Eitt af meginhlutverkum þeirra sem skipa forystusveit kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum er að vera málsvari sveitarfélagsins út á við. Það er oft mikil þörf á því gagnvart opinberum stofnunum, fjölmiðlum og fyrirtækjum en allra helst reynir þó á þetta hlutverk þegar kemur að samskiptum við Alþingi og ríkisstjórn.
Það er erfitt að kasta tölu á þann fjölda funda og símtala sem ég hef í gegnum árin átt til að tala um málefni sveitarfélagsins. Þessi vinna er sjaldnast mjög sýnileg. Ekki það að nokkur hafi neitt að fela, ekki er um neitt baktjaldamakk að ræða. En það er óendanlega mikilvægt að rödd sveitarfélagsins heyrist víða og ekki bara á opinberum vettvangi, heldur einmitt á smærri fundum og í samtölum innan ráðuneyta og þingflokka, svo einhver dæmi séu tekin.
Gleði og gremja
Þetta hlutverk kjörins fulltrúa er eitt hið ánægjulegasta við starfið, en getur jafnframt verið einn erfiðasti hluti þess. Ég hef lagt mig fram um að tala fyrir hagsmunum sveitarfélagsins með gildum rökum og af skynsemi. Oft næst fram skilningur á stöðu sveitarfélagsins og góður árangur í hagsmunabaráttunni. Þá er ég glaður.
Í önnur skipti finnst manni eins og verið sé að tala við grjót, alveg sama hvernig er reynt. Það er gremjulegt og á þeim stundum getur sú hugsun lagst þungt á hvort tíma manns og orku er vel varið.
Á þessum árum hef ég lært það að gefast ekki upp. Þar sem maður kemur að lokuðum dyrum í eitt skipti getur rofað til og allt staðið upp á gátt næst þegar reynt er. Ef maður hefur trú á málstaðnum þýðir ekki að leggja árar í bát heldur þarf að reyna aftur, og aftur, og aftur. Stundum vinnast hálfir sigrar, þá er mikilvægt að kunna að gleðjast yfir litlu, og stundum stórsigrar.
Blessunarlega horfum við í nýju sameinuðu sveitarfélagi nú fram á byltingu í samgöngumálum með Fjarðarheiðargöngum, nýjum Axarvegi og klæðningu á Borgarfjarðarveg. Allt eru þetta mál sem hefur þurft að tala fyrir árum saman en eru nú í augsýn þökk sé þrotlausri vinnu margra aðila.
Áfram veginn
En það er líka margt framundan sem þarf að tala fyrir og Framsóknarflokkurinn vill vera leiðandi í þessari baráttu. Við viljum sjá frekari uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli. Við viljum sjá staðbundið háskólanám verða að veruleika í fjórðungnum og fjölbreyttari fjarnámskosti fyrir íbúa hér. Við þurfum bætta hafnaraðstöðu víða í sveitarfélaginu og fleira og fleira. Nýtt sveitarfélag mun þurfa sterka rödd til að tala sínu máli. Ég gef kost á mér til að vera þessi rödd og bið um þinn stuðning til þess.
Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og skipar fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins við komandi sveitarstjórnarkosningar.
Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 7. september 2020.