Categories
Fréttir

Húsnæðisstuðningur barna 15-17 ára skilar sér ekki

Deila grein

28/02/2017

Húsnæðisstuðningur barna 15-17 ára skilar sér ekki

„Hæstv. forseti. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn ákveðið að setja á fót aðgerðahóp sem gera á tillögur um samræmdar aðgerðir á sviði húsnæðismála og er það vel. Eins og mörgum er kunnugt fór síðasta ríkisstjórn, undir forystu Framsóknarflokksins, í umfangsmiklar aðgerðir í húsnæðismálum og í þeirri vinnu var m.a. mikið rætt um sérstakar húsnæðisbætur og húsnæðisbætur til námsmanna á aldrinum 15–17 ára sem búa á heimavist eða á viðurkenndum námsgörðum. Í framhaldi af þeirri vinnu var þverpólitísk sátt héðan frá hv. Alþingi um það, meðal allra nefndarmanna í hv. velferðarnefnd, að frá og með síðustu áramótum væri öllum sveitarfélögum skylt að veita þennan stuðning.
Leiðbeinandi reglur voru settar um þennan stuðning en þær eru eftirfarandi: Að sveitarfélög skuli veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur og að sveitarfélög skuli veita foreldrum eða forsjáraðilum 15–17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum, vegna náms fjarri lögheimili, húsnæðisstuðning. Sá stuðningur skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjármanna og ekki yfir 75% af húsnæðiskostnaði vegna leigunnar. Auk þessa þarf að meta þunga framfærslubyrði einstaklinga sem sækja um sérstakan húsnæðisstuðning og líta til félagslegra aðstæðna. Markmið þessara laga, um almennan húsnæðisstuðning, og þessara reglna, sem ég vitna hér í, voru að enginn kæmi verr út úr nýja kerfinu en því gamla.
Hins vegar er það svo að við, mörg hver, hv. þingmenn, höfum fengið upplýsingar um að fjöldi einstaklinga fær ekki þennan sérstaka húsnæðisstuðning. Ég hef nú þegar kallað eftir fundi í hv. velferðarnefnd Alþingis til að ræða þessi mál og óskað eftir því að aðilar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar og velferðarráðuneytis mæti á fund nefndarinnar.
Ég skora jafnframt á hæstv. félagsmálaráðherra að beita sér fyrir þessum málum í þeim aðgerðum sem unnið er að í húsnæðismálum þessa dagana. Það er einstaklega mikilvægt að kanna hvort eina leiðin til að þessi sérstaki húsnæðisstuðningur virki eins og hann á að gera sé jafnvel að lögfesta hann. Til þessa verkefnis voru 800 milljónir skildar eftir hjá sveitarfélögunum svo að þau gætu sinnt því.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 28. febrúar 2017.

Categories
Greinar

Dauðafæri: framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar

Deila grein

27/02/2017

Dauðafæri: framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar

Ég vil fjármálakerfi sem er hagkvæmt og traust og þjónar landsmönnum öllum, jafnt heimilum og atvinnulífi. Fjármálakerfi sem er stöðugt og getur tryggt nauðsynlega innviði öllum stundum. Aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði eru einstakar til mótunar framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar, þar sem eignarhald Ríkissjóðs Íslands á fjármálafyrirtækjum er með því umfangsmesta meðal ríkja í Evrópu. Ekki aðeins getur ríkisvaldið sett lagaumgjörð um bankana og þannig haft áhrif á framtíðarskipan fjármálakerfisins heldur getur það náð fram breytingum sem eigandi þeirra. Endurskipulagning bankakerfisins eftir fjármálaáfallið hefur tekist vel, bankarnir eru traustir og gæði eigna hafa aukist umtalsvert síðustu ár.

Engin framtíðarsýn í drögum að eigendastefnu
Hinn 10. febrúar sl. birti fjármála- og efnahagsráðherra uppfærð drög að eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki. Engin framtíðarsýn er sett þar fram fyrir utan það að selja skuli eignarhluti í bönkunum. Ríkissjóður stefnir að því að eiga 34-40% eignarhlut í Landsbankanum hf. til langframa í því skyni að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfi landsins og tryggja nauðsynlega innviði þess. Að öðru leyti er nefnt að 60-66% eignarhlutur í bankanum verði seldur á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi og jafnframt verði stefnt að skráningu á hlutabréfamarkaði. Ríkissjóður stefnir að því að selja allan eignarhlut sinn í Íslandsbanka og Arion banka þegar aðstæður leyfa.

Fjármálakerfið þjónusti heimili og fyrirtæki
Áður en lengra er haldið og tilkynnt er um umfangsmikla eignasölu á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum þarf að ákveða hvernig fjármálakerfi hentar okkur best. Markmiðið hlýtur að vera að bankakerfið þjóni heimilum og atvinnulífi á hagkvæman hátt og að fjármálakerfið sé traust. Í þeirri vinnu þarf meðal annars að horfa til eftirtalinna sjónarmiða.
Heildarstærð bankakerfisins. Skoða þarf umfang bankakerfisins, meta hvort núverandi stærð þess sé æskileg og hvort hægt væri að ná fram frekari stærðarhagkvæmi í kerfinu. Ný eigendastefna skilar hér auðu.
Eignarhlutur og þátttaka á fjármálamarkaði. Meta þarf hversu stór eignarhlutur ríkissjóðs á að vera til skemmri og lengri tíma litið ásamt því að skoða hversu stór þátttakandi ríkissjóður á að vera á fjármálamarkaði. Í ljósi sögunnar er rétt að ríkissjóður sé leiðandi fjárfestir í a.m.k. einum banka.
Endurskipulagning fjármálakerfisins. Skoða þarf hvort hagkvæmt sé að sameina ákveðnar einingar eða skipta þeim upp. Í þessu gætu falist möguleikar til hagræðingar og lækkunar kostnaðarhlutfalla.
Aðskilnaður viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi. Greina þarf leiðir til að draga úr áhættu fjármálakerfisins gagnvart ríkissjóði og kanna meðal annars hvort aðskilnaður á viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi komi til með að vera heppilegt fyrirkomulag í því sambandi. Þennan þátt þarf sérstaklega að skoða með hliðsjón af því hver þróunin er hjá öðrum ríkjum.
Dreift eignarhald eða leiðandi fjárfestar. Skoða þarf gaumgæfilega hvaða form af eignarhaldi hentar best hagsmunum hagkerfisins og líta til þess hversu burðug eftirspurnarhliðin er í þeim efnum. Einnig ber að líta á fýsileika erlends eignarhalds, hvað sé farsælt til lengri tíma litið og skoða Norðurlandaríkin sérstaklega.
Erlend lánsfjármögnun. Með hækkandi lánshæfismati samhliða trúverðugri endurreisn hagkerfisins hefur fjármögnunarkostnaður bankakerfisins lækkað verulega. Hann er hins vegar ennþá í hærri kantinum. Greina þarf hvernig bankakerfi geti miðlað erlendri lánsfjármögnun í samkeppni við erlenda banka og hvernig samkeppnishæfni þeirra gæti aukist með skynsamlegu rekstrarfyrirkomulagi.
Alþjóðlegur samanburður. Afar brýnt er að líta til alþjóðlegrar þróunar og taka mið af því sem hefur reynst öðrum þjóðum vel.

Tillaga til stjórnvalda
Ég legg til að settur verði á laggirnar hópur sérfræðinga sem gerir drög að vegvísi fyrir framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar þar sem ofangreindir þættir verði skoðaðir. Markmiðið verði að móta tillögu að skipulagi á fjármálamarkaði sem komi til með að þjónusta íslensk heimili og fyrirtæki á ábyrgan og farsælan hátt. Sérstaklega skal litið til annarra lítilla opinna hagkerfi og reynslunnar á Norðurlöndum. Einnig kann að vera skynsamlegt að ríkissjóður skilgreini fyrirfram hvaða skilyrði þurfi að vera til staðar á fjármálamarkaði áður en kemur til söluferlis í þeim tilgangi að auka fyrirsjáanleika og trúverðugleika á markaðnum.
Það er einstakt tækifæri og dauðafæri til að útfæra farsæla stefnu er varðar íslenskan fjármálamarkað og því er brýnt að nýta þetta tækifæri vel og vanda til verks.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar 2017. 

Categories
Greinar

Jöfnum stöðu foreldra

Deila grein

25/02/2017

Jöfnum stöðu foreldra

Öllum börnum er það mikilvægt að eiga góð samskipti við báða foreldra sína. Lagaþróunin síðustu áratugina hefur verið á þá leið að jafna stöðu foreldra  svo að foreldrar geti tekið jafna ábyrgð á umönnun og velferð barna sinna, má þar m.a. nefna breytingar á barnalögum frá árinu 1992 og ný lög um húsnæðisbætur.
Á síðustu árum hefur mikill meirihluti foreldra sem hafa skilið eða slitið samvistum, eða 85  – 95 % samið um sameiginlega forsjá. Er þá oft um að ræða að barn sé viku hjá föður og viku hjá móður.

Þrátt fyrir þessa staðreynd í okkar ágæta samfélagi og þau spor sem stigin hafa verið, þá er regluverk ríkisins enn talsvert brotakennt þegar kemur að þessum þáttum. Það getur haft áhrif víðar út í samfélagið, t.d. til sveitarfélaga sem reka þjónustu og haga störfum sínum eftir því regluverki sem að þeim er sett.

Þann 12. maí 2014 var samþykkt þingsályktunartillaga um að fela innanríkisráðherra og félags – og húsnæðismálaráðherra að skipa starfshóp sem kanni með hvaða leiðum megi jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna. Þann 24. september 2015 skilaði starfshópurinn niðurstöðum sínum. Niðurstöðurnar voru að gerðar verði breytingar á barnalögum til að jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna og ákveða að ala upp barn saman á tveimur heimilum. Þar komi inn nýtt ákvæði sem heimili skipta búsetu barns á grundvelli staðfests samkomulags foreldra, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Auk þessa eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum varðandi opinberan stuðning, breytingar á lögum um lögheimili og breytingar á barnalögum. Ásamt því er lagt  til að sveitarfélög landsins lagi þjónustu sína að breyttum þjóðfélagsháttum og taki þannig virkt tillit til jafnrar ábyrgðar og skyldna foreldra á uppeldi og umönnun barna í málum sem þau varða og falla undir valdsvið sveitarfélaga.

Nú er komið um eitt og hálft ár síðan starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum. Einu breytingarnar sem komið hafa fram er að með nýjum lögum um húsnæðisbætur telst barn til heimilis hjá báðum foreldrum sínum og eru það afar jákvæð skref. En enn er beðið eftir öðrum aðgerðum sem starfshópurinn lagði til. Þess vegna lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi á dögunum til dómsmálaráðherra. Þar spurði ég eftirfarandi spurninga: er unnið að lagabreytingum á grunni skýrslu innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum sem lögð var fram á Alþingi í september 2015? Ef svo er, hvenær verða frumvörp um málið lögð fram? Ef ekki, hvenær ætlar ráðherra að hefja þá vinnu? Ég hef fulla trú á að ráðherra svari fyrirspurn minni fljótt, þar sem þetta mál er eitt af áherslumálum núverandi ríkisstjórnar.

En í stjórnarsáttmálanum segir m.a. að samfélagið eigi að styðja við ólíkar fjölskyldugerðir og hvetja til þess að foreldrar sem ekki búa saman ali upp börn sín í sátt. Þar kemur jafnframt fram að réttur barna skuli tryggður til að vera skráð í skiptri búsetu á tveimur lögheimilum og aðstaða umgengnisforeldra og lögheimilisforeldra jöfnuð.

Hér er linkur á fyrirspurnina sem lögð var fram: https://www.althingi.is/altext/146/s/0254.html

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 24. febrúar 2017.

Categories
Fréttir

Margréti finnst það ræfildómur

Deila grein

24/02/2017

Margréti finnst það ræfildómur

,,Hæstv. forseti. Að lesa og skrifa hefur aldrei verið talið til menntunar á Íslandi, segir í Brekkukotsannál. Þar vísar skáldið bæði með kímni en einnig alvöru til þess að Íslendingar hafa frá fornu fari verið menntaþjóð á sinn hátt, sagði ágætur maður. Það má til sanns vegar færa að menntun liggur nærri kjarna þjóðarinnar og skipar æ mikilvægari sess í þjóðfélaginu. Á góðum dögum tölum við um að fjárfesting í menntun og rannsóknum skili sér margfalt til þjóðarinnar í formi nýsköpunar og framfara á sviðum atvinnulífsins. Jafnvel erum við svo brött að halda því fram að áframhaldandi fjárfestingaruppbygging í menntakerfinu jafngildi fjárfestingu í framtíðinni.
Hæstv. forseti. Þetta tel ég reyndar að sé skoðun okkar flestra. Menntunarstig íslensku þjóðarinnar er hátt. Við erum stolt af því, en við viljum gera betur. Það skýtur óneitanlega skökku við þegar menn ákveða að hunsa ráðleggingar virtra fræðimanna sem styðja mál sitt með margra áratuga reynslu og rannsóknum sem byggja á vísindalegum aðferðum. Nú er ég að vísa til orða dr. Margrétar Guðnadóttur í Morgunblaði gærdagsins. Þar talar fræðimaður með mikla reynslu af rannsóknum á veirusjúkdómum í búfé og mönnum. Hún varar alvarlega við innflutningi á kjöti og lifandi skepnum, gripum. Vill með því vernda heilsu búfjárstofna og landsmanna.
Hæstv. forseti. Sérstaða okkar felst í einangrun og hreinleika bústofna. Hér er sjúkdómastaða allt önnur en á meginlandi Evrópu og Bretlands. Íslenskir bændur voru framsýnir þegar þeir hættu að gefa sýklalyf í fóðri því að nú glíma menn víða um lönd við afleiðingar þess sem er m.a. vaxandi sýklalyfjaofnæmi. Ég tek undir orð dr. Margrétar sem finnst það ræfildómur að reyna ekki að halda landinu áfram hreinu. Sýnum nú að við erum menntaþjóð sem byggir ákvarðanir sínar á fræðilegum grunni.
Hæstv. forseti. Ég vona að við berum gæfu til að láta ekki gróðasjónarmið ráða för í þessum efnum. Verum snjallari en það.”
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 24. febrúar 2017.

Categories
Fréttir

Sakna stefnumótandi mála frá ríkisstjórninni

Deila grein

24/02/2017

Sakna stefnumótandi mála frá ríkisstjórninni

,,Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða dagskrána þessa vikuna. Það hefur vakið athygli mína á jákvæðan hátt að á dagskrá hvers þingfundar eru sérstakar umræður. Það er vel, virðulegur forseti, vegna þess að það er tækifæri til að dýpka umfjöllun um mörg mikilvæg málefni sem dagskráin þessa vikuna hefur sannarlega borið vitni um. Á hinn bóginn sakna ég þess verulega að á dagskrá séu stefnumótandi mál frá hæstv. ríkisstjórn. Það er kannski hin hliðin sem er reyndin, eins og margir hafa bent á, að stjórnarsáttmáli hæstv. ríkisstjórnar er býsna opinn þegar kemur að stefnumarkmiðum og fyrirætlunum. Í stjórnarsáttmálanum er til að mynda talað um að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Ríkisstjórn sem setur heilbrigðiskerfið í forgang mætti vera mun nákvæmari í sáttmála þegar kemur að þeim þætti. Fjölmargar rannsóknir staðfesta að skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf dregur mjög úr líkum á hvers konar frávikshegðun og ungmenni sem ekki taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi eru mun líklegri t.d. til að nota vímuefni en þau sem eru virkir þátttakendur í slíku starfi. Ég mun örugglega ekki ítreka það nægilega oft að við eigum að beina sjónum okkar að þessum þætti í auknum mæli í forvarnaskyni og beinar aðgerðir og stuðningur stjórnvalda á þessu sviði stuðla að heilsuábata inn í framtíðina og minna álagi á heilbrigðiskerfið og dregur úr tíðni alvarlegra lífsstílssjúkdóma.
Ég ætla hins vegar að enda á jákvæðum nótum, virðulegi forseti, og hrósa hæstv. ríkisstjórn og sér í lagi hæstv. ráðherra ferðamála fyrir stofnun skrifstofu í ráðuneytinu með sérstakri áherslu á þá ört vaxandi atvinnugrein sem ferðaþjónustan er.”
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 24. febrúar 2017. 

Categories
Fréttir

Leiðréttingin sannarlega verið vel heppnuð og farsæl aðgerð

Deila grein

23/02/2017

Leiðréttingin sannarlega verið vel heppnuð og farsæl aðgerð

,,Hæstv. forseti. Í gær fóru hér fram mjög áhugaverðar sérstakar umræður um skýrslur, aflandseignir og skuldaleiðréttingu. Á síðasta kjörtímabili ræddu mjög margir hv. þingmenn gjarnan undir þessum lið, störf þingsins, um að dagskrárliðnum sérstakar umræður mætti gefa meiri gaum í dagskrá þar sem verið væri að kryfja tiltekin mál til mergjar.
Oft beindu ræðumenn orðum sínum til virðulegs forseta um að ræðutíminn væri helst til knappur og vildu fá lengri ræðutíma, eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir kom inn á í umræðu um þetta mál undir liðnum störf þingsins.
Ég fékk tækifæri í gær til að taka þátt í umræðu um skýrsluskil um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og hefði gjarnan viljað taka þátt í umræðunni um skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána. Það kom mér verulega á óvart að engir fulltrúar tveggja stjórnarflokka, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, sáu sér fært að taka þátt í umræðunni um þessa aðgerð síðustu hæstv. ríkisstjórnar.
En ég ætla að nota tækifærið hér og taka undir með þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni í gær og töluðu fyrir þessari framkvæmd og útlistuðu hversu vel hún heppnaðist og hvers vegna. Aðgerðin var nauðsynleg framkvæmd og útfærsla hennar var vel ígrunduð, úthugsuð og vönduð. Mér fannst umræðan draga það fram. Slík framkvæmd er auðvitað vandasöm og aldrei hægt að draga þannig línu í sandinn að hún verði gallalaus. En það er ekki hægt að deila um þá staðreynd að skuldir heimila hafa lækkað og staða þessarar mikilvægu efnahagseiningar hefur batnað verulega. Ef við metum árangur af þessari aðgerð út frá settum markmiðum er ekki hægt að segja annað en að hún hafi sannarlega verið vel heppnuð og farsæl aðgerð.”
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 22. febrúar 2017.

Categories
Fréttir

Styrkja þarf ferðaþjónustuna og laga samgöngur

Deila grein

23/02/2017

Styrkja þarf ferðaþjónustuna og laga samgöngur

,,Hæstv. forseti. Nú er kjördæmaviku lokið og við þingmenn margs fróðari um hin ýmsu verkefni í byggðum landsins. Eftir ferð mína um Norðausturkjördæmi er mér efst í huga hve rík við erum af mögnuðu fólki sem er drifkrafturinn í hinum ýmsu samfélögum. Í dag langar mig til að vekja athygli á verkefninu Brothættar byggðir sem nú er í gangi á sjö svæðum. Þau heita: Raufarhöfn og framtíðin, Breiðdælingar móta framtíðina, Skaptárhreppur til framtíðar, Bíldudalur: Samtal um framtíðina, Hrísey: Perla Eyjafjarðar, Glæðum Grímsey, Öxarfjörður í sókn.
Ég var svo heppin að fá að sitja íbúafund á Raufarhöfn í liðinni viku. Sá fundur var liður í verkefninu sem leitt er af Byggðastofnun og sett var af stað á Raufarhöfn í samvinnu við íbúa. Frá upphafi var ætlunin að þar yrði til aðferð og verklag sem hægt væri að nota á fleiri stöðum sem stæðu líka frammi fyrir þeim vanda sem felst í fólksfækkun og erfiðleikum í atvinnulífi.
Markmið sem íbúar Raufarhafnar settu á oddinn voru aukinn kvóti til að styrkja grunninn, aukið íbúðahúsnæði, áframhaldandi vinna við heimskautsgerðið, internet, tryggur hótelrekstur og fleiri góð verkefni. Skemmst er frá því að segja að öll þessi verkefni eru í farvatni og jafnvel langt komin. Íbúum hefur fjölgað undanfarin tvö ár.
En til að komast á næsta stig þarf að styrkja ferðaþjónustuna og laga samgöngur. Þar á ríkisvaldið að koma inn í. Ég hlakka til að heyra hvernig ríkisstjórnin ætlar að fylgja þessu verkefni eftir sem fest hefur verið í sessi með samningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Hvernig ætla menn að fóðra það að ekki virðist eiga að standa að fullu við loforð um framkvæmdir við Dettifossveg? Hann er svæðinu öllu mikilvægur. Hægri höndin verður að vita hvað sú vinstri gerir.
Ég vil óska Raufarhafnarbúum og öðrum í verkefninu alls hins besta. Heimsþorpið Raufarhöfn á sannarlega framtíðina fyrir sér.”
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 22. febrúar 2017.

Categories
Greinar

Við getum og eigum að gera betur

Deila grein

21/02/2017

Við getum og eigum að gera betur

Undanfarin ár hefur það verið skýr og sanngjörn krafa landsmanna að allir hafi góðan og greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Krafan er að allir hafi aðgang, óháð stöðu, búsetu eða efnahag. Krafan er mjög skiljanleg. Því þrátt fyrir að á síðasta kjörtímabili hafi verið gefið verulega í til málaflokksins, þá þarf meira til. Enn betur þarf að laga starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna, aðstöðu sjúklinga og síðast en ekki síst þarf stefnumótun í heilbrigðismálum. Í því samhengi þarf að líta til þjóðarsjúkrahúss okkar, LSH og einnig til þeirra öflugu heilbrigðisstofnana sem eru víða um landið.

Forgangsmál Framsóknarmanna á þessum þingvetri er þingsályktunartillaga um heilbrigðisáætlun. Markmið tillögunnar er að heilbrigðisráðherra vinni heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Þessa áætlun skal vinna í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Hjá því liggur þekkingin, það er fólkið sem þekkir til aðstæðna, sóknarfæra og þess sem betur má fara í kerfinu. Okkur Framsóknarmönnum finnst mikilvægt að fagfólkið komi víða af landinu, því aðstæður geta verið mismunandi eftir því hvort um er að ræða heilsugæslu á landsbyggðinni eða Landspítalann.

Við gerð heilbrigðisáætlunar skal taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Það er nauðsynlegt að okkar mati, því undanfarin ár hafa heilbrigðisstofnanir víða um landið verið sameinaðar. Þær sinna nú margar heilu landsfjórðungunum og oft er um erfiðan veg um að fara milli starfsstöðva stofnananna. Samkvæmt tillögunni skal einnig taka tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo að eitthvað sé nefnt. Auk þess skal jafnframt líta til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala.

Við, þingmenn Framsóknarflokksins vonum að samstaða náist um þessi mikilvægu mál. Við þurfum að svara: hver er framtíðarsýn fagfólks og stjórnmálamanna um heilbrigðismál? Hvert ætlum við að stefna? Viljum við efla heilbrigðisstofnanir víða um landið eða á að bjarga málunum með auknum einkarekstri? Hvað vilja landsmenn? Hér er um að ræða stórar spurningar en taka þarf ákvörðun. Það er löngu tímabært.

Elsa Lára Arnardóttir og Þórunn Egilsdóttir. 

Greinin birtist á Visir.is 21. febrúar 2017. 

Categories
Fréttir

Nýr formaður SUF Sandra Rán Ásgrímsdóttir

Deila grein

20/02/2017

Nýr formaður SUF Sandra Rán Ásgrímsdóttir

42. Sambandsþing Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) var haldið 17.-18. febrúar í Kópavogi og gekk þingið fram úr björtustu vonum. Ný stjórn var kjörin ásamt nýjum formanni. Nýr formaður SUF Sandra Rán Ásgrímsdóttir er 26 ára sjálfbærniverkfræðingur. Sandra Rán er fimmta konan til að gegna embætti formanns SUF í 79 ára sögu sambandsins.
Sandra Rán útskrifaðist með B.Sc. gráðu í umhverfis- og byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands 2013 og meistaragráðu í sjálfbærniverkfræði frá háskólanum í Cambridge 2015. Hún starfar í dag sem verkfræðingur. Sandra er fædd og uppalin á Höfn í Hornafirði en hefur búið í Reykjavík og erlendis frá 2010. Hún hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum innan SUF síðustu ár, verið ritari, gjaldkeri og formaður alþjóðanefndar. Hún hefur sótt viðburði erlendis fyrir sambandið og er varaformaður Ungliðahreyfingar norrænna miðjuflokka (NCF). Þá á hún sæti í miðstjórn og hefur verið á framboðslista flokksins í Suðurkjördæmi í síðustu tvennum þingkosningum.
Aðrir sem voru kosnir í aðastjórn SUF á nýliðnu þingi eru eftirfarandi:
Páll Marís Páls­son – Suðvestur 
Guðmund­ur Há­kon Her­manns­son – Suðvestur
Fjóla Hrund Björns­dótt­ir – Suður
Lilja Rann­veig Sig­ur­geirs­dótt­ir – Norðvestur
Hinrik Bergs­son – Reykjavík
Ró­bert Smári Gunn­ars­son – Norðvestur
Snorri Eld­járn Hauks­son – Norðaustur 
Tanja Rún Krist­manns­dótt­ir – Norðaustur
Bjarni Dag­ur Þórðar­son – Suðvestur
Gauti Geirs­son – Norðvestur
Hild­ur Guðbjörg Bene­dikts­dótt­ir – Suður
Marta Mirjam Krist­ins­dótt­ir – Reykjavík
Málefnaályktanir SUF 2017

Categories
Fréttir

Það er ekki verið að veita lán af einskærri góðmennsku

Deila grein

08/02/2017

Það er ekki verið að veita lán af einskærri góðmennsku

eyglo_vef_500x500„Virðulegi forseti. Að undanförnu hafa borist fréttir af því að verið sé að bjóða allt að því 95% lán til kaupa á fasteignum. Ég vil fá að koma hér og lýsa yfir áhyggjum af þeirri þróun. Það kom fram í máli hagfræðings ASÍ í gær að í þeim lánum felst umtalsverð áhætta. Það þarf mjög lítið til að kaupandi lendi í vandræðum. Það hefur oft verið þannig og það verið rökstutt að erfitt sé fyrir ungt fólk að kaupa sér húsnæði. Tölur sýna hins vegar að í dag eru nýir kaupendur 20–25%, um fjórðungur til fimmtungur, af þeim kaupsamningum sem verið er að gera. Vandinn sem við erum að fást við snýr ekki að eftirspurn, hún er næg, heldur að framboði á húsnæði. Ég vil því minna þá sem hafa í hyggju að bjóða upp á þess háttar lánveitingar að þann 20. október sl. samþykkti Alþingi ný lög um fasteignalán. Þau taka gildi 1. apríl 2017. Þar er m.a. fjallað um slíkar lánveitingar þannig að það er ekki aðeins verið að eyrnamerkja þær sem eru með veði í fasteign heldur líka lán sem eru veitt í þeim tilgangi að kaupa eða viðhalda eignarrétti á fasteign. Þar er Fjármálaeftirlitinu, að fenginni tillögu frá fjármálastöðugleikaráðinu, sem ég vona svo sannarlega að Fjármálaeftirlitið hafi fengið, ætlað að setja reglur um hámark veðsetningarhlutfalls, sem getur verið 60–90%, og líka reglur um takmörkun í hlutfalli við tekjur neytanda, þess sem tekur lánið, annars vegar varðandi heildarfjárhæð og hins vegar greiðslubyrðina. Þessi ákvæði eru nokkuð sem Seðlabankinn hafði kallað eftir sem hluta af þeim þjóðhagsvarúðartækjum sem þyrftu að vera til að tryggja hér efnahagslegan stöðugleika.
Það er ekki verið að veita lán af einskærri góðmennsku, við verðum að hafa það í huga, og það hefur svo sannarlega sýnt sig að lán er ekki sama og lukka.“
Eygló Harðardóttir í störfum þingsins 7. febrúar 2017: