Categories
Fréttir

Umsögn Seðlabankans jákvæð

Deila grein

03/02/2016

Umsögn Seðlabankans jákvæð

Elsa-Lara-mynd01-vefurHæstv. forseti. Þessa dagana vinnur hv. velferðarnefnd þingsins með húsnæðisfrumvörp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Í gær birti Seðlabankinn umsögn sína vegna þessara mikilvægu mála. Það er skoðun bankans að áhrif frumvarpanna verði í samræmi við þau markmið sem frumvörpunum er ætlað að ná, þ.e. að koma til móts við húsnæðiskostnað leigjenda. Það er skoðun bankans að áhrif frumvarpanna verði í samræmi við markmið þeirra að lækka húsnæðiskostnað þeirra sem eru á leigumarkaði með auknum húsnæðisbótum og auknu framboði á húsnæði fyrir efnaminni leigjendur. Um frumvarp um húsnæðisbætur segir í umsögn Seðlabankans, með leyfi forseta:
„Það felur í sér að þær fjölskyldur sem njóta kostnaðarþátttöku ríkisins samkvæmt frumvarpinu munu með tímanum þurfa að ráðstafa nokkru minni hluta tekna sinna en ella til húsnæðis og þar af leiðandi hafa meira til ráðstöfunar í aðrar neysluvörur og sparnað.“
Í umsögn Seðlabankans um almennar íbúðir fyrir efnaminni leigjendur segir, með leyfi forseta:
„Með frumvarpinu er lagt til að verulegum fjárhæðum verði varið til uppbyggingar á leiguhúsnæði sem verði ráðstafað til tekjulágra og annarra sem tilgreindir eru í frumvarpinu. Að öðru óbreyttu mun slíkt leiða til þess að leiguverð á slíkum íbúðum lækkar.“
Þessi umsögn er í samræmi við það sem ráðgjafarfyrirtækið Analytica benti á í umsögn sinni þegar umrædd frumvörp voru til vinnslu innan velferðarráðuneytisins. Ríkið hefur sett verulega fjármuni í húsnæðismál undanfarin ár eða frá árinu 2008 en þar er um að ræða útgjöld til Íbúðalánasjóðs, útgjöld í vaxtabætur, sérstakar vaxtabætur og útgjöld til niðurfellingar á verðtryggðum húsnæðislánum heimilanna. Sá hópur sem umrædd frumvörp eiga að ná til og eru í vinnslu innan hv. velferðarnefndar hefur ekki fengið úrbætur í húsnæðismálum. Því er mikilvægt að þessi frumvörp nái fram að ganga. Allir hv. þingmenn verða að hafa það í huga að umrædd frumvörp eru tengd kjarasamningum og hluti þess að kjarasamningar tókust á almennum vinnumarkaði síðasta vor.
Elsa Lára Arnardóttir — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.