Categories
Greinar

Sterkir innviðir – góð búsetuskilyrði

Deila grein

05/03/2021

Sterkir innviðir – góð búsetuskilyrði

Í starfi mínu í bæjarstjórn Vesturbyggðar er mér tíðrætt um innviði og uppbyggingu þeirra. Hvers vegna? Segja má að umræða um mál tengd innviðum sé algeng í mínu nærumhverfi þar sem hnignun hafði verið viðvarandi um nokkurt skeið í sveitarfélaginu. Það sem gerist við slíkar aðstæður er að innviðir fúna. Þegar hægðist á fyrrnefndri hningnun og hjólin fóru að snúast í rétta átt – var mikið verk fyrir höndum. Sveitarfélagið réðist í vinnu við að útbúa innviðagreiningu en það þótti nauðsynlegt til þess að átta sig bæði á stöðu innviða sveitarfélagsins og framtíðar þörfum. Brýnt var á þessu stigi að forgangsraða rétt í þeirri uppbyggingu sem framundan var.

Íslensk hagfræðileg skilgreining orðsins innviðir er eftirfarandi; „Atvinnu- og þjónustumannvirki sem mynda undirstöðu efnahagslífs í hverju landi, s.s. orkuveitur, fjarskipta- og samgöngumannvirki, skólar, sjúkrahús o.þ.h.“

Innviðir er nokkuð víðfemt orð og hefur sama gildi í hvaða samfélagi sem er, nauðsyn þess að hafa innviði samfélags í lagi er óumdeild og á allsstaðar við. Innviðir eru grunnstoð þess að hægt sé að stuðla að jafnrétti til búsetu, þeir stuðla að samkeppnishæfni samfélaga, en í þeim efnum er meðal annars brýnt að samgöngumannvirki séu í lagi og að fjarskiptasamband og afhendingaröryggi raforku sé tryggt. Samkeppnishæfni samfélaga á landsbyggðinni er viðkvæm og þarf að standa um hana vörð og tryggja að hún sé bætt á þeim svæðum sem hún er ekki til staðar eða af skornum skammti.

Störf án staðsetningar eru til að mynda nokkuð háð því að ástand innviða sé sem jafnast heilt á litið yfir landsbyggðina. Í nútímasamfélagi ætti ekkert að standa í vegi fyrir því að allir landshlutar standi jafnir að vígi hvað slík störf varðar. Mörg spennandi tækifæri á sviði tækni og nýsköpunar eru farin af stað og verður gaman að fylgjast með framvindu til dæmis í verkefnum á borð við Orkídeu sem er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi á vegum Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. En þar er um að ræða samstarf með að það markmiði að auka verðmætasköpun og gera orkutengdum tækifærum hærra undir höfði á sviði hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni. Sambærileg samstarfsverkefni eru EIMUR á Norðurlandi og Blámi á Vestfjörðum.

Ef innviðir eru sveltir verður uppbyggingin gríðarlega erfið og þung þegar hjólin fara að snúast að nýju og úr geta orðið miklir vaxtaverkir sem erfitt getur verið að takast á við.

Því er mikilvægt að næra innviði landsbyggðarinnar jafnt og þétt og leggja alla áherslu á að halda áfram því kraftmikla uppbygginarstarfi sem þegar er hafið. Til þess þarf öfluga forystu fólks með breiðan bakgrunn og djúpan skilning á mismunandi þörfum í fjöldbreyttum samfélagsmyndum.

Iða Marsibil Jónsdóttir, frambjóðandi í 2.-3. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 5. mars 2021.