Categories
Greinar

Ný nálgun á mál­efni Suður­fjarðar­vegar

Deila grein

23/04/2022

Ný nálgun á mál­efni Suður­fjarðar­vegar

Með sameiningu Fjarðabyggðar varð Suðurfjarðarvegur, sem liggur frá Reyðarfirði um Fáskrúðsfjörð, Stöðvarfjörð, Breiðdal og þaðan áfram suður, þjóðvegur í þéttbýli. Vegurinn liggur í gegnum stóran hluta sveitarfélagsins og um þennan veg, sem er er Þjóðvegur 1, fer mikil umferð á degi hverjum; fólksflutningabifreiðar vegna atvinnu- og skólasóknar íbúa Fjarðabyggðar, vöruflutningar með afurðir tengdum sjávarútvegi og laxeldi sem eru hluti af grunnatvinnuvegum fjórðungsins, ásamt einkabifreiðum sem hefur fjölgað mjög í takt við aukna ferðamennsku.

Málefni Suðurfjarðarvegar hafa lengi verið til umfjöllunar og öllum ætti að vera ljóst að ástand vegarins ekki boðlegt fyrir Þjóðveg 1 og þann mikla umferðarþunga sem um veginn fer á degi hverjum. Framsókn í Fjarðabyggð hefur síðustu ár, líkt og aðrir flokkar í bæjarstjórn, barist ötullega fyrir því að Suðurfjarðarvegur verði settur í forgang í samgönguáætlun. Þrátt fyrir að hans sé nú getið á þriðja hluta þeirrar áætlunar, árið 2030-34, teljum við það langt frá því að vera nóg. Eitt af forgangsverkefnum nýrrar bæjarstjórnar verður því áfram að vera að þrýsta á ríkisvaldið um að endurbótum Suðurfjarðarvegar verði flýtt – en hvernig er best að nálgast það verkefni? Í huga Framsóknarmanna í Fjarðabyggð er nauðsynlegt að huga að nýjum nálgunum í málinu til að reyna að koma því áfram og tryggja að framkvæmdum verði flýtt eins mikið og kostur er.

En hvað er til ráða?

Eins og áður sagði hafa bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð verið óþrjótandi við að þrýsta á um að flýta endurbótum við Suðurfjarðarveg en ekki hefur enn tekist að ýta þeim framar í samgönguáætlun. Framkvæmd við endurbætur Suðurfjarðarvegar er stór framkvæmd, enda um langan veg að ræða þar sem ýmis verkefni bíða, auk þess sem samgöngubætur annarsstaðar á landinu hafa að sjálfsögðu áhrif á stöðu mála. Það er ljóst að þessi fíll verður ekki gleyptur í einum bita, það er ekki raunhæft. Þurfum við þá ekki nýja nálgun?

Framsókn í Fjarðabyggð mun því leggja fram þá tillögu við samgönguyfirvöld að framkvæmdum við veginn verði skipt í hluta og skapa þannig svigrúm til að hægt verði að flýta framkvæmdum. Þannig verði í forgangi að tvöfalda brýr á veginum; yfir Sléttuá í Reyðarfirði, brýr í botni Fáskrúðsfjarðar og yfir Stöðvará í Stöðvarfirði. Í framhaldi af þessu verði síðan farið í vegakafla á suðurströnd Fáskrúðsfjarðar og í Stöðvarfirði. Með þessum hætti ætti að vera mögulegt að hefjast fyrr handa við þetta mikilvæga verkefni. Það þolir enga bið.

Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Elís Pétur Elísson

Höfundar eru mannauðs- og öryggisstjóri og framkvæmdastjóri og skipa 4. og 5. sæti á lista Framsóknar í Fjarðabyggð.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. apríl 2022.