Categories
Greinar

Jafnrétti tryggir konum og körlum meiri lífsgæði

Deila grein

19/06/2014

Jafnrétti tryggir konum og körlum meiri lífsgæði

Eygló HarðardóttirTil hamingju með kvenréttindadaginn, íslenskar konur og karlar. Þann 19. júní 1915 fengu konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til jafns við karla. Jafn kosningaréttur og kjörgengi kynja var einn mikilvægasti áfangi lýðræðisþróunar á Norðurlöndum því í þeim felast þau grundvallarmannréttindi að geta haft áhrif og þau endurspegla sýn okkar á réttlætis- og jafnréttismál.

Á næsta ári fögnum við 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna og mikilvægt er að nýta þessi tímamót til að horfa um öxl og ígrunda hvernig þær miklu breytingar sem orðið hafa á sviði jafnréttismála hafa átt sér stað. Í raun er ótrúlega stutt síðan að það þótti sjálfsagt að konur nytu ekki sömu grunnréttinda og karlar. Jafnréttismálin eru ein birtingarmynd þeirra miklu framfara sem við Íslendingar höfum upplifað á skömmum tíma, framfara sem við sem þjóð vinnum að í sameiningu en getum einnig þakkað því að einstaklingar og hópar hafi haft þann kjark sem þurfti til að berjast fyrir samfélagi jafnréttis og lýðræðis. Saga íslensku kvennahreyfingarinnar er dæmi um slíka sögu. Hún er saga um samtakamátt kvenna og á sama tíma saga einstaklinga sem á sínum tíma unnu ótrúleg þrekvirki.

Um leið og við þökkum þeim sem ruddu brautina skulum við hafa hugfast að rótgróin viðhorf breytast seint og að enn eigum við mikið verk að vinna hvað varðar jafnrétti kvenna og karla.

Meira jafnrétti

Við ætlum okkur meiri framfarir á sviði jafnréttismála. Ekki eingöngu vegna þess að jafnrétti er grundvöllur lýðræðis og mannréttinda heldur einnig vegna þess að við eigum að fjárfesta í mannauði karla og kvenna sem best við getum.

Í síðustu viku sótti ég sameiginlegan stórfund norrænna kvennahreyfinga, Nordiskt Forum. Mörg þúsund manns sóttu fundinn en þetta var í þriðja skipti sem boðað er til allsherjarfundar kvenna og jafnréttissinna á Norðurlöndunum. Markmið Nordiskt Forum var að þessu sinni að greina áskoranir og möguleika Norðurlandaþjóðanna til að hrinda markmiðum Peking-áætlunarinnar frá 1995 í framkvæmd þannig að hægt verði að tryggja raunverulegt jafnrétti, þróun og frið í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna. Fundurinn bar vott um mikla grósku í málaflokknum og var vettvangur samræðna og skoðanaskipta stjórnmálanna og frjálsra félagasamtaka sem er forsenda framfara í málaflokknum. Ánægjulegt var að sjá að mun fleiri karlar tóku virkan þátt en dæmi eru um frá fyrri fundum.

Í dag mælist kynjajafnrétti hvergi meira en á Norðurlöndunum en erfið verkefni bíða úrlausnar stjórnmálanna. Helst ber að nefna kynbundið náms- og starfsval, launamun kynja, kynbundið ofbeldi og nauðsyn þess að virkja betur karla og drengi til þátttöku á sviði jafnréttismála. Uppræta þarf staðlaðar kynjaímyndir sem hafa áhrif á náms- og starfsval kvenna og karla og styrkja nýjan hugsunarhátt um karla og karlmennsku.

Á Nordiskt Forum vakti ég máls á að breytingar á íslensku fæðingarorlofslöggjöfinni hafa haft margvísleg áhrif á stöðu jafnréttismála á Íslandi. Rannsóknir Guðnýjar Eydal og Ingólfs V. Gíslasonar sýna að karlar taka virkari þátt í heimilisstörfum og umönnun ungra barna. Þá hafa lögin breytt samkeppnisstöðu ungra foreldra á vinnumarkaði en síðast en ekki síst hafa þau haft áhrif á hugsunarhátt okkar um karlmennsku. Í dag þykir það flott og eðlilegt að karlar hugsi um ung börn, það þykir töff að vera góður pabbi.

Ný framkvæmdaáætlun

Ég mun á komandi löggjafarþingi leggja fram nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára. Í henni mun í fyrsta skipti vera sérstakur kafli um karla og jafnrétti en þannig vil ég bregðast við tillögum starfshóps um karla og jafnrétti sem lauk störfum árið 2013. Tillögur hópsins fjalla um leiðir til að auka þátttöku karla í umræðu um jafnréttismál og að stefnumótun taki í auknum mæli mið af breyttu hlutverki karla og feðra í samfélaginu. Dæmi um málaflokka sem tillögurnar taka til eru karlar og umönnunarstörf; karlar, menntun og kynskiptur vinnumarkaður; karlar sem gerendur og þolendur í ofbeldismálum og klám og vændiskaup. Mikilvægt er að hafa jafnréttismál að leiðarljósi við alla stefnumótun og bæði kynin þurfa að koma að mótun málaflokksins. Í þessu starfi eru fæðingarorlofsmálin okkur hvatning, þau kenna okkur að líta ekki á jafnréttismálin sem einangrað fyrirbæri enda gott dæmi um hvernig opinber stefnumótun sem tekur tillit til kynjajafnréttis getur aukið lífsgæði okkar allra í samfélaginu.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. júní 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.