Categories
Sveitarstjórnarfólk

Hveragerðisbær

Deila grein

Sveitarstjórnarfólk Framsóknar

This image has an empty alt attribute; its file name is Group-270.png

FRJÁLSIR MEÐ FRAMSÓKN Í HVERAGERÐI

Fjölskyldan í fyrirrúmi

Frjáls með Framsókn leggja áherslu á málefni fjölskyldunnar í komandi kosningum. Það er okkur mikilvægt að skapa hér enn betra samfélag fyrir fjölskylduna með áherslum á umhverfismál, öryggi, íþrótta- og tómstundastarf.

Hveragerðisbær
Hveragerðisbær

Umhverfið

  • Við eigum falleg græn svæði eins og t.d Lystigarðinn og aðstöðuna undir Hamrinum. Þessi svæði eiga mikið inni og getum við nýtt þau enn betur með lagfæringum og nýjum tækifærum til leikja og útiveru. Við viljum einnig leita leiða til að útbúa varanlega salernisaðstöðu á þessum svæðum.
  • Við teljum mikilvægt að ljúka við frágang á aðkomu og bílastæði við Hamarshöllina sem og að finna varanlega lausn á búningaaðstöðu en hún er óviðunandi.
  • Hveragerðisbær er eitt af fáum sveitarfélögum landsins sem flokkar í þriggja tunnu kerfi og þar á meðal lífrænt. Við viljum áfram vera leiðandi á þessu sviði og efla flokkun og endurvinnslu úrgangs og stuðla að plastpokalausu Hveragerði.
  • Við viljum útvíkka starf umhverfisnefndar yfir í umhverfis- og ferðamálanefnd sem hefur það markmið að fá ferðamanninn til að dvelja lengur í bænum.

Öryggi

  • Við viljum taka umferðaröryggismál í bænum til endurskoðunar með öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í huga. Einnig viljum við fjölga speglum þar sem skyggni er lítið fyrir ökumenn vélknúinna ökutækja.
  • Þrátt fyrir að gervigrasið á sparkvellinum við grunnskólann sé tiltölulega nýtt er það iðkendum varasamt. Við teljum nauðsynlegt að laga gervigrasið til að tryggja öryggi iðkenda.

Íþrótta- og tómstundastarf

  • Til að styðja enn betur við fjölskyldur og íþróttaiðkun barna í Hveragerði viljum við hækka frístundastyrkinn í a.m.k. 40.000 kr.  á kjörtímabilinu.
  • Við teljum nauðsynlegt að keyra yngstu iðkendurna á æfingar í Hamarshöllinni eins og verið hefur.  Við viljum útfæra aktsturinn enn frekar, bæði með fjölgun ferða og að aka stuttan hring um bæinn með ákveðnum stoppistöðvum.
  • Við styðjum að komið verði á fót íþróttaskóla í samstarfi við Hamar fyrir yngstu börnin, svo þau fái tækifæri til að kynnast sem flestum íþróttagreinum.

Byggjum upp enn fjölskylduvænna samfélag í Hveragerði!

Við hvetjum þig til að setja X við B í sveitarstjórnarkosningunum á laugardaginn!

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, skipar 2. sæti á framboðslista Frjálsra með Framsókn í Hveragerði.

Snorri Þorvaldssonskipar 3. sæti á framboðslista Frjálsra með Framsókn í Hveragerði

* * *

Aukin lífsgæði – heilsueflandi styrkur

Það er margsannað að hreyfing skiptir miklu máli þegar kemur að líkamlegri og andlegri heilsu. Í 5. Kafla starfsmannastefnu Hveragerðisbæjar segir: „Andleg og líkamleg vellíðan starfsmanna er mikilvæg forsenda góðrar vinnu …“.

Frjáls með Framsókn vilja á næsta kjörtímabili koma á heilsueflandi styrk fyrir starfsfólk Hveragerðisbæjar. Til að byrja með fælist styrkurinn í því að starfsmenn Hveragerðisbæjar fái frítt í sund í Sundlauginna Laugaskarð.

Það er hverju fyrirtæki gríðarlega mikilvægt að hafa góðan mannauð og forsenda þess að halda uppi faglegu og metnaðarfullu starfi. Til að hafa góðan mannauð er mikilvægt að starfsfólki líði vel í vinnunni. Í 3. kafla starfsmannastefnu Hveragerðisbæjar segir: “Hveragerðisbær vill að starfsmenn fái notið hæfileika sinna í starfi.”

Hveragerðisbær

Við viljum einnig gera þá tilraun að stytta vinnuviku starfsfólks Hveragerðisbæjar um 3-4 klst. en það hefur reynst vel hjá Reykjavíkurborg. Það eykur starfsmannaánægju, bætt andleg og líkamleg líðan starfsmanna og veikindadögum. Þrátt fyrir styttri vinnutíma nær starfsfólkið að sinna verkefnum sínum til fulls. Þjónustan skerðist ekki við notendur.

Starfsmannastefna Hveragerðisbæjar var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í október 2012 í henni kemur fram að hana eigi að endurskoða á 4 ára fresti. Frjáls með Framsókn leggja til að á næsta kjörtímabili verði farið í endurskoðun á starfsmannastefnunni með velferð starfsmannsins í huga. Hveragerðisbær er stærsti vinnuveitandi bæjarins sýnum því gott fordæmi og leggjum áherslu á að skapa hér sérstaklega fjölskylduvænt starfsumhverfi.

Hlúum vel að starfsfólkinu okkar, sköpum hér góðan vettvang þar sem fólki líkar vel að vinna, sé metnaðarfullt í starfi og hafi svigrúm til að huga vel að heilsunni. Þannig tryggjum við góða þjónustu til íbúa.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,
greinarhöfundur er æskulýðsfulltrúi og skipar
2. sæti listans Frjáls með Framsókn í Hveragerði.

* * *

Látum rödd ungmenna heyrast

Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti 2010 að stofna unmennaráð í bænum. Í framhaldinu voru sjö fulltrúar skipaðir í ráðið, fjórir þeirra komu úr nemendaráði Grunnskólans og þrír valdir af menningar-, íþrótta- og frístundanefnd. Því miður hefur ungmennaráðið aldrei náð flugi og í samræðum mínum við bæjarbúa hefur komið í ljós að fæstir vita að ungmennaráð sé starfandi í bænum. Þessu þarf að breyta.

Í æskulýðslögum nr. 70/2007 er kveðið á um að sveitarfélög stofni ungmennaráð og eru þau hugsuð til að vera sveitastjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að ungt fólk hafi tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélagi sínu. Með þessu er m.a. komið til móts við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Hveragerðisbær

Ekki er gott að segja til um ástæður þess að ungmennráð Hveragerðisbæjar hafi ekki náð því flugi sem vonast var eftir. Ekki er nóg að stofnsetja ungmennaráð, fleira þarf að koma til. Getur verið að bæjarstjórn hafi ekki staðið sig nógu vel í að virkja ráðið og leita til þess með málefni sem snerta ungt fólk? Frjáls með Framsókn í Hveragerði telja svo vera og vilja virkja ungmennaráðið mun betur, til að ungmenni hafi þau áhrif sem þau eiga að hafa.

Frjáls með Framsókn í Hveragerði telja grundvöll ungmennaráðsins sé að ungt fólk hafi tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélagi sínu og fái tækifæri til að koma að ákvörðunum sem snerta líf þeirra. Til að svo megi verða viljum við halda t.d. árlega ungmennaþing, þar sem ungmenni bæjarins geti rætt og ályktað um þau mál sem helst brenna á þeim hverju sinni. Auk þess vilja Frjáls með Framsókn opna stjórnsýslu bæjarins á þann hátt að ungmennaráðið eigi áheyrnafulltrúa í flestum nefndum bæjarins, með málfrelsi og tillögurétti. Hver sá sem uppfyllir kröfur um setu í ungmennaráðinu getur boðið sig fram sem áheyrnafulltrúi og kosið með lýðræðislegum hætti á milli áhugasamra á ungmennaþinginu. Öflugt starf ungmennaráðsins eykur bæði ungmennalýðræði og íbúalýðræði, en til að svo verði er nauðsynlegt að bæjarstjórnin styðji vel við bakið á ungmennaráðinu og taki mark á því. Við teljum að ef virkni og áhrif ungmennaráðsins aukist, þá aukist áhugi ungmenna á starfinu og um leið verða áhrif þeirra meiri.

Garðar R. Árnason

Höfundur skipar 1. sæti Frjáls með Framsókn í Hveragerði.

Greinin birtist fyrst dfs.is 17. maí 2018.

* * *

Framboðslisti Frjálsra með Framsókn í Hveragerði

Framboðslisti Frjálsra með Framsókn í Hveragerði var samþykktur á félagsfundi sem fram fór á Hótel Örk á sumardaginn fyrsta 19. apríl.

Listann skipar öflugt fólk sem býr að fjölbreyttri menntun og reynslu úr atvinnulífinu, sem og breytt aldursbil.

Garðar R. Árnason, grunnskólakennari og bæjarfulltrúi leiðir lista Frjálsra með Framsókn fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Í öðru sæti er Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, guðfræðingur og fyrrv. bæjarfulltrúi, í þriðja sæti er Snorri Þorvaldsson, lögreglunemi, fjórða sætið skipar Sæbjörg Lára Másdóttir, hjúkrunarfræðingur og fimmta sætið skipar Nína Kjartansdóttir, þroskaþjálfi.

Hveragerðisbær

Framboðslisti Frjálsra með Framsókn í Hveragerði:

  1. Garðar R. Árnason, 63 ára grunnskólakennari og bæjarfulltrúi
  2. Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, 39 ára æskulýðsfulltrúi og fyrrv. bæjarfulltrúi
  3. Snorri Þorvaldsson, 28 ára lögreglunemi
  4. Sæbjörg Lára Másdóttir, 27 ára hjúkrunarfræðingur
  5. Nína Kjartansdóttir, 34 ára þroskaþjálfi
  6. Örlygur Atli Guðmundsson, 55 ára tónlistamaður, kennari og kórstjóri
  7. Vilborg Eva Björnsdóttir, 43 ára stuðningsfulltrúi
  8. Sigmar Egill Baldursson, 23 ára sölumaður
  9. Steinar Rafn Garðarsson, 35 ára sjúkraflutningamaður
  10. Daði Steinn Arnarsson, 46 ára grunnskólakennari
  11. Adda María Óttarsdóttir, 24 ára hjúkrunarfræðinemi
  12. Herdís Þórðardóttir, 59 ára innkaupastjóri
  13. Guðmundur Guðmundsson, 67 ára bifvélavirki
  14. Garðar Hannesson, 83 ára eldri borgari