Hæstv. forseti. Það er fagnaðarefni að heyra að Bankasýsla ríkisins skuli ætla að kanna sölu Landsbankans á Borgun. Sá sem hér stendur sendi Bankasýslunni formlegt erindi í fyrra þar sem farið var fram á það að söluverð hlutarins í Borgun yrði metið en Bankasýslan treysti sér þá ekki til að verða við erindinu.
Það veitir ekki af því að taka þetta mál og athuga það vegna þess að ljóst er að forustumenn Landsbankans hafa orðið margsaga í þessu máli. Upphaflega sagði bankastjórinn að landsbankamenn hefðu ekki getað metið hlut Borgunar almennilega en gat þess samt að söluverðið væri hagstætt. Seinna í ferlinu lét hann það flakka að Samkeppniseftirlitið hefði herjað mjög á Landsbankann um að selja þennan hlut en það hefur komið í ljós að það er ekki rétt.
Nú halda landsbankamenn því fram að þeir hafi ekki getað vitað um svokallaðan hvalreka, eða á ensku „windfall“, sem varði það að Visa Inc. keypti evrópska hluta Visa.
Nú er það ekki saknæmt athæfi að vera fávís eða illa upplýstur, en hitt er annað mál að í þessu tilfelli er það rándýrt fyrir almenning í landinu. Það bárust nefnilega vísbendingar snemma árs 2014 á opinberum fréttamiðlum um þennan hvalreka sem væntanlegur var. Þá var líka getið um áhrif af sölu Visa Europe til Visa Inc. í árshlutareikningum og upplýsingum Visa Inc. þar sem þetta kemur fram.
Hafi menn í Landsbankanum ekki vitað af þessu bendir það til þess að þeir séu ekki mjög vel starfi sínu vaxnir og ættu að finna sér eitthvað annað að gera. Hafi þeir hins vegar búið yfir þessum upplýsingum og látið hjá líða að nýta þær er sama niðurstaða auðfengin. Stjórn Landsbankans á að víkja út af þessu máli.
Þorsteinn Sæmundsson — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.