„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég og hv. þingmaður erum sammála um að bæta þurfi kjör bæði aldraðra og öryrkja. Það hefur verið gert á þessu kjörtímabili en afar mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut og gera enn betur því að enn erum við með of stóran hóp sem hefur of lítið á milli handanna.
Á þessu kjörtímabili setti ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks það í forgang að draga úr skerðingum sem bótaþegar sættu á síðasta kjörtímabili. Strax sumarið 2013 var afnumin sú regla að lífeyrissjóðstekjur skertu grunnlífeyri, frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþegar og öryrkja var hækkað, frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna var hækkað, víxlverkunarsamkomulag vegna bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða var framlengt, skerðingarhlutfall tekjutrygginga var lækkað í 38,35% þann 1. janúar 2014. Þetta þýðir að bætur eru nú 7,4 milljörðum kr. hærri á ári en annars væri.
Virðulegur forseti. Aðgerðir sem lúta að málaflokknum á þessu ári og því næsta eru að bætur munu hækka um 14,2 milljarða þann 1. janúar 2016, hækkun upp á 9,7% er inni í þeirri tölu og inni í þeirri tölu eru 3,9 milljarðar sem eru afturvirk hækkun vegna meðaltalslaunaþróunar á árinu. Sú hækkun bætist ofan á 4,3 milljarða sem aldraðir og öryrkjar fengu í janúar 2015. Samtals er því hækkun til málaflokksins vegna meðaltalslaunaþróunar á þessu ári 8,2 milljarðar. Hækkun á bótum til aldraðra og öryrkja frá janúar 2015–2016 eru því samtals 18,5 milljarðar. Samtals skila aðgerðir kjörtímabilsins því að bætur á næsta ári verða 26,8 milljörðum hærri en þær hefðu annars verið, þ.e. 26,8 milljarðar fara beint til aldraðra og öryrkja sem er samtals 17,1% hækkun.
Í lokafjárlögum síðustu ríkisstjórnar nam heildarfjármagn til málaflokks almannatrygginga 77 milljörðum, en í fjárlögum fyrir árið 2016 nemur framlagið 103 milljörðum.
Eins og ég hef sagt hefur margt verið gert, en við verðum að halda áfram.
Virðulegur forseti. Stóra verkefnið er ekki einskiptisaðgerð. Ég vil taka undir orð hv. þm. Karls Garðarssonar um að lágmarksgreiðslur aldraðra og öryrkja eigi að ná 300 þús. kr. á innan við þremur árum og fylgja þar með lágmarkslaunum. Ríkisstjórnin verður að stíga skrefið til fulls og tryggja þessum hópi 300 þús. kr. lágmarkslaun.“
Elsa Lára Arnardóttir — störf þingsins 11. desember 2015.
Categories
„Ríkisstjórnin verður að stíga skrefið til fulls“
14/12/2015
„Ríkisstjórnin verður að stíga skrefið til fulls“