Categories
Greinar

Ísland ljóstengt

Deila grein

26/02/2019

Ísland ljóstengt

Brátt styttist í að Ísland verði ljóstengt að fullu. Ljósleiðaravæðingin er eitt mesta byggðaverkefni seinni ára í samstarfi við sveitarfélögin og býr samfélagið enn betur undir þá upplýsingatækniöld sem hefur hafið innreið sína. Verkefnið hefur verið farsælt en næstsíðasta úthlutun styrkja til sveitarfélaga á grundvelli landsátaksins Ísland ljóstengt er í undirbúningi. Með úthlutunni verður stígið stórt skref að því lokatakmarki að gefa öllum lögheimilum og fyrirtækjum í dreifbýli kost á ljósleiðaratengingu sem er árangur á heimsmælikvarða.

Aðdragandinn

Ísland ljóstengt á sér nokkurn aðdraganda en gott fjarskiptanet er og hefur verið áherslumál Framsóknarflokksins. Segja má að kveikjan að alvöru umræðu og undirbúningi þessa mesta byggðaverkefnis seinni ára, sé grein sem ég skrifaði í mars 2013 og bar yfirskriftina ,,Ljós í fjós“. Þá var mér og öðrum þegar orðið ljóst að ljósleiðaratæknin væri framtíðarlausn fyrir landið allt og ekki síst fyrir dreifbýlið þar sem erfiðara eða jafnvel ógjörningur er að beita annarri þráðbundinni aðgangsnetstækni. Málið var sett á dagskrá í stjórnarsáttmálanum 2013 og landsátak sem ber heitið „Ísland ljóstengt“ var sett af stað til að ýta undir þann möguleika að fólk geti valið sér störf óháð staðsetningu. Fimm árum seinna var farið að hilla undir lok verkefnisins en ennþá vantaði töluvert upp á að strjálbýlar byggðir væru með gott fjarskiptasamband. „Ísland ljóstengt“ var því sett aftur inn í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og er eitt af brýnum verkefnum ríkisstjórnarinnar að ljúka ljósleiðaravæðingu landsbyggðarinnar til að byggja upp gott og samkeppnishæft samfélag í hinum dreifðu byggðum. Síðasta úthlutun úr fjarskiptasjóði vegna átaksins verður árið 2020.

Samfélagslegar breytingar

Framundan er tæknibylting sem breytir því hvernig við lifum og störfum. Störfin munu breytast og þau munu færast til. Tæknin tengir saman byggðir og Ísland við umheiminn. Ljósleiðarinn og verkefnið „Ísland ljóstengt“ er gott dæmi um framsækna stefnu okkar framsóknarmanna. Gott og skilvirkt fjarskiptasamband við umheiminn er lykillinn að því að taka þátt í þeim samfélagslegu breytingum sem hafnar eru . Áður réðst búsetan af því hvar viðkomandi fékk starf. Nú er hægt að sjá fram á að þessu verði öfugt farið og að fólk geti í auknum mæli valið sér búsetu óháð störfum. Þannig höfum við náð að skapa hvata til að ungt vel menntað fólk geti sest að á landsbyggðinni og jafnað aðgang landsmanna að atvinnu og menntun.

Hvað var gert

Fyrir fjórum árum síðan höfðu einungis fáein fjársterk sveitarfélög þegar ljósleiðaravætt allt sitt dreifbýli án aðkomu ríkisins eða milligöngu fjarskiptafyrirtækja. Fyrsta úthlutun Fjarskiptasjóðs vorið 2016 grundvallaðist einfaldlega á að ríkið legði sveitarfélögum um allt land til fjármagn við eigin uppbyggingu ljósleiðarakerfa.

Fjarskiptasjóður hefur nú í þrjú ár sett styrktum verkefnum sveitarfélaga einfaldar skorður og lagt til fjármuni á grundvelli samkeppnisfyrirkomulags. Það hefur þýtt að sveitarfélög með sterkari efnahag og eða ódýrari verkefni hafa mörg hver komist lengra í sínum framkvæmdum en ella. Með 400 m.kr. stuðningi úr byggðaáætlun  hefur tekist að aðstoða þau sveitarfélög sem staðið hafa höllum fæti í því samhengi. Fyrirséð var þó að snúið yrði að ljúka þessu landsátaki á skynsamlegan hátt með óbreyttu fyrirkomulagi.

Samvinnuleiðin til að klára

Forsvarsmenn verkefnisins hafa séð við þessu og hyggjast nú bjóða svokallaða samvinnuleið og verður því ekki viðhöfð samkeppni um styrki líkt og áður. Samvinnuleiðin býr til fyrirsjáanleika um fjárveitingar bæði frá fjarskiptasjóði og úr byggðaáætlun þannig að áhugasöm sveitarfélög sem eiga eftir styrkhæf verkefni, geti hagað undirbúningi sínum og framkvæmdum á hnitmiðaðri og hagkvæmari hátt en ella.

Samstaða

Lykill að þessu öllu hefur verið einstök samstaða og samvinna allra hlutaðeigandi í þessari vegferð þar sem áræðni og kraftur heimamanna í sveitum landsins hefur gert gæfumun. Ég er stoltur yfir því að hafa opnað umræðuna um þetta viðfangsefni og geta nú stuðlað að verklokum þessa mikilvæga landsátaks sem er ,,Ísland ljóstengt“.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Categories
Greinar

Almenningssamgöngur fyrir allt landið

Deila grein

14/02/2019

Almenningssamgöngur fyrir allt landið

Skilvirkar samgöngur eru undirstaða verðmætasköpunar. Almenningssamgöngur eru stór liður í þeirri breytu ásamt því að ná settum markmiðum í umhverfismálum. Sterkt almenningssamgöngukerfi um land allt, sem tengir saman byggðakjarna landsins og höfuðborgarsvæðið við landsbyggðina, er forsenda þess að jafna stöðu landsmanna og færa okkur nær hvert öðru. Notkun á almenningssamgöngum verður ekki aukin nema að þjónustustigið taki mið af þörfum notandans þar sem lykilatriði er að hægt sé að rata um leiðarkerfið með skjótum og einföldum hætti. Nýrri stefnu ríkisins um almenningssamgöngur sem mótuð hefur verið í fyrsta sinn er ætlað að tryggja að þær verði raunhæfur valkostur fyrir alla landsmenn.

Jafnt aðgengi

Markmið núverandi ríkisstjórnar er að jafna aðgengi að þjónustu og til atvinnu. Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á að byggja áfram upp almenningssamgöngur um land allt, gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa og að stutt verði við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Nýsamþykkt samgönguáætlun á Alþingi kveður á um að almenningssamgöngur verði skipulagðar sem heildstætt kerfi og í byggðaáætlun er lög áhersla á að skilgreina net almenningssamgangna á landinu öllu og reglur mótaðar um niðurgreiðslu fargjalda.

Vandamálin víkja

Helstu viðfangsefni og vandamál í almenningssamgöngum hér á landi eru viðvarandi halli á rekstri almenningsvagn milli byggða, hátt farmiðaverð, rjómafleytingar einkafyrirtækja, skortur á yfirsýn og erfiðar tengingar milli samgöngumáta. Þar fyrir utan er Ísland eitt erfiðasta svæði í heimi til reksturs almenningssamgangna, en þær þrífast að jafnaði best í fjölmenni og ekki síst þar sem íbúaþéttleiki er hár. Núverandi skipulag almenningssamgangna í lofti, láði og legi milli byggða byggir á þróun sem hefur átt sér stað yfir áratuga skeið og hafa samgöngumátarnir þrír reknir að stærstum hluta hver á sinn hátt, án heildarsýnar.

Eitt leiðakerfi og sameiginleg upplýsingagátt

Lykilatriði í nýju stefnumótuninni eru bætt þjónustustig, sameiginleg upplýsingaveita og þéttari tengingarnar svo ferðamátinn sé sem þægilegastur. Þá er lagt til að upplýsingar um áfangastaði og tímasetningar verði aðgengilegar og stefnt að því að öllum upplýsingum um leiðarkerfi almenningssamgangna verði komið á einn gagnvirkan upplýsingavef. Fyrir farþega er lykilatriði að hægt sé að rata um leiðarkerfið með skjótum og einföldum hætti. Sá sem ætlar að fara frá Vopnafirði til Ísafjarðar eða Kaupmannahafnar til Dalvíkur á ekki að þurfa að leita að fari nema í einni gátt. Upplifunin þarf að vera að eitt far sé pantað, óháð staðsetningu.

Ný drög að heildstæðri stefnu um almenningssamgöngur fara nú til umsagnar til almennings í samráðsgátt stjórnvalda. Stefnan er rökrétt framhald af nýrri samgönguáætlun sem Alþingi hefur samþykkt og verður leiðarljós að bættri þjónustu fyrir almenning. Ég hvet sem flesta til þess að kynna sér tillögurnar á vef samráðsgáttar – samradsgatt.island.is – og vænti þess að sú stefnumótun sem lögð er hér fram muni tryggja áreiðanlega og góða þjónustu til allra landsmanna, stuðla að bættum þjóðarhag og styrkja byggðir landsins í sessi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. febrúar 2019.

 

Categories
Greinar

Umferðaröryggi

Deila grein

21/02/2018

Umferðaröryggi

Umferðarslys eru harmleikur og eru banaslys og alvarleg slys í umferðinni alltof mörg. Árið 2017 voru alvarleg slys 145 talsins, minniháttar slys 711 og árið þar á undan voru alvarleg slys 183 og minni háttar 785. Reiknað hefur verið að hvert og eitt alvarlegt umferðarslys kostar kringum 90 milljónir króna, slys með minni meiðslum um 30 milljónir og að samfélagslegur kostnaður vegna banaslysa sé yfir 600 milljónir króna. Ofan á þetta bætist hinn mannlegi harmleikur sem slysin hafa í för með sér og verður aldrei metinn í peningum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að við forgangsröðun í vegamálum verði litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggisjónarmiða.

Á þessu ári er áætlað að verja auknu fé til aðgerða á sviði umferðaröryggis. Aðgerðirnar snerta fræðslu og eftirlit með okkur ökumönnum, aðgerðir á vegakerfinu og rannsóknir á hegðun okkar í umferðinni. Markmiðið er að fækka umferðarslysum.

Í mínum huga er alveg ljóst að hver króna sem fer til þess að auka umferðaröryggi okkar skilar sér. Er þá sama hvert litið er. Eftirlit lögreglu nær þeim sem brjóta umferðarreglur og kennir okkur lexíu, fræðslan nær til allra aldurshópa vegfarenda og stuðlar að því að gera okkur að betri vegfarendum, aðgerðir og endurbætur á vegum miða að því að minnka áhættu og draga úr afleiðingum umferðarslysa og færa okkur vitneskju um hvar við getum bætt úr.

Þá eru úttektir EuroRAP áhugaverðar sem felast í góðum ábendingum um hvað betur má fara til að bæta öryggi okkar allra, en þær eru byggðar á því að vegir landsins eru skoðaðir með tilliti til öryggisþátta.

Nýjar eftirlitmyndavélar

Umferðaröryggisáætlun er sett fram með samgönguáætlun og nú er til skoðunar aðgerðaáætlun áranna 2018 til 2021. Eitt fjárfrekasta einstaka verkefnið nú er að endurnýja eftirlitsmyndavélar með ökuhraða og er gert ráð fyrir að kaupa nokkrar nýjar myndavélar á hverju þessara fjögurra ára. Undanfarin ár hafa verið skráð milli 20 og 45 þúsund brot á ári hverju og eykst fjöldinn í réttu hlutfalli við fjölgun eftirlitsmyndavéla. Þá má nefna að innheimt sektarfjárhæð vegna hraðakstursbrota eftir myndavélaeftirlit námu 217-293 milljónum króna árin 2015-2017.

Meðalhraðaeftirlit tekið upp

Verið er að undirbúa nýjung varðandi hraðaeftirlit sem er fólgin í því að taka upp myndavélaeftirlit með meðalhraða. Eru þá tvær eftirlitsmyndavélar settar upp á ákveðnum vegarkafla og tími ökutækja mældur á milli vélanna. Með því er hægt að ná þeim sem freistast til að gefa í um leið og þeir aka framhjá myndavél og halda að þeir sleppi ef þeir hægja á sér við næstu myndavél. Hafi þeir verið grunsamlega fljótir á milli véla er nokkuð ljóst að þeir hafa farið yfir leyfileg hraðamörk. Slíkt meðalhraðaeftirlit hefur gefið góða raun í nágrannalöndum.

Meira aðhald

Annað atriði sem veitir okkur aðhald í umferðinni eru sektirnar sem við fáum ef við erum staðin að því að brjóta umferðarreglur. Ný reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum verður bráðlega gefin út. Lágmarkssektarupphæð verður þá 20 þúsund krónur en var áður 5 þúsund kr. Undantekning er þó sekt við því að hafa ekki ökuskírteini meðferðis, hún verður 10 þúsund krónur. Þá mun sekt fyrir að nota farsíma við stýrið án handfrjáls búnaðar hækka í 40 þúsund krónur. Sektir fyrir að brjóta umferðarlög eiga að koma við kaunin á okkur enda er það dauðans alvara að virða ekki þessar reglur.

Þessi breyting tekur gildi 1. maí og er ég sannfærður um að þetta þýðir að við hugsum okkur tvisvar um áður en við förum á svig við reglurnar. Ég er nokkuð viss um að yfirleitt gerum við okkur mjög vel grein fyrir því ef við brjótum umferðarreglur, hvort sem er að aka yfir leyfilegum hámarkshraða, nota símann við stýrið eða aka gegn rauðu ljósi. Við teljum bara að reglurnar eigi ekki við okkur.

Þrátt fyrir allar þessar aðgerðir er það fyrst og fremst við sjálf sem ráðum því hvaða árangri við náum í umferðaröryggi og slysavörnum. Lítum í eigin barm.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.