Categories
Fréttir

Áfram Ísland! Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs

Deila grein

07/05/2024

Áfram Ísland! Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnir áform um eflingu afreksíþróttastarfs - mynd
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnir áform um eflingu afreksíþróttastarfs

Skýrsla starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks var kynnt á blaðamannafundi í Laugardalshöll í dag. Hlutverk starfshópsins var að yfirfara og leggja til breytingar á fyrirkomulagi, löggjöf og öðru sem hópurinn taldi þurfa til að stuðningur við afreksíþróttafólk á Íslandi verði í fremstu röð. Hópurinn hefur skilað meðfylgjandi skýrslu þar sem staða og umgjörð afreksíþrótta á Íslandi er greind og settar fram tillögur að nýrri nálgun í afreksmálum og aðgerðum til nokkurra ára.

Vésteinn Hafsteinsson, fv. afreksíþróttamaður og -þjálfari, leiðir starfshópinn. Tillögur hópsins eru umfangsmiklar og lúta m.a. að aðgerðum sem tengjast stöðu íþróttafólks og réttindum, starfsemi íþróttafélaga og sérsambanda, umgjörð afreksíþrótta fyrir mismunandi aldurshópa og einnig að hlutverki ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Einn af lykilþáttum í tillögunum er stofnun Afreksmiðstöðvar Íslands (AMÍ) innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). AMÍ er ætlað mikilvægt hlutverk í faglegri umgjörð utan um afreksfólk og þjálfara þeirra.

Starfshópurinn telur að fyrirhugaðar breytingar muni ekki aðeins styrkja afreksíþróttastarf og stuðla að auknum árangri í framtíðinni heldur einnig hafa jákvæð áhrif á allt íþróttastarf á Íslandi. Í umfjöllun starfshópsins er horft til fyrirkomulags sem þekkist víða erlendis með góðum árangri sem sniðið er að íslenskum aðstæðum.

Tillögur starfshópsins eru byggðar á breiðri og þverfaglegri nálgun og telur starfshópurinn að þær breytingar sem lagðar eru til muni hafa umtalsvert forvarnargildi, efla almenna heilsu, farsæld og lýðheilsu á Íslandi til lengri tíma litið, og á sama tíma draga úr útgjöldum heilbrigðiskerfisins. Í þessu samhengi má einnig nefna önnur mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg áhrif sem sterkt íþróttalíf og uppbygging íþróttainnviða getur skapað t.d. með starfsemi á sviði íþróttatengdrar ferðaþjónustu o.fl.

Í vinnu starfshópsins hefur verið lögð rík áhersla á samráð og upplýsingaöflun meðal innlendra sem og erlendra hagaðila og álitsgjafa. Mat starfshópsins er að skapa þurfi breiða samstöðu og aðkomu aðila að verkefninu til framtíðar svo unnt verði að ná framúrskarandi árangri á alþjóðlegum vettvangi íþrótta.

Blaðamannafundur í Laugardalshöll

Fjölmargar tillögur eru settar fram í skýrslu hópsins en þær mikilvægustu að mati starfshópsins eru:

  • Afreksmiðstöð Íslands (AMÍ) verði stofnuð og skilgreint skýrt hlutverk innan ÍSÍ. Markmið AMÍ verður að afreksíþróttafólk nái betri árangri í íþróttum, auk þess að efla faglega umgjörð afreksstarfs á Íslandi og þannig auka þekkingu og nýsköpun á sviði afreksíþrótta.
  • Stofnaður verði launasjóður afreksíþróttafólks og þjálfara í íþróttum. Markmiðið er að skapa sambærilegt starfsumhverfi og þekkist í nágrannalöndunum og tryggja um leið vinnumarkaðstengd réttindi.
  • Komið verði til móts við kostnaðarþátttöku íþróttafólks í landsliðsverkefnum með auknum stuðningi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Markmiðið er að allir hafi jafnan möguleika á að taka þátt í landsliðsverkefnum í íþróttum.
  • Fagleg umgjörð afrekssviða í grunn- og framhaldsskólum verði efld og tengd við íþróttafélög og sveitarfélög. Markmiðið er að hlúa betur að efnilegu íþróttafólki og draga úr brotthvarfi ungmenna úr íþróttum.
  • Aðkoma atvinnulífsins að afreksíþróttum verði efld. Fleiri fyrirtæki verði virkir þátttakendur í uppbyggingu afreksíþrótta.
  • Að núverandi skipulag íþróttahreyfingarinnar á Íslandi verði skoðað. Markmiðið er að meta fyrirkomulagið og hvort nýta megi betur það fjármagn sem íþróttahreyfingin fær frá stjórnvöldum í dag.

Í framhaldinu mun mennta- og barnamálaráðherra skipa þverpólitískan stýrihóp sem ásamt ÍSÍ er ætlað að leggja fram áætlun til að útfæra og fjármagna aðgerðir. Gert er ráð fyrir að innleiðing hefjist af krafti 1. janúar 2025. Áætlað er að drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun liggi fyrir 15. ágúst og að hún verði lögð fram á Alþingi á haustdögum.

Að þessu tilefni hafði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra þetta að segja á facebook síðu sinni:

,,Áfram Ísland – Við ætlum að umbylta umhverfi afreksíþrótta!

Ég hef lagt ríka áherslu á aukinn stuðning við íþróttastarf í landinu. Það var þessvegna mjög ánægjulegt í gær þegar Vésteinn Hafsteinsson kynnti tillögur sem hann og fleiri hafa unnið að fyrir stjórnvöld og íþróttahreyfinguna um hvernig bæta megi stöðu og réttindi afreksíþróttafólks á Íslandi.

Tillögurnar eru metnaðarfullar og því mikið gleðiefni að sama dag var samþykkt í ríkisstjórn að taka þær föstum tökum og vinna að því markmiði að innleiðing og framkvæmd geti hafist strax í upphafi árs 2025. Ég er sannfærður um að þessar breytingar munu verða til þess fallnar að jafna stöðu íþróttafólksins okkar miðað við nágrannalönd og að þær verði í raun algjör umbylting á allri umgjörð og stuðningskerfi íþrótta á Íslandi.

Það er ljóst að við höfum staðið höllum fæti í samanburði við nágrannalönd þegar kemur að fjárfestingu í íþróttafólkinu okkar. Við þurfum stór skref til að breyta þessari staðreynd og þau skref höfum við og munum halda áfram að taka. Við erum t.d. búin að tryggja yfir 8 milljarða í byggingu nýrrar þjóðarhallar, fjárfestingu í nýju svæðaskipulagi íþróttahreyfingarinnar, hvatasjóði til að auka þáttöku barna í íþróttum o.fl. Nú þurfum við að taka þessar tillögur með sama hætti og tryggja að þær komist til framkvæmda!

Öflugt íþróttastarf er stórt forvarnarmál en íþróttafólkið okkar er líka mikið þjóðarstolt og það er skylda okkar sem samfélags að tryggja að umgjörðin sé sambærileg og í öðrum löndum.

🇮🇸 ÁFRAM ÍSLAND!”