Categories
Fréttir

Er ferðamannastraumurinn bóla sem gæti sprungið?

Deila grein

03/02/2016

Er ferðamannastraumurinn bóla sem gæti sprungið?

Sigurður Páll Jónsson 005Hæstv. forseti. Ferðamennska hefur stóraukist hér á landi undanfarin ár og er það ánægjuleg þróun þó að sumum þyki nóg um. En staðreyndin er sú að um 30% af landsframleiðslu kemur úr ferðamannageiranum. Auknum ferðamannastraumi fylgir aukið álag á alls konar þætti, suma fyrirséða og aðra ófyrirséða. Aukið álag á landsvæði hefur þegar komið í ljós og hafa stjórnvöld brugðist við að hluta til með breytingum á lögum um náttúruvernd. Álag á vegi landsins hefur aukist og kemur það aðallega niður á umferðaröryggi sem meðal annars hefur birst í auknum fjölda umferðarslysa hjá ferðamönnum sem ekki eru vanir íslensku gatnakerfi með of mörgum einbreiðum brúm, mjóum vegum auk malarvega og fleira.
Álag á vegi jókst einnig til muna eftir að strandsiglingar ríkisins voru aflagðar og þungaflutningar voru færðir á gatnakerfið. Það mætti að mínu mati taka snúning á því í umræðunni hvort flutningur á þungavöru um strendur landsins væri betur kominn sjóleiðis til að minnka álag á vegi. Dreifing ferðamanna um landið þyrfti að vera meiri og koma ferðafólks hefur nær eingöngu verið í gegnum Keflavík sem stýrir fólki meira um suðvesturland.
Egilsstaðaflugvöllur er kostur sem gera á tilraun með í vor með móttöku ferðamanna í sex mánuði fyrst í stað og ætti það að dreifa álaginu á landið og auka umsvifin fyrir austan og norðan. Það verður spennandi að sjá hvernig það gengur.
Koma farþegaskipa hefur aukist, en stærri hafnir landsins eru betur í stakk búnar að taka á móti þeim. Þó hefur minni farþegaskipum fjölgað og er ágætisreynsla að skapast í hringferðum slíkra skipa í kringum landið með viðkomu á ýmsum stöðum. Er ferðamannastraumurinn bóla sem gæti sprungið? Spyr sá sem ekki veit. Gakktu hægt um gleðinnar dyr, segir einhvers staðar, en þó örugglega og glaðlega.
Sigurður Páll Jónsson — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.