Categories
Greinar

Gerum góðan bæ enn betri

Deila grein

04/05/2022

Gerum góðan bæ enn betri

Grindavík! Sjávarbærinn sem nær ekki að bjóða sjómönnum sínum örugga innsiglingu á erfiðum vetrardögum þegar öldurnar láta til sín taka. Íþróttabærinn sem bíður sínum iðkendum upp á heimaleiki í meira en 40 km fjarlægð þar sem fótboltavellir bæjarins eru undir ákveðnum regluviðmiðum. Fjölskyldubærinn sem fælir fjölskyldur til nærliggjandi sveitarfélaga til þess að eiga notalega stund saman í barnvænu, öruggu og hlýju sundumhverfi. 

Ársreikningar Grindavikurbæjar árið 2021 sýnir glögglega hagstæðu afkomu bæjarins enn eitt árið. Nokkrir bæjarstjórnarmenn gengu nýlega í pontuna og lýstu yfir stolti sínu á ársreikningnum – réttilega að mínu mati. En það eigum við einnig, kæru Grindvíkingar, að vera og það af okkur sjálfum og starfsmönnum bæjarins sem láta verkin tala og sýna aðgát í rekstri með okkar framlagi til Grindavíkurbæjar.

Grindavíkurbær er fjölmennasti  atvinnurekandi í Grindavík og það án þess að vera með starfsgildið mannauðsstjóra. Því þurfum við að breyta, við þurfum sviðstjóra sem sýnir mannauðsmálum bæjarins jafn mikla athygli og fjármálastjóri sýnir kostnaðarliðum. Það eru starfsmenn bæjarins sem tryggja og framkvæma m.a. lögbundinni þjónustu til bæjarbúa. Við þurfum að hlúa betur að starfsmönnum bæjarins með því að auka fjárfestingu í þeirra starfsumhverfi, starfsþróun og starfsgildum. 

Ég trúi að fjárfestingarnar í mannauð Grindavíkurbæjar sé lykillinn í að bæta þjónustu og innviði bæjarins. Við erum með örugga höfn sem veitir framúrskarandi þjónustu til stærstu atvinnugreinar Grindavíkur en með aðstoð ríkisins er nauðsynlegt að við séum að skoða leiðir sem tryggir öruggari innsiglingu fyrir alla báta og skip sem vilja sækja höfnina í Grindavík. Við höfum verið að fjárfesta í íþróttamannvirkjum á svæðinu en það er ljóst að það er enn verk að vinna svo allir heimaleikir séu leiknir í Grindavík og sundlaugarsvæðið samræmist væntingum bæjarbúa.  

Samfélagið okkar samanstendur af mörgum ólíkum einstaklingum sem allir hafa sína sögu að segja en það er einmitt þessi fjölbreytileiki sem gerir okkar samfélag bara litríkara. Margir af þessum einstaklingum kjósa að standa á hliðarlínunni á meðan aðrir gefa kost á sér í verkin. Þrátt fyrir það er mikilvægt að við tryggjum að við virðum hvoru tveggja og sýnum hvert öðru virðingu. Þó svo að okkar hugmyndir, skoðanir og/eða aðferðir séu ólíkar er ég viss um við eigum sameiginlega sýn og það er að bæta Grindavíkurbæ. 

Framundan eru breytingar á bæjarstjórninni og langar mig að þakka þeim sem frá hverfa fyrir sitt framlag, þið eigið hrós skilið fyrir vel unnin störf. Takk! Ef ég er svo lánsamur að taka sæti í bæjarstjórn fyrir hönd Framsóknar mun ég þurfa aðstoð. Ég mun biðja um hjálp, ég vona að hjálparhönd verði mér veitt þegar ég bið um hana. Ef ég er ekki að skilja málefnið nógu vel má útskýra það aftur fyrir mér svo ég geti öðlast betri skilning. Við munum ekki alltaf vera sammála en ég mun bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Þegar góðir hlutir gerast mun ég hrósa þeim sem koma að málinu og jafnframt veita uppbyggilega endurgjöf til þeirra þegar hlutirnir ganga hægt eða hreinlega ekki upp. Ég hleyp ekki frá ábyrgð, ég hef og er ávallt tilbúinn að axla og fagna ábyrgð. Mig langar að vera virkur og taka þátt í að bæta okkar samfélag, verum saman í liði, það þarf heilt samfélag til að gera Grindavík að enn betri bæ.

Sverrir Auðunssonskipar 2. sæti á lista Framsóknar í Grindavík.

Greinin birtist fyrst á vf.is 4. maí 2022.