði með því að veita 75% endurgreiðslu á gatnagerðagjöldum vegna byggingar á atvinnuhúsnæði í sveitarfélaginu.
  • Vera leiðandi í íslenskri ferðaþjónustu og gera Árborg að ferðamálamiðstöð Suðurlands og vera í fararbroddi í öflugri ferðaþjónustu.

 

Umhverfis og skipulagsmál

Árborg verði leiðandi samfélag með metnaðarfulla umhverfisstefnu.

Framsókn vill stuðla að gagnsæi skipulagsmála í Árborg og ákvarðanir um úthlutun gæða séu opinberar. Aðalskipulag taki mið af hagsmunum íbúa og gatnagerð sé metin út frá umferðaröryggi. Með tilkomu nýrrar Ölfusárbrúar verði skipulag endurskoðað til að tryggja öryggi íbúa og greiðar samgöngur gangandi, hjólandi og akandi um helstu umferðaræðar sveitarfélagsins. Við skipulag frekari íbúðarbyggðar í sveitarfélaginu verði hugað að því hvernig uppbygging skólamála skuli háttað í samræmi við íbúaþróun. Sett verði skýr stefna og markmið með það að leiðarljósi að tryggja hnökralausa innviði og þjónustu sveitarfélagsins. Framsókn vill að horft sé til framtíðar við uppbyggingu skólamannvirkja í sveitarfélaginu og að hagaðilar séu fengnir að borðinu og hlustað á þá sem starfa og læra í umhverfinu.

Við ætlum að:

  • Endurskoða aðalskipulag Árborgar með tilliti til þróunar undanfarinna ára og leggjum áherslur á komandi áratugi við skipulagningu íbúðahverfa, atvinnu- og frístundasvæða.Tökum höndum saman.
  • Stuðla að Framsókn í skipulagi 
  • Unnið verði að svæðisskipulag fyrir alla Árnessýslu með það að markmiði að svæðið verði skilgreint sem eitt atvinnu- og búsetusvæði. Komið verði á samtali við nærliggjandi sveitarfélög um samþættingu þjónustu líkt og almenningssamgangna.
  • Aðlaga sorphirðu og flokkun betur að þörfum íbúa sveitarfélagsins og fýsileiki djúpgámakerfis skoðaður.
  • Fræða og hvetja alla til að taka þátt í því að ganga vel um náttúruna og nærumhverfi. Árborg setji sér háleit og framsækin markmið í loftslagsmálum. 
  • Verða leiðandi á landsvísu í baráttunni við náttúru- og loftslagsvá.
  • Leggja áherslu á að börn í Árborg fræðist um sjálfbærni og efla færni þeirra til að skilja umhverfi sitt og þau hvött til að hafa áhrif.
  • Vinna að því að bæta aðstæður fyrir hundaeigendur
  • Ráðast án tafar í framtíðarlausnir í fráveitumálum.
  • Hlúa að landbúnaði í sveitarfélaginu Árborg með því að standa vörð um gott landbúnaðarland innan sveitarfélagsins.
  • Grundvallar réttur íbúa er aðgangur að heitu og köldu vatni sem þarf að tryggja.
  • Bæta umhverfisumhirðu í Árborg og beina starfskröftum sveitarfélagsins enn frekar í átt að skipulagi og framkvæmd á fegrun sveitarfélagsins.

 

Stjórnsýsla og fjármál

Gagnsæ og fagleg stjórnsýsla

Fagleg ráðdeild við uppbyggingu innviða og metnaður í fjármálastjórnun er nauðsynlegur samhliða auknum vexti. Grundvöllur að áframhaldandi vexti liggur í öflugri og afkastamikilli stjórnsýslu ásamt ábyrgri fjárstýringu. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á undanförnum árum með nauðsynlegum fjárfestingum í innviðum samfélagsins. 

Við ætlum að: 

  • Stuðla að hagræðingu í eignum sveitarfélagsins og innkaupum fasteignaverkefna samhliða því að tryggja gæði.
  • Gera ákvarðanir um fjárfestingar, lántöku og fjármál sveitarfélagsins aðgengilegri og skiljanlegri fyrir íbúa.
  • Stuðla að opnu samtali stjórnvalda í Árborg við íbúa sveitarfélagsins. Bætt upplýsingaflæði og skýr framsetning fundargerða er mikilvæg til að íbúar séu meðvitaðir um framgang verkefna og ákvarðanir bæjarstjórnar.

Framboðslisti Framsóknar í Árborg

Framboðslisti Framsóknar í Sveitarfélaginu Árborg fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2022:

1. Arnar Freyr Ólafsson, alþjóða fjármálafræðingur
2. Ellý Tómasdóttir, MS í mannauðsstjórnun og forstöðukona
3. Gísli Guðjónsson, Búfræðingur og BSc í búvísindum
4. Díana Lind Sigurjónsdóttir, leikskólakennari og deildarstjóri.
5. Matthías Bjarnason, framkvæmdastjóri
6. Guðrún Rakel Svandísardóttir, umhverfisskipulagsfræðingur og kennari
7. Arnar Páll Gíslason, vélfræðingur og bráðatæknir
8. Kolbrún Júlía Erlendsdóttir, sérfræðingur á sviði kjaramála
9. Óskar Örn Hróbjartsson, tamningamaður og reiðkennari
10. Brynja Valgeirsdóttir, líffræðingur og kennari í FSU
11. Páll Sigurðsson, skógfræðingur
12. Gissur Jónsson, framkvæmdastjóri
13. Marianne Ósk Brandsson-Nielsen, fv. heilsugæslulæknir
14. Björn Hilmarsson, fangavörður
15. Guðmunda Ólafsdóttir, skjalavörður
16. Gísli Geirsson, fyrrverandi bóndi og rútubílstjóri
17. Fjóla Ingimundardóttir, hjúkrunarfræðingur
18. Arnþór Tryggvason, rafvirki
19. Inga Jara Jónsdóttir, teymisstjóri í félagsþjónustu
20. Þorvaldur Guðmundsson, ökukennari
21. Sólveig Þorvaldsdóttir,jarðskjálfta-  byggingaverkfræðingur
22. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður