„Hæstv. forseti. Hér í upphafi þingsins kem ég upp til að ræða störf þingsins. Mig langar að segja að ég tel að í upphafi þings sé okkur hv. þingmönnum öllum hollt að líta í eigin barm og skoða hvað við getum gert betur í störfum okkar.
Þetta segi ég af því að á síðustu vikum og dögum haustþings var erfiður vinnuandi og hlutirnir gengu verulega hægt vegna þess að hægt er að nota málþóf sem tæki til að reyna að koma málum sínum á framfæri og til að reyna að mótmæla öðrum þáttum.
Ég vil segja að ég tel mjög mikilvægt að sú nefnd sem nú er að störfum í þinginu, þingskapanefnd, fundi og reyni að finna lausn á þessum málum og komi fram með ramma sem væri til þess að auka virðingu þingsins og okkar sem hér störfum með betra vinnulagi. Það er afar brýnt að sú nefnd skili af sér störfum sem allra fyrst.
Í ræðu minni langar mig jafnframt til að hrósa hv. velferðarnefnd þingsins en þar er mikið álag þessa dagana þar sem stór og viðamikil velferðarmál eru til vinnslu er varða húsnæðismál. Þar eru fjögur húsnæðismál til umræðu. Nefndin hefur fyrir upphaf þings verið með aukafundi með lengdri fundarveru og mig langaði að nýta þetta tækifæri, því að þetta er mikið álag, til að þakka hv. þingmönnum sem eiga sæti í þeirri nefnd fyrir það verk.
Ég vona að við höldum áfram þeirri góðu samvinnu sem er í nefndinni um málin og reynum eftir fremsta megni að klára þau eins hratt og vel og hægt er.“
Elsa Lára Arnardóttir — Í störfum þingsins miðvikudaginn 20. janúar 2016.
Categories
Málþóf skapar erfiðan vinnuanda
21/01/2016
Málþóf skapar erfiðan vinnuanda