Categories
Greinar

Jafnrétti tryggir konum og körlum meiri lífsgæði

Deila grein

19/06/2014

Jafnrétti tryggir konum og körlum meiri lífsgæði

Eygló HarðardóttirTil hamingju með kvenréttindadaginn, íslenskar konur og karlar. Þann 19. júní 1915 fengu konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til jafns við karla. Jafn kosningaréttur og kjörgengi kynja var einn mikilvægasti áfangi lýðræðisþróunar á Norðurlöndum því í þeim felast þau grundvallarmannréttindi að geta haft áhrif og þau endurspegla sýn okkar á réttlætis- og jafnréttismál.

Á næsta ári fögnum við 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna og mikilvægt er að nýta þessi tímamót til að horfa um öxl og ígrunda hvernig þær miklu breytingar sem orðið hafa á sviði jafnréttismála hafa átt sér stað. Í raun er ótrúlega stutt síðan að það þótti sjálfsagt að konur nytu ekki sömu grunnréttinda og karlar. Jafnréttismálin eru ein birtingarmynd þeirra miklu framfara sem við Íslendingar höfum upplifað á skömmum tíma, framfara sem við sem þjóð vinnum að í sameiningu en getum einnig þakkað því að einstaklingar og hópar hafi haft þann kjark sem þurfti til að berjast fyrir samfélagi jafnréttis og lýðræðis. Saga íslensku kvennahreyfingarinnar er dæmi um slíka sögu. Hún er saga um samtakamátt kvenna og á sama tíma saga einstaklinga sem á sínum tíma unnu ótrúleg þrekvirki.

Um leið og við þökkum þeim sem ruddu brautina skulum við hafa hugfast að rótgróin viðhorf breytast seint og að enn eigum við mikið verk að vinna hvað varðar jafnrétti kvenna og karla.

Meira jafnrétti

Við ætlum okkur meiri framfarir á sviði jafnréttismála. Ekki eingöngu vegna þess að jafnrétti er grundvöllur lýðræðis og mannréttinda heldur einnig vegna þess að við eigum að fjárfesta í mannauði karla og kvenna sem best við getum.

Í síðustu viku sótti ég sameiginlegan stórfund norrænna kvennahreyfinga, Nordiskt Forum. Mörg þúsund manns sóttu fundinn en þetta var í þriðja skipti sem boðað er til allsherjarfundar kvenna og jafnréttissinna á Norðurlöndunum. Markmið Nordiskt Forum var að þessu sinni að greina áskoranir og möguleika Norðurlandaþjóðanna til að hrinda markmiðum Peking-áætlunarinnar frá 1995 í framkvæmd þannig að hægt verði að tryggja raunverulegt jafnrétti, þróun og frið í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna. Fundurinn bar vott um mikla grósku í málaflokknum og var vettvangur samræðna og skoðanaskipta stjórnmálanna og frjálsra félagasamtaka sem er forsenda framfara í málaflokknum. Ánægjulegt var að sjá að mun fleiri karlar tóku virkan þátt en dæmi eru um frá fyrri fundum.

Í dag mælist kynjajafnrétti hvergi meira en á Norðurlöndunum en erfið verkefni bíða úrlausnar stjórnmálanna. Helst ber að nefna kynbundið náms- og starfsval, launamun kynja, kynbundið ofbeldi og nauðsyn þess að virkja betur karla og drengi til þátttöku á sviði jafnréttismála. Uppræta þarf staðlaðar kynjaímyndir sem hafa áhrif á náms- og starfsval kvenna og karla og styrkja nýjan hugsunarhátt um karla og karlmennsku.

Á Nordiskt Forum vakti ég máls á að breytingar á íslensku fæðingarorlofslöggjöfinni hafa haft margvísleg áhrif á stöðu jafnréttismála á Íslandi. Rannsóknir Guðnýjar Eydal og Ingólfs V. Gíslasonar sýna að karlar taka virkari þátt í heimilisstörfum og umönnun ungra barna. Þá hafa lögin breytt samkeppnisstöðu ungra foreldra á vinnumarkaði en síðast en ekki síst hafa þau haft áhrif á hugsunarhátt okkar um karlmennsku. Í dag þykir það flott og eðlilegt að karlar hugsi um ung börn, það þykir töff að vera góður pabbi.

Ný framkvæmdaáætlun

Ég mun á komandi löggjafarþingi leggja fram nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára. Í henni mun í fyrsta skipti vera sérstakur kafli um karla og jafnrétti en þannig vil ég bregðast við tillögum starfshóps um karla og jafnrétti sem lauk störfum árið 2013. Tillögur hópsins fjalla um leiðir til að auka þátttöku karla í umræðu um jafnréttismál og að stefnumótun taki í auknum mæli mið af breyttu hlutverki karla og feðra í samfélaginu. Dæmi um málaflokka sem tillögurnar taka til eru karlar og umönnunarstörf; karlar, menntun og kynskiptur vinnumarkaður; karlar sem gerendur og þolendur í ofbeldismálum og klám og vændiskaup. Mikilvægt er að hafa jafnréttismál að leiðarljósi við alla stefnumótun og bæði kynin þurfa að koma að mótun málaflokksins. Í þessu starfi eru fæðingarorlofsmálin okkur hvatning, þau kenna okkur að líta ekki á jafnréttismálin sem einangrað fyrirbæri enda gott dæmi um hvernig opinber stefnumótun sem tekur tillit til kynjajafnréttis getur aukið lífsgæði okkar allra í samfélaginu.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. júní 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Af mörgu er að taka

Deila grein

18/06/2014

Af mörgu er að taka

Elsa-Lara-mynd01-vefurNú er um eitt ár frá því ég settist inn á þing sem þingmaður Framsóknarflokksins. Þetta fyrsta ár mitt á þingi, hefur liðið hratt og verið einstaklega viðburða – og lærdómsríkt. Í starfinu hef ég fengið að kynnast mörgu sem ég hefði líklega ekki fengið að kynnast, hefði ég ekki gefið kost á mér til þessara starfa. Í starfinu er tekist á við hin ýmsu verkefni og marg oft þarf að hoppa út fyrir þægindarammann við vinnslu verkefna, það hefur gert mér gott.

Skuldamálin komumst í gegn

Verkefnin sem ég tókst á við í þinginu s.l. vetur var m.a. að tala fyrir aðgerðum er varða skuldavanda íslenskra heimila með verðtryggð húsnæðismál. Afar ánægjulegt var að sjá þetta helsta mál framsóknarmanna komast í gegnum þingið og sjá þann fjölda sem nú þegar hefur sótt um leiðréttingu sinna mála. Það er augljóst að aðgerðin virðist skipta fólk miklu máli miðað við fjölda umsókna og því ber að fagna. Aldrei mun ég samt skilja hvers vegna stór hluti þingmanna stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði gegn þessum aðgerðum.

Unnið er að úrbótum á leigumarkaði

Í vetur sat ég í Verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Þar var m.a. unnið að úrbótum á leigumarkaði og komið fram með tillögur þess efnis. Þar má m.a. nefna lækkun skatta á leigutekjur með það að markmiði að fjölga íbúðum á leigumarkaði. Vitað er til þess að talsverður hluti húsnæðis er í svartri leigu til ferðamanna. Ef við náum að auka framboð þá eru nokkrar líkur á að leiguverð lækki. Jafnframt eru hugmyndir uppi um að taka upp stofnstyrkjakerfi í stað niðurgreiðslu vaxta við uppbyggingu leigufélaga. Samkvæmt útreikningum ætti það að geta lækkað leiguverð um allt að 20 %. Nú þegar er hafin vinna við að koma þessum tillögum, sem og öðrum frá Verkefnisstjórninni, í vinnslu og vonir standa til að þær verði orðnar að frumvörpum eigi síðar en í lok október á þessu ári.

Hvað er framundan?

Af mörgu er að taka, en það eru mörg mikilvægt verkefni sem bíða. Nú vinn ég að málum sem lögð verða fram þegar þing kemur saman í haust. Eitt þeirra er skrifleg fyrirspurn sem ég lagði reyndar fram á lokadögum vorþingsins en náði ekki fram að ganga. Fyrirspurnin fjallar um skráningu viðskiptasögu einstaklinga hjá fjármálastofnunum. En margir höfðu samband síðasta vetur og sögðu að erfitt væri að fá upplýsingar hver staða þeirra væri gagnvart fjármálastofnunum, eftir að hafa klárað greiðsluaðlögunarsamninga.

Að mínu mati er afar þarft að endurskoða neysluviðmið og hver þau þurfa að vera að lágmarki.Vinna þarf að nýjum útreikningum og hafa þar inn í allan húsnæðiskostnað. Það  er staðreynt að stór hluti af tekjum okkar fer í að borga af húsnæði, sama hvort um eign eða leiguhúsnæði er um að ræða. Mikilvægt er að allir hluteigandi aðilar vinni saman að þessu verkefni.

Auk þessa eru fjölda mörg verkefni sem vinna þarf að. Nýta þarf sumarið vel, vinna þingmál og byggja brýr. Láta vita hver ég er og ég sé í starfinu til að vinna fyrir alla þá sem hér búa. Það er mitt markmið í sumar.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 17. júní 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

 

Categories
Fréttir

Góður árangur í sveitarstjórnarkosningunum

Deila grein

05/06/2014

Góður árangur í sveitarstjórnarkosningunum

logo-xb-14Framsóknarmenn geta verið mjög ánægðir með úrslit sveitarstjórnarkosninganna. Framsóknarfólki um land allt eru þökkuð mikil og árangursrík störf á liðnum vikum.
Niðurstaðan er mikil aukning í fylgi og fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum af B-listum eða þar sem framsóknarfólk var í samstarfi við aðra. Það voru alls 56 sveitarstjórnarmenn kjörnir af B-listum. Með flesta sveitarstjórnarmenn er Sveitarfélagið Skagafjörður, fimm fulltrúa, í 9 manna sveitarstjórn. Rangárþing eystra og Sveitarfélagið Ölfus eru með fjóra fulltrúa í sjö manna sveitarstjórn.
Sveitarfélög sem bættu við sig fulltrúum eru, Reykjavík, Borgarbyggð, Húnaþing vestra, Skagafjörður, Dalvíkurbyggð, Akureyri, Fjarðabyggð, Hveragerði og Sandgerði.
B-listar með yfir 30% fylgi:
Sveitarfélagið Ölfus – 54,79%
Mýrdalshreppur – 53,72%
Rangárþing eystra – 46,41%
Skagafjörður – 45,42%
Dalvíkurbyggð – 44,90%
Húnaþing vestra – 40,84
Vopnafjörður – 38,7
Hornafjörður – 37,81
Seyðisfjörður – 32,55
Úrslit kosninganna á höfuðborgarsvæðinu:
Reykjavík
Seltjarnarnes
Kópavogur
Garðabær
Hafnarfjörður
Mosfellsbær
Úrslit kosninganna í Norðvesturkjördæmi:
Akranes
Borgarbyggð
Ísafjarðarbær
Húnaþing vestra
Sveitarfélagið Skagafjörður
Úrslit kosninganna í Norðausturkjördæmi:
Fjallabyggð
Dalvíkurbyggð
Akureyri
Norðurþing
Vopnafjarðarhreppur
Seyðisfjörður
Fjarðabyggð
Fljótsdalshérað

Úrslit kosninganna í Suðurkjördæmi:
Hornafjörður
Mýrdalshreppur
Rangárþing eystra
Árborg
Hveragerði
Sveitarfélagið Ölfus
Grindavík
Sandgerði
Reykjanesbær

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.