Categories
Greinar

Af mörgu er að taka

Deila grein

18/06/2014

Af mörgu er að taka

Elsa-Lara-mynd01-vefurNú er um eitt ár frá því ég settist inn á þing sem þingmaður Framsóknarflokksins. Þetta fyrsta ár mitt á þingi, hefur liðið hratt og verið einstaklega viðburða – og lærdómsríkt. Í starfinu hef ég fengið að kynnast mörgu sem ég hefði líklega ekki fengið að kynnast, hefði ég ekki gefið kost á mér til þessara starfa. Í starfinu er tekist á við hin ýmsu verkefni og marg oft þarf að hoppa út fyrir þægindarammann við vinnslu verkefna, það hefur gert mér gott.

Skuldamálin komumst í gegn

Verkefnin sem ég tókst á við í þinginu s.l. vetur var m.a. að tala fyrir aðgerðum er varða skuldavanda íslenskra heimila með verðtryggð húsnæðismál. Afar ánægjulegt var að sjá þetta helsta mál framsóknarmanna komast í gegnum þingið og sjá þann fjölda sem nú þegar hefur sótt um leiðréttingu sinna mála. Það er augljóst að aðgerðin virðist skipta fólk miklu máli miðað við fjölda umsókna og því ber að fagna. Aldrei mun ég samt skilja hvers vegna stór hluti þingmanna stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði gegn þessum aðgerðum.

Unnið er að úrbótum á leigumarkaði

Í vetur sat ég í Verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Þar var m.a. unnið að úrbótum á leigumarkaði og komið fram með tillögur þess efnis. Þar má m.a. nefna lækkun skatta á leigutekjur með það að markmiði að fjölga íbúðum á leigumarkaði. Vitað er til þess að talsverður hluti húsnæðis er í svartri leigu til ferðamanna. Ef við náum að auka framboð þá eru nokkrar líkur á að leiguverð lækki. Jafnframt eru hugmyndir uppi um að taka upp stofnstyrkjakerfi í stað niðurgreiðslu vaxta við uppbyggingu leigufélaga. Samkvæmt útreikningum ætti það að geta lækkað leiguverð um allt að 20 %. Nú þegar er hafin vinna við að koma þessum tillögum, sem og öðrum frá Verkefnisstjórninni, í vinnslu og vonir standa til að þær verði orðnar að frumvörpum eigi síðar en í lok október á þessu ári.

Hvað er framundan?

Af mörgu er að taka, en það eru mörg mikilvægt verkefni sem bíða. Nú vinn ég að málum sem lögð verða fram þegar þing kemur saman í haust. Eitt þeirra er skrifleg fyrirspurn sem ég lagði reyndar fram á lokadögum vorþingsins en náði ekki fram að ganga. Fyrirspurnin fjallar um skráningu viðskiptasögu einstaklinga hjá fjármálastofnunum. En margir höfðu samband síðasta vetur og sögðu að erfitt væri að fá upplýsingar hver staða þeirra væri gagnvart fjármálastofnunum, eftir að hafa klárað greiðsluaðlögunarsamninga.

Að mínu mati er afar þarft að endurskoða neysluviðmið og hver þau þurfa að vera að lágmarki.Vinna þarf að nýjum útreikningum og hafa þar inn í allan húsnæðiskostnað. Það  er staðreynt að stór hluti af tekjum okkar fer í að borga af húsnæði, sama hvort um eign eða leiguhúsnæði er um að ræða. Mikilvægt er að allir hluteigandi aðilar vinni saman að þessu verkefni.

Auk þessa eru fjölda mörg verkefni sem vinna þarf að. Nýta þarf sumarið vel, vinna þingmál og byggja brýr. Láta vita hver ég er og ég sé í starfinu til að vinna fyrir alla þá sem hér búa. Það er mitt markmið í sumar.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 17. júní 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.